miðvikudagur, 12. desember 2007

Hvítlaukur hressir, bætir og kætir

Jibbý!!!

ég er búin með hundleiðinlegu ritgerðirnar en á eftir að fara í próf á föstudaginn. Þarf að undirbúa spurningar fyrir það. Svo er ein ritgerð eftir og svo tvö próf og svoooooooo víííííííííi koma heim.

Það eru allir að týnast heim einn af öðrum hér og í gær fórum við á veitingastað til að kveðja Valentínu. Þessi staður er merkilegur fyrir þær sakir að allt á matseðlinum inniheldur hvítlauk. Meira að segja eftirréttirnir innihalda hvítlauk. Dagmar fékk sér súkkulaði parfait og í því voru hráir hvítlauksbitar, djöfuls viðbjóður! Hvítlaukur og súkkulaði eiga ekki saman! En ofnbakaði hvítlaukurinn í forrétt var æðislega fínn og aðalrétturinn líka. Eftir þetta allt saman fengum við stærðarinnar búnt af steinselju til að drepa lyktina því guð minn góður hún var rosaleg. Ég var að kafna úr eigin andfýlu, steinseljan virkaði en bara tímabundið því svo þegar ég fór að sofa fann ég hana aftur.

Ég er alveg að verða búin með jólagjafakaup svo ef það eru einhverjar séróskir þá fer hver að verða síðastur. Það er hægt að fá svona prittí vúman stígvél sem eru glansandi og ná upp á mitt lærið. Vínrauðir karlmanns pelsar eru á sanngjörnu verði og litlu karlmannshliðartöskurnar sívinsælu vaxa á trjánum. Áhugasamir láti mig bara vita og ég geng í málið.

sunnudagur, 9. desember 2007

prófatíð

Nú er törnin aldeilis byrjuð og ritgerðasmíð í fullum gangi. Er búin með þrjár og á eftir að skila fjórum. Stjórnendur þessa skóla eru brjálaðir í ritgerðir og finnst ekkert skemmtilegra en að lesa ritgerðir. Þær sem ég er búin að skila nú þegar eru huuund leiðinlegar og hinar sem ég á eftir að skila verða huuuundleiðinlegar! En svona er lífið.

Nú þegar jólin nálgast er fátt sem minnir á jólin alla á minn mælikvarða. Engin jólaljós svo heitið geta og enginn snjór. Það er þó búið að setja upp skautasvell í miðbænum og nokkra jólamarkaði. Kannski er ég bara ekki komin í jólaskapið enn þá.

Á föstudaginn fór ég á litlu jólin og áttum við að mæta með einn rétt hver. Ég kom með ægilega fínt kjúklingasalat. Það var líka svona pakkaleikur þar sem maður þurfti að kasta tening til að fá pakka. Svo þegar það var búið að dreyfa öllum pökkunum hélt teningakastið áfram og stelikeppni tók við þar sem maður gat tekið pakka af einhverjum öðrum ef maður fékk 6. Jii hvað mér þótti þetta spes leikur og sko ekki í anda jólanna.

Eftir mikið át og pakkafjör var dansað og farið í limbó. Það er orðin fastur liður eins og venjulega að dansa limbó og það er rosa stuð. Gæti bara ekki hugsað mér betri jólaleik en limbó svona ef ég hugsa út í það. Ekki voru allir til í limbófjörið en við hressa fólkið létum það ekki á okkur fá. Hef ég nú ákveðið að innleiða þennan skemmtilega leik í íslenskt partýlíf.

miðvikudagur, 5. desember 2007

Good morning sunshine

hæ,

Ég er að upplifa svo ægilega fínan dag eitthvað og varð að deila því með einhverjum.

Í gær fór ég að sjá Hnotubrjótinn í óperunni og ég verð bara að vera hreinskilin og segja að ballet virðist ekki vera sterkasta hlið letta. Það voru nokkrir færir dansarar inn á milli en þeir voru útlendingar. Það skal tekið fram að ef ég sé að einhver er ekkert spes ballet dansari þá hlýtur hann að vera ansi slakur greyið. Eftir ballettinn fór ég heim en hinir fóru á pöbbinn. Ég þurfti nefnilega að skrifa ritgerð fyrir daginn í dag. Um klukkan 2 í nótt var ég enn að bisa við ritgerð og að spjalla smá á msn þegar meðleigjandinn og vinur okkar hann Róbert frá Svíþjóð birtust ofsa hressir á stofugólfinu hjá mér. Þeir stóðu þarna brosandi út að eyrum og buðu mér bjór sem ég þáði. Þó að þetta hafi orðið til þess að ég skrifaði ekki staf í viðbót og er þess vegna að fara að skila ritgerðinni alltof seint þá gat ég ekki látið þetta fara í taugarnar á mér. Þeir voru bara svo fyndnir og krúttlegir.

Okei og nú koma allir litlu hlutirnir sem eru að gera daginn minn svona fínan. Ég náði að vakna í tíma fyrir tíma! haha! orðadjók! En hann byrjaði klukkan 10.15 og ég mætti bara 10 mínútum of seint þrátt fyrir að hafa vakað til 4 af fyrrgreindum ástæðum. Þá kom í ljós að það var umræðutími og í hann er mætingaskylda. jiiiiii ég var svo fegin að hafa verið hörð við sjálfa mig og dröslast af stað. Hafði ekki hugmynd um að það væri umræðutími í dag, þvílík heppni!

Þegar ég spjallaði svo við samnemendur mína kom í ljós að tíminn sem ég skrópaði í til að fara á Hnotubrjótinn féll niður og ég fæ því ekkert skróp í kladdann. Þvílík heppni!

Ég var rosa svöng eftir tíma þar sem morgunverður fær að víkja fyrir smá snúsi. Ég fór þess vegna í uppáhaldsmatvörubúðina mína, Stockman. Mig grunaði nefnilega að þar væri til alvöru smjör en í hverfisbúllunni minni er bara til margarín. Það er ekki hægt að borða harðfisk án þess að hafa smjör og viti menn ég hafði rétt fyrir mér. Í þessari dýru og fensí búð var til alvöru smjör, þvílík heppni!

Ég lagði mig eftir hádegismatinn minn sem varð mjög fjölbreyttur eftir vel heppnaða ferð í Stockman. Dreymdi alveg ótrúlega vel og vaknaði í enn betra skapi. Núna var ég að enda við að borða ótrúlega vel heppnað hakk og spaghetti á la Rigastelpan. Ætli matur bragðist betur af því maður er kátur þegar maður borðar hann eða af því maður er kátur þegar maður býr hann til?

Það er alveg ótrúlegt hvað það þarf stundum lítið til að gleðja mann :)

mánudagur, 3. desember 2007

Ég er svo aldeilis skelfingar óskaplega hissa

Ég veit ekki af hverju þetta er að koma mér á óvart en svona er ég bara bjartsýn eða eitthvað. Mamma sendi mér afmælisgjöf og gerði það sirkabát viku fyrir afmælisdaginn, hún setti hana líka í forgang svona til þess að þetta kæmist örugglega til skila. Fyrir um það bil 5 dögum fékk ég tilkynningu um böggul á pósthúsinu. Ekki í frásögur færandi fyrir utan það hversu seint þessi tilkynning barst, mamma var meira að segja búin að kjafta í mig hvað ég fengi. Ég dembi mér í að sækja gjöfina fínu en pósthúsið mitt segir mér að ég verði að fara á flugvöllinn til að sækja pakkann.

Svolítið langt að fara en Valentina ætlaði að sækja hann fyrir mig þegar hún fór að sækja mömmu sína á flugvöllinn. En þá var pósthúsið lokað svo ég þurfti bara að drífa mig í dag. Mér fannst þetta nú nógu mikið vesen fyrir en óraði ekki fyrir því hversu rosalega mikið vesen þetta yrði. Ég hendist út á völl og var komin á mettíma eða um 30 mínutum en þá kemst ég að því að þetta var vitlaust pósthús. Ekki að örvænta rölti ég af stað á það rétta og tók það 20 mínútur, allt í góðu ennþá. Ég kem inn og sé að það er bara einn í röðinni á undan mér og hrósa happi yfir því. Það tók hálftíma að afgreiða manninn. Hinar konurnar voru voða uppteknar við að lesa blaðið og borða köku. Svo tekur konan við sneplinum mínum og byrjar þá yfirheyrslan: er þetta Pora einkaaðili eða fyrirtæki? Nei Pora er ég. Já já og þetta asdis er manneskja líka? já það er mamma. Augnablik segir hún og ég bíð á meðan hún tekur 3 kúnna fram fyrir mig.

Þegar konan loksins stendur upp til að ná í kassann byrjar önnur yfirheyrsla. Hvað er í pakkanum? og hvað kostaði það? Ég náttúrulega veit það ekkert alveg því þetta er afmælisgjöf, Kommonn!!! En ég held ró minni ótrúlegt en satt. Konan opnar pakkann minn og veit þá á undan mér hvað ég er að fá í afmælisgjöf. Hún útskýrir þá á endanum af hverju þetta er svona mikið maus. Það gleymdist að setja upphæð á pakkann og vegna þess að það má ekki flytja vörur sem kosta meira en 45 evrur frá íslandi til Lettlands. Hún sagði þetta nákvæmlega svona (nema náttúrulega á ensku með rosalega rússneskum hreim)frá Íslandi til lettlands má ekki senda dýrari hluti en 45 evrur án þess að borga toll.

Þegar hér er komið við sögu er konan farin að brosa og leggja sig fram við að vera kurteis sem gerist yfirleitt á endanum þar sem ég er farin að leggja það í vana minn að brosa breitt og vera ofurkurteis. Jæja nú er búið að staðfesta innihald pakkans, þegar hún lyfti upp harðfiskinum innpökkuðum kyrfilega í plastpoka og ég sagði mjög ákveðið: Þetta er pottþétt fiskur hló konan dátt. Við urðum barasta vinkonur held ég.
Ég þurfti næst að fylla út einhvert eyðublað á hinu borðinu hjá konunni sem ekki talaði ensku. Það var pínu erfitt því allt var á lettnesku á þessu eyðublaði en konan var voða næs líka og tók bara stúdentaskirteinið mitt og skrifaði allt fyrir mig. Ég var reyndar búin að standa eins og illa gerður hlutur fyrir framan skrifborðið hennar í dágóða stund þangað til að hún áttaði sig á því að eyðublaðið væri mér gjörsamlega ofviða. Ég verð að viðurkenna að ég var við það að bugast því það litla sem ég skildi var að ég átti að fylla út upplýsingar af vegabréfinu mínu. Ég beið eftir afgreiðslu skíthrædd um að verða skömmuð og send heim eftir réttum skilríkjum en mér til mikillar undrunar og ánægju dugði skólaskírteinið.

Nú er ég komin á netkaffi með pakkann góða að kæfa alla úr fýlu af harðfiskinum, að dást að nýju vettlingunum mínum og kjammsa á íslensku súkkulaði. Veiveivei allt erfiðið borgaði sig svo sannarlega. Takk fyrir mig mamma!