laugardagur, 22. nóvember 2008

Úti er alltaf að snjóa...

Það snjóaði í Kaupmannahöfn í gærkveldi, nú eru gangstéttir þaktar snjóföl. Um klukkan hálf ellefu í gær varð ég vör við barnaraddir úti í garði og þótti það doldið seint fyrir börn að leika úti auk þess sem bakgarðurinn er ekki upplýstur. Ég stóð upp og kíkti út um gluggann eins og forvitnum og siðavöndum nágranna sæmir til að skoða hvaða börn það væru nú sem ráfuðu um sjálfala um miðjar nætur. Þá sá ég að þau voru öll í snjógöllum og með snjóþoturnar sínar, þau hafa líklega fengið leyfi til að fara út og njóta snjósins svona þar sem hann hverfur sjálfsagt um helgina og kemur ekki aftur fyrr en á næsta ári. Ég hefði þó viljað sjá snjóþoturnar í notkun þar sem snjófölin er ekki meira en 20 - 30 millimetrar, kannski eru hjól undir þotunum ég veit það ekki. En þar sem ég stóð útí glugga og flissaði varð ég einnig vör við fólk í húsinu á móti. Þar var greinilega smá partý en það stóðu 6 manns útí glugga og sá er aftast stóð hélt á vasaljósi og lýsti út í garðinn, hold da kjæft mand! heyrðist í þeim, það er allt hvítt og svo hlógu þau eins og krakkarnir með snjóþoturnar.

Þetta bjargaði alveg kvöldinu mínu, þegar kokkurinn kom heim sagði hann mér frá manninum sem hann sá dreyfa salti á göturnar fyrr um daginn, ÁÐUR EN ÞAÐ SNJÓAÐI. Þá mundi ég líka eftir einum sem ég sá við ráðhústorgið sem gluðaði einhverju dularfullu hvítu dufti á göturnar. Mér hafði ekki dottið í hug að hann væri að salta. Hvernig er hægt að vera svona skynsamur alltaf, úff þessi þjóð...alltof skynsöm, dreyfir salti ÁÐUR en frostið kemur.

Í morgun sá ég mér til mikillar furðu að snjórinn tolldi þangað til í dag og nú er hitinn við rétt yfir frostmarki. Það er ekki hægt að segja að hér sé snjóþungi á eðlilegum mælikvarða, það er hægt að skrifa nafnið sitt í snjóinn með puttanum en alls ekki hægt að gera engill án þess að skemma snjógallann sinn. Ekki veit ég hvernig veðrið er utan kaupmannahafnar en kokkurinn var að senda mér skilaboð og segja mér að mjólkurbílnum seinki í dag vegna veðurs. Það hlýtur að vera allt á kafi þarna í mjólkurbýlasveitinni...

laugardagur, 15. nóvember 2008

ammæli

Takk fyrir allar hamingjuóskirnar, hvort sem var á feisbúkk, ímeil eða sms þá var ég ofsa glöð að heyra frá öllum. Afmælisdagurinn sjálfur var ekkert spes en ég þurfti að vinna og meistarakokkurinn líka. Þannig að við héldum upp á herlegheitin í gærkveldi með því að fara út að borða á rosa fínum asískum stað sem heitir Kuhn Juk og við hliðina á den lille fede (þar sem stráksi vinnur). Það var hreint út sagt æðislegt að borða þar, við vorum bæði yfir okkur hrifin og verð ég bara að mæla með þessum stað. Kuhn Juk í Boltens gard sem er á horni Gothersgade og Store kongs gade, falinn og pínulítill ofsa huggulegur staður. Ef einhver á leið um Köben væri tilvalið að smella sér. Það var dáldið um skrítin brögð sem maður hefði aldrei prófað að setja saman eins og bakaður banani með súkkulaði og ristuðum sesamfræum.

Annars erum við á leið í partý í kvöld en vinur kokksins átti líka afmæli í vikunni og hann heldur upp á sitt með pompi og prakt líkt og ég ætti að gera en nenni eiginlega aldrei. Ég veit ekki hvort ég kemst upp með að sleppa veislunni næst, verð að búa til eitthvað búlletprúff plan. En ég fékk svo ekkert ryksugu eða hrukkukrem í ammligjöf sem betur fer. Strákurinn er betur upp alinn en svo að gefa mér svo gildishlaðnar gjafir eða kannski langar hann bara ekkert í topplyklasett eða borvél í jólagjöf.

Annars erum við búin að hafa það ágætt síðan síðast en voða lítið að frétta svosum. Við erum búin að kaupa miða heim um jólin en við komum þann 20. des og förum þann 28. Það verður stuð, ég er nefnilega komin í heví jólaskap get ekki beðið.


æiii ég ætla að hætta áður en ég drep ykkur úr leiðindum, vááá hvað þetta er leiðinlegt blogg orðið. skil vel að hingað kíki enginn lengur, held nefnilega að ég sé orðin óáhugaverð sökum lítillar notkunar á heila. Verð að fara hrissta upp í sjálfri mér og lesa eða leysa krossgátur eða eitthvað...

laugardagur, 1. nóvember 2008

Konukvef

Ég er með kvefskít. Hnerraði svo oft í vinnunni að ég var beðin ofsalega pent að mæta ekki á morgun. Það tók mig mjög langan tíma að fylla inn í eyðurnar en konan sem ég var að vinna með sagði mér að ef hún væri hnerrandi og snýtandi sér í tíma og ótíma myndi hún sko bara hringja sig inn veika. Það væri svo slæmt ef heimilisfólkið myndi smitast og að það væri skítlétt að vera einn á vakt á sunnudögum þegar þar var komið við sögu kveiknaði á perunni hjá minni. Ég fór heim og er búin að vera rembast við að vera veik síðan til þess að réttlæta það að vera heima á morgun.

Það er ekkert að mér, ég er bara með kvefskít. Ég hef aldrei lent í slíku áður en þegar ég hringi mig inn veika svarar þessa sýklahrædda (sem er á 12 tíma vakt í dag eins og ég átti að vera á morgun) himinlifandi: já það er bara stórgóð hugmynd að vera heima (hvarflaði reyndar að mér að henni væri eitthvað illa við mig). Þetta er svo á skjön við allt það sem ég hef lært á íslenskum vinnumarkaði, ég hef verið að vinna á stöðum þar sem fólki var beinlínis hælt fyrir að koma veikt í vinnuna. Ég hef klárað vakt með hita og verið beðin um að reyna eins og ég gæti að koma daginn eftir líka. Ég er svo aldeilis skelfingar óskapar hissa, konugreyið var örugglega handviss um að ég hafi ekki tekið hinti og myndi bara mæta hnerrandi útum allt á morgun líka. Það glaðnaði alveg yfir henni þegar ég hringdi um 6 leitið tilkynnti gleðifréttirnar.

Nú sit ég bara ein heima að deyja úr samviskubiti oooog ég þarf að hanga heima á morgun líka og hnerra á meistarakokkinn. Það er eins gott að ég á heila seríu með doktor house á tölvunni minni og svarta engla á hinni tölvunni.

Í gær fór ég niðrí bæ til að gera heiðarlega tilraun til að kaupa jólagjafir, ég er komin í svoddan jólaskap að það er bara ótrúlegt. Ég held að það sé tilraun heilans míns til að hoppa yfir næsta ammæli og bara gleyma því. Djöfull er fríkað hvað ég er orðin gömul (afsakið orðbragðið), ég var næstum því búin að kaupa mér hrukkukrem um daginn! Hvenær byrjar maður annars að því? Er ég ekki alltof snemma í því?

En ég er búin að tala svo mikið um hrukkukrem síðustu daga og vikur að nú ég er orðin skíthrædd um að meistarakokkurinn haldi að ég sé að gefa vísbendingar og gefi mér slíkt á deginum stóra. Reyndar er ég líka búin að tala voða mikið um að kaupa ryksugu, sjitt! Það væri skilnaðarsök er það ekki?