laugardagur, 28. maí 2011

Skemmtilegt andartak























Mér er farið að þykja svo vænt um þessa mynd og þá sérstaklega eftir að ég kom heim. Ég skoða hana oft og þá rifjast upp fyrir mér þetta andartak þegar ég tók myndina. Við vorum búnar að fara á fyrsta flóttamannasvæðið og höfðum ákveðið að fara bara heim aftur en þá gafst okkur tækifæri til að hitta Lækni sem vinnur fyrir Muslim Aid í læknamiðstöð sem er staðsett mjög strategískt við eitt flóttamannasvæðanna. Það var að sjálfsögðu mjög mikilvægt að fara og hitta þennan mann en það þýddi klukkutími í viðbót í bílnum á sveitavegum sem voru hlykkjóttir og alls skonar ökutæki að keyra á öfugum vegarhelmingi á blindhæðum og 90 gráðu beygjum. Við ætluðum alltaf að reyna að ná á þennan lækni í bænum en þarna gafst tækifæri til að sjá læknamiðstöðina og tala við hann í leiðinni, eftir diskúsjón sem ég tapaði ákváðum við að leggja þennan klukkutíma krók á okkur. Ég var ekki kát, bæði vegna þess að ég vissi að ferðafélaginn hafði rétt fyrir sér en líka vegna þess að ég tapa eiginlega öllum diskusjónum við hana. Sem sagt almenn fýla í gangi, en það var reyndar ekkert slæmt því ég var svo reið að ég gleymdi að vera hrædd í bílnum (en við segjum henni ekkert frá því).

Þegar við vorum komin í bæinn þar sem læknamiðstöðin var þurftum við aðeins að bíða eftir lækninum sem síðan lóðsaði okkur að miðstöðinni. Á meðan við biðum, sat ég inni í bíl að reyna að einbeita mér að því að vera í fýlu og ferðafélaginn var úti að tala við börn sem hópuðust að. En þar sem ég sat þarna í fýlukasti sé ég lítinn snáða nálgast bílinn mjög varfærnislega, rúðurnar aftur í voru skyggðar svo hann sá mig ekki utan frá en hann var viss um að það væri eitthvað merkilegt inni í bílnum. Hann læðist að bílnum og þarf að standa á tánum til að sjá inn um gluggann, hann lætur eins og hann sjái ekki bílstjórann sem er nottla bara Bengali og ekkert merkilegur en kemur auga á mig. Í fyrstu er hann grafalvarlegur á svip og gónir á mig, ég reyni að fá viðbrögð frá honum með því að brosa, veifa, geifla mig og ulla á hann en ekkert gengur. Hann bara horfir á mig dolfallinn, við horfumst í augu í dágóða stund og hann virðir mig fyrir sér rétt eins og hann væri í dýragarði að skoða pandabjörn eða eitthvað álíka sjaldgæft dýr.

Eftir smá stund ákveð ég að taka upp myndavélina og taka af honum mynd. Um leið og hann sér myndavélina kemur þetta krúttlega, prakkaralega glott og eru það fyrstu viðbrögðin sem ég fæ frá honum. Ég sýni honum myndina á vélinni og þá fer hann að skellihlægja og hleypur fljótlega eftir það í burtu. Á þessari stundu var mér gjörsamlega fyrirmunað að halda fýlunni áfram en þetta var eitthvað það skemmtilegasta andartak sem ég upplifaði í þessari ferð. Ég veit ekki af hverju mér þykir svona vænt um þessa minningu en mig langaði bara að deila henni með ykkur.

mánudagur, 23. maí 2011

Flóttamannabúðir




Eftirfarandi pistill er skrifaður daginn sem við fórum í óopinberu flóttamannabúðirnar í Cox’s Bazar. Við fórum í tvær búðir en slepptum nokkrum því þetta var bara of erfitt og ekki alveg hættulaust. En ég þorði ekki að birta þetta fyrr en ég væri komin úr landi, ég veit að það hljómar fáranlega og þetta er sjálfsagt nett paranoja en það verður að hafa það. Við heyrðum svo margar sögur frá fólki sem bað okkur að fara varlega bæði okkar vegna og þeirra vegna. En hér kemur sagan:

11. Maí, 2011

Dagurinn í dag hefur svo sannarlega verið viðburðaríkur á margan hátt. Við höfðum fyrr í vikunni fengið símanúmer hjá manni sem tekur að sér að fara með útlendinga að skoða flóttamannabúðirnar í nágrenninu (pínu spes starf). Við höfðum svo pantað hann í dag og æddum af stað í morgun, fengum leigðan bíl og bílstjóra með. Það tók ekki nema sirka 45 mínútur að komast að fyrstu búðunum. Við höfum ekki fengið formlegt leyfi til að heimsækja formlegu búðirnar sem eru vaktaðar með öryggisvörðum svo við fórum bara á hin svökölluðu makeshift svæði. En í búðunum búa um það bil 25 þúsund manns en á svæðunum sem eru 3 búa sirka bát 200.000 manns. Það var því eiginlega mikilvægara að sjá hvernig meirihluti fólksins býr.

Það er eiginlega ekki hægt að lýsa því hvernig þetta var, húsin eru skrifli úr bambus og plastpokum og eru þau öll í ofan í hverju öðru. Það er einhvers konar skipulag á búðunum en við heimsóttum bara hluta þeirra og hittum við búðastjórann og aðstoðar búðastjórann strax við innganginn. Hvert svæði hefur stjóra og hvert hlutverk hans er veit ég ekki og fréttum við reyndar seinna að þetta stjórakerfi væri gerspillt og meirihluti flóttamannanna undir hæl stjóranna.

Við fengum að sjá "skólastofu" þar sem nokkrir flóttamannanna hafa tekið að sér að kennslu gegn greiðslu. Börnin voru forvitin og alls staðar þar sem við komum kölluðu þau á eftir okkur bæ og thank you sem eru sjálfsagt einu orðin sem þau þekkja á ensku. Þeim þótti ofsalega gaman þegar ég tók af þeim myndir og sýndi þeim á skjánum. Þau voru flest með einkenni vannæringar og einhvern húðsjúkdóm en voru ofsalega brosmild sem var örlítið hjartaskerandi (er það orð?).


Um leið og við komum inn í búðirnar náði strákur sambandi við mig og hann talaði fína ensku. Hann spjallaði heilmikið við mig og bað mig vinsamlegast um að reyna allt sem ég get til að hjálpa. Ef ég gæti bara sagt einhverjum sem getur hjálpað þeim frá ástandinu og hvernig yfirvöld bæði í Búrma og Bangladesh ofsækja þau og þá kannski myndi eitthvað breytast. Þegar þarna var komið við sögu var ég næstum hlaupin skælandi inn í bíl aftur en ég hafði það af að labba lengra og skoða aðstæður sem voru vægast sagt hræðilegar. Vatnið sem þau drekka og nota til eldunnar er úr brunni og er grágrænt á litinn. Það voru dýr á vappi þarna svo eitthvað prótín fá þau en það er ekki mikið. Þetta voru vægast sagt ömurlegar aðstæður og því lengra sem við gengum og því fleira fólk sem við hittum því oftar vorum við beðnar um að gera allt sem við getum til að hjálpa. Ég get eiginlega ekki líst vanmáttartilfinningunni sem greip mig og ég virðist ekki getað losnað við.

Þetta mál er ofsalega viðkvæmt fyrir ríkisstjórnina og megum við ekki vitna í neitt af því fólki sem við töluðum við og gerir það okkur frekar erfitt fyrir en við verðum að virða það. Við gætum skaðað meira en hjálpað ef við förum að básúna út um allt hvað fólk er að segja okkur og gera fyrir flóttamennina. Alþjóðlegu hjálparstarfi er gert mjög erfitt um vik og erfitt fyrir hjálparstarfsfólk að veita óskráðu flóttamönnunum aðstoð. Til þess að fá vinnufrið setja flest samtakanna á svæðinu upp verkefni sem dekkar þá bæði flóttamennina og lókal fólk, ríkisstjórnin og sveitarfélögin sjá sér hag í því að innfæddir fái fría læknisþjónustu og menntun frá alþjóðlegum hjálparstarfsamtökum. Þó að þetta sé gert þá eru margar hindranir og var eitt samtakanna að gefa út þá tilkynningu að þau muni hætta störfum og ekki hefja þau aftur nema þau fái frið til að vinna en hvorki starfsfólk né flóttamenn eru örugg og það er óásættanlegt.

Það er enginn pólítískur vilji til að taka á málum flóttamanna og þegar við spyrjum hvers vegna fáum við þau svör að Bangladesh eigi við fleiri vandamál að stríða og hafi ekki tök á því að taka við flóttamönnum. Það reyndar útskýrir ekki af hverju erlend hjálparsamtök fá ekki leyfi til að vinna á svæðinu því það er ekki á kostnað Bangladesh. Stærstu orsakir þess að flóttamennirnir fá mannréttindum sínum ekki fullnægt er spillingin í landinu, fátækt og ofsalega slæmur infrastrúktúr. Það sorglegasta er að það er engin lausn í sjónmáli.

mánudagur, 16. maí 2011

síðasta vikan

jæja þá erum við komnar "heim" til Dhaka aftur og gekk rútuferðin örlítið betur en hún tók "einungis" 14 tíma. En það var svo gott að komast í borgina aftur eins og hvað hún getur farið í taugarnar á mér. Það er svo gott að koma aftur á hótelið þar sem karlarnir þekkja okkur og voru voða glaðir að sjá okkur aftur. Þeir hlógu bara þegar við sögðum frá rútuferðinni og sögðu að nú hefðum við upplifað alvöru Bangladesh, sem er sjálfsagt rétt hjá þeim.

Við lærðum ofsalega mikið á þessari ferð og fengum fullt af upplýsingum. Það sem gerir okkur erfitt um vik er að við megum ekki nafngreina fólkið sem talaði við okkur. Málið er mjög viðkvæmt og þarf að taka tillit til þess.

Núna erum við bara að tjilla í Dhaka aðeins örfá viðtöl eftir. En ég verð voða fegin að komast heim aftur þetta er búin að vera ofsalega fínt og lærdómsríkt en nú er þetta komið gott, ég vil heim. Hitinn er líka að hækka hérna og þurfum við nú að skipta um föt nokkrum sinnum á dag og fara í nokkrar sturtur. Guði sé lof fyrir loftkælikerfi (ég er alveg viss um að hann hafði mikið með þá uppfinningu að gera).

Ég er búin að taka slatta af myndum og mun setja þær inn á flickrið svona jafnóðum en netið hérna er ekkert sérstaklega hraðvirkt svo það er þolinmæðisverk. Ég ætla líka að lauma nokkrum pistlum um ferðalagið í Cox's þegar ég kem heim svo þetta verður ekkert alveg búið þegar ég fer héðan.

fylgist spennt með gott fólk.
bæjó

ps. vá hvað þetta er boring pistill en ég lofa að næsti verður það ekki.

þriðjudagur, 10. maí 2011

Sólarstrandafjör

Jæja elskurnar mínar það held ég að sé kominn tími á blogg. Í fréttum er það helst að ég er komin suður til Cox's Bazar en það er vinsælasti ferðamannastaður þeirra Bengala. Við komumst þar við illan leik á aðfaranótt laugardags, en það sem átti að vera vera 10 tíma ferðalag endaði í svona sirka 18 tímum. Þess skal getið að við vorum að ferðast svona 250 kílómetra. Þetta var ekki stuð og þess vegna ætla ég ekki að eyða fleiri orðum í þessa rútuferð dauðans.

Við mættum í bæinn um miðja nótt og hentumst þess vegna inn á fyrsta hótelið sem við sáum og höfðum við rútustarfsmanninn með í för. Hann var svo elskulegur að taka okkur upp á sína arma þegar honum var tjáð að við værum ekki með pantað neins staðar og sá okkur rýna í Lonely Planet bókina okkar. Fyrsta hótelið var sko ekki kræsilegt en á meðan við biðum eftir því að stórskrítni consíersinn athugaði með herbergi tölti rotta yfir gólfið. Þið sem ekki þekkið hinar ýmsu núrósur og fóbíur stelpunnar megið vita það að henni var ekki skemmt. En sökum þreytu orkaði ég ekki annað en að setja fæturnar upp á borð og grípa um eyrun, þetta þótti rútustarfsmanninum frekar fyndið. Þetta var nottla bara rotta, hvaða væll er þetta. Það versta er að þetta er ekki einu sinni eina rottan sem ég hef rekist á hér í bæ. Það var önnur á ressanum sem við borðuðum á fyrsta kvöldið en þá var ég úthvíld og gat sko demonstrerað alvöru viðbrögð. Ferðafélaginn minn sem hefur nú kynnst því af alvöru hversu taugaveikluð týpa ég er fékk þarna fyrst að kynnast því hvers ég er megnug í þeim málum. En ég borðaði nú samt.

En síðan þá hef ég ekki séð rottu en hins vegar farið frá einu hóteli til annars og loksins núna erum við á rosalega fínu hóteli með öllu tilheyrandi. Við erum líka búnar að fá fleiri viðtöl og allt að gerast, ég verð víst að éta það ofan í mig með gaura sem vinna hjá Sameinuðu Þjóðunum því sá sem við hittum hér er algjör elska. Hann ætlar líka að bjóða okkur út að borða annað kvöld, ligga ligga lái.

Hér í borg eru allir álíka hressir og í Dhaka en virðast margir hverjir enn spenntari fyrir útlendingum. Það er erfitt að komast á milli staða þar sem við völdum umferðarteppum alls staðar og í dag tókst ferðafélaganum að valda fyrsta árekstrinum. En það hafði legið í loftinu lengi. Þetta var ekkert stór árekstur bara svona þríhjólataxi sem nuddaðist uppí reiðhjól með kassa í eftirdragi. En fólk stoppar bara og gónir og hirðir ekkert um hver eða hvað er fyrir aftan.

Flestir góna bara en svo eru sumir sem heilsa: Good afternoon mam, how are you? ég: fine thanks how are you? good mam thank you, what country? Iceland, aah thank you mam og svo ganga sína leið. Þetta samtal hef ég átt svona þrjúhundruð þúsund sinnum síðan ég kom til Bangladesh og svona tvöhundruð og fimmtíu þúsund sinnum hér í Cox's. Það er alveg huggulegt og allt það en þegar það er orðið erfitt að fara yfir götu því það eru fimm gaurar, tveir rikshaw og einn þríhjólabíll að reyna að ná athygli minni þá verð ég pínu pirruð. En það er um að gera að tapa ekki gleðinni og brosa, þá verða allir glaðir og brosa á móti.

Annars gengur allt voða vel bara, áttum alveg rosalega fínt viðtal í dag og ætlum að reyna flóttamannabúðirnar á morgun. Stuð Stuð Stuð.

bæjó

mánudagur, 2. maí 2011

Leidís först

Við höfum lært örfáa bangladesíska siði síðan við komum, ekki mjög marga bara nokkra. Það fyrsta sem ég rakst á tíðkast reyndar kannski ekki bara hér en það er samþykki nikkið. Það er svona hliðar nikk og þá halla þau höfðinu til beggja hliða til að segja: já einmitt. Ég var pínu lengi að taka við mér en ferðafélaginn minn hefur séð þetta fyrirbæri áður. En ég hélt alltaf áfram að spyrja og fékk, að mér fannst, engin viðbrögð. Ég hreinlega sá ekki þennan fídus með höfuðið. Þetta er mjög krúttlegt og skemmtilegt en við erum báðar farnar að gera þetta bara ósjálfrátt út í loftið á kolvitlausum stöðum.

Annar siður er nokkuð sem við höfum rekist á þegar við förum út að borða en það er til siðs að mata hvort annað, alla vega fyrsta bitann. Við sáum strákana gera þetta við stelpurnar, tóku hrísgrjónahrúgu eða brauð með sósu á og tróðu uppí stelpurnar alveg eins og þeim væri borgað fyrir það. Við hinsvegar lærðum þetta þegar við fórum í hádegismat með stelpunni sem við kynntumst á snyrtistofunni. Hún teygði sig yfir borðið og stakk uppí okkur chapati brauði með kjúllakorma á. Við urðum pínu hvumsa en þar sem við höfðum séð þetta áður urðum við ekkert hræddar eða svoleiðis sko. Stelpan, (sem ég get ekki munað hvað heitir en það er alltílæ því hún man ekkert hvað ég heiti) útskýrði svo fyrir okkur að þetta væri svona aðdáunarmerki eða mér þykir vænt um þig merki. Pínu krúttlegt en aðallega óþægilegt.

En uppáhalds siðurinn er án efa "ladies first" siðurinn. Við fórum á lestarstöðina til að kaupa miða til að komast suðurábóginn og stóðum í first class röðinni (ekkert minna dugir okkur) þegar strákar í næstu röð kölluðu yfir til okkar: LADIES FIRST og bentu í átt að afgreiðslumanninum. Við urðum pínu feimnar og þorðum ekki að hlýða, sérstaklega þegar karlinn fyrir framan okkur skammaði strákana (að því er okkur virtist). En svo eftir fáeinar mínútur kom önnur kona (nóta bene lestarstöðin var full af karlmönnum) og fór bara beinustu leið fram fyrir og keypti sinn miða. Okkur var þá ekki til setunnar boðið og óðum bara beint á eftir henni og krúttkarlinn sem var fremstur brosti til okkar og sagði bara: ladies first. Við brostum á móti hinar kátustu og keyptum first class miðann okkar.

Annað er nú ekki í fréttum góðir hálsar svo ég bara kveð að sinni, bæjó

laugardagur, 30. apríl 2011

maní og pedí !

Þá er liðin vika síðan stelpan mætti til Dhaka og innan við 3 vikur eftir sjííís og við eftir að fara til Cox's Basar og allt. Það er að reynast pínu erfitt að fá viðtöl við NGO-in (hjálparstarfsfélög) í Cox's Basar þar sem þau eru undir mjög miklu eftirliti frá ríkisstjórninni. Ríkisstjórnin vill enga krítík á það hvernig flóttamenn eru meðhöndlaðir og vill helst losna við hjálparstarfsfélögin. Félögin eru því mjög lítið áberandi þarna niðurfrá og starfsmenn virðast hissa á því að við vitum að þau séu starfrækt á svæðinu. Það verður því mjög spennandi að sjá hvort að við fáum einhver viðtöl á svæðinu en næsta vika fer í að reyna að ná í höfustöðvar hina ýmsu félaga hér í Dhaka. En ef við förum suður þá er þetta allt að verða ansi tæpt tímalega séð, tíminn bókstaflega flýgur.

En við erum nú samt búnar að taka okkur frí þessa helgi og reyna að skoða borgina aðeins. Helgin hefst á föstudegi og eru því sunnudagar eiginlega eins og mánudagar,pínu skrítið. Núna er nottla 1. maí á sunnudaginn og hann er opinber frídagur hér í landi, en það kom okkur dáldið á óvart. Í gær gerðum við heiðarlega tilraun til þess að finna indverska hverfið og hinn svo kallaða Nýja markað en það gekk ekkert sérstaklega vel. Við fundum hins vegar Lalbag Kella sem er garður sem er girtur steinveggjum og innan veggjanna eru nokkur grafhýsi sem voru byggð á öldum áður. Það er svo sem ekkert í frásögur færandi annað en þar urðum við allt í einu aðal attraksjónið, útlendingar í Dhaka. Fólk gekk upp að okkur og bað um að taka myndir af okkur og aðrir tóku bara myndir úr fjarlægð en við vöktum mikla athygli. Meira að segja aðrir túristar tóku myndir af okkur. Mjög sérstök upplifun, pínu svona eins og Madonna bara! ha? haldiði að það sé? Það er alls staðar horft á okkur en þetta var aðeins meira en venjulega.

En ferðafélagi minn er orðin lasin og urðum við því frá að hverfa í gær úr rykinu og hávaðanum og fórum við bara snemma að sofa sem var mjög gott. Í dag fórum við aðeins styttra en líka í leit að markaði og fundum hann. En eftir markaðinn, tatatatammm, fór ég í maní og pedí (hand- og fótsnyrtingu). jiii hvað það var skrítið og ekkert sérstaklega þægilegt en ég er voða fín núna og verð sjálfsagt í svona tíu mínútur í viðbót. En fyrir utan að þjala, raspa og skrúbba var öllum skönkum dýft í vax, svona doldið eins og kertavax, brennandi heitt kertavax. Eftir það var þeim pakkað inn í plastfilmu og sat ég þannig í sirka 10 mínútur og það sem mig klæjaði rosalega í nefið, úff.

Á snyrtistofunni hittum við unga stúlku sem var ægilega sæt og skemmtileg og ákváðum við að fara með henni í hádegismat. Hún sagði okkur að hún væri búin með B.A. próf og stefndi á meistaranám en foreldrar hennar væru ekkert sérstaklega hrifin af því vegna þess að hún á að gifta sig. Hún á kærasta sem hún er búin að vera í fjarbúð með í 5 ár en hann býr í öðrum bæ í nokkurra klukkutíma fjarlægð. Í hvert skipti sem hún fer heim suða foreldrar hennar í henni að fara nú að gifta sig en hana langar það ekki svo hún hætti bara að heimsækja þau, helvíti fínt.

Núna erum við bara komnar aftur heim og ferðafélaginn að leggja sig sem mér finnst bara fínt, ég hef ofsalega litla orku í að vera úti í þessum hávaða en það hlýtur nú að fara að venjast, ha? er þaggi? þetta segi ég við mig á hverjum degi, já kannski daginn áður en við förum venst ég þessu.

mánudagur, 25. apríl 2011

Af plebbisma og bangladesískum fríkadellum

Jæja þá er dagur þrjú í Dhaka að verða búinn og stelpan orðin töluvert sjóaðri en hún var í byrjun. En það verður að segjast að þessi umferð er ekkert grín og hávaðinn, ussss þessi hávaði. Í dag tókum við þriðja viðtalið á tveimur dögum en það var við plebba hjá sameinuðu þjóðunum. sjííís hvað hann var mikill plebbi, afsakið þó að ég bara segi það hreint út. Hann var hrokagikkur með mikilmennskubrjálæði og hnussaði hreinlega yfir sumum spurningunum. Það hafði nú samt ekki tilætluð áhrif þar sem við fengum síður en svo minnimáttarkennd, við gengum út hlægjandi að þessum kjánaskap. Hann var voða hrifinn af því að segja mér allt sem hann vissi um Ísland en hann var víst að deita íslenska stelpu í tvö ár. Hann var ekki eins hrifinn af Danmörku, ég verð að viðurkenna að það hlakkaði aðeins í minni þá.

Viðtölin í gær við lókal gæjana gengu miklu betur, þeir voru ekkert að þykjast vera neitt annað en þeir eru. Svöruðu kannski ekki öllum spurningunum en brostu þá allavega þegar þeir sögðu: now you are approaching a critical issue.

Í morgun fórum við líka á lítinn markað þar sem var hægt að kaupa allt milli himins og jarðar. Skrítnastur var nú samt kjötmarkaðurinn þar sem kjötið stóð fyrir utan í taumi og beið slátrunar. Skemmtilegastir voru karlarnir 5 sem sátu við saumavélar og saumuðu án afláts, þeir voru með svona svartar saumavélar sem þarf að stíga, voða hressir.

Það allra erfiðasta við þessa borg eru betlararnir en þeir eru ansi víða og þá börnin sérstaklega erfið ekki bara vegna þess að þau eru börn en þau eru líka ágengust og oft þykjum við ekki gefa alveg nóg. Það er ofsalega erfitt að horfa upp á eymdina hérna.

En á móti kemur að hér eru margir ofsalega hressir og sérstaklega glaðir að sjá útlendinga, það gerist greinilega ekki alveg á hverjum degi. Okkur er heilsað mjög kurteisislega á hverju götuhorni, good evening mam, how are you? mjög huggó allt saman.

Eftir viðtalið ógurlega fórum við í rólegheit í Norræna klúbbinn og skrifuðum upp viðtalið og snurfusuðum við laugina. Það er nú skrítinn staður, HA? shjííís. Þar eru allir plebbarnir saman komnir með fjölskylduna í tennistíma eða í sundlaugina og drekka bjór. Áfengi er almennt bannað hér í Bangó en útlendingar mega drekka, af því þeir eru ekki múslimar, þetta er allt mjög líberal hérna. Við ákváðum að borða þar líka áður en við fórum heim og viti menn! Á matseðlinum var ekki einn einasti bangladesíski réttur en það var hins vegar hægt að panta fríkadellur. Þetta var svona lítil Skandinavía í miðju bangladesíska brjálæðinu. Mjög spes. En ég ætla samt í maní og pedí og ætla ekki að fá samviskubit yfir því og hana nú (kannski er ég bara plebbi inn við beinið eftir allt saman)