föstudagur, 29. ágúst 2008

don't look any further

Einu sinni þegar ég var aðeins minni og ennþá í Kvennaskólanum fannst mér skemmtilegast í heimi að herma eftir fólki sem mér þótti fáránlegt eða fyndið. Ég var rétt í þessu að horfa á night fever á VH1 og sá þá gamalkunna söngkonu. Henni hermdi ég eftir í tíma og ótíma


Sem ég sit hérna ein í stofunni og söngla með heyri ég að ég hef þetta ennþá, ég hljóma alveg eins og þessi gella!

Spurning um að fara að brydda upp á þessu skemmtiatriði aftur það gerði alltaf mikla lukku í partýum!

Sjálfstæðisbrölt

Við létum loks verða af því að kaupa rúm undir dýnuna sem við erum búin að sofa á síðustu þrjá mánuði. Meistarakokki þótti ekki sómi að því að láta tengdamóður sína sjá að stelpan svæfi á gólfinu. Mömmur okkar beggja verða hér um næstu helgi. Mér fundust þessar áhyggjur fyndnar og krúttlegar en á sama tíma rosa ánægð að við höfðum þetta af loksins.

Herlegheitin voru versluð í Ikea en auk þess að fjárfesta í rúmi voru kommóða, fataprestur og ýmislegt smálegt keypt. Þegar dótið var komið í hús tók við samsetning og þá rann upp fyrir mér helsti munur þess að vera einhleyp og vera farin að búa. Hann setti allt heila klabbið saman á meðan ég sat og rétti honum skrúfur. Hér áður fyrr gerði ég allt svona sjálf eða hringdi í mömmu til að biðja um hjálp. Jiii hvað þetta var skrítið, ég vissi ekkert hvað ég átti af mér að gera á meðan.

Í stað þess að vera létt og guðslifandi fegin að vera laus við þetta puð eins og ég hefði haldið að ég yrði fann ég til vanmáttarkenndar. Mér fannst ég ekki vera að leggja mitt af mörkum til heimilisins og ákvað því að elda (sem gerist mjög sjaldan) til að vera ekki alveg gagnslaus. Þegar meistarakokkurinn hafði lokið við að skrúfa saman rúmið heimtaði ég að setja saman fataprestinn bara til að friða samviskuna mína. Þegar það gekk svo ekki alveg sem skildi reyndi krúttið að hjálpa mér og þá gelti ég á hann og sagðist nú bara alveg geta þetta sko! En klemmdi mig svo og rétti stráksa bara skrúfjárnið gjörsamlega buguð.

Mikið ferlega þótti mér þetta skrítin tilfinning, mér fannst vegið að sjálfstæði mínu. Er þetta tilfinningin sem dr. Phil talar um þegar karlarnir í þættinum hans vilja ekki leyfa konunum sínum að vinna úti? Sjálfstæðið mitt var alla vega það sem mér þótti vænst um þegar ég var súper-einhleypingur. Það hefur samt ekkert horfið sko, ég þarf bara að minna mig á það stundum að ég get alveg sjálf þó að ég fái hjálp núna. Þetta heitir víst samvinna.

Annars flaug þessi tilfinning út um gluggann þegar ég lagðist til hvílu, þvílíkur munur! Eins og ég sagði þá erum við búin að sofa á dýnu síðan við fluttum á Valmúgann en ég var bara sátt. Þegar rúmið er komið uppgötva samt ég hvað dýnan var óþægileg ein og sér, ég svaf til hádegis í fyrsta sinn síðan ég kom hingað.

Til þess að rétta aðeins af jafnréttishallann sem varð hér í gær ákvað ég að eiga bláu inniskóna og gaf meistarakokknum þá bleiku.

föstudagur, 15. ágúst 2008

Bolti og Borgarstjórn

Heyri fréttir af borgarstjórninni og hef ákveðið að nenna bara ekki að setja mig inn í það. Ætla bara að bíða eftir nýju kjörtímabili og vona að lýðræðið virki í það skiptið. Mér finnst svona prívat og persónulega að það mætti breyta lögunum og gera okkur kleyft að kjósa að nýju þegar stjórnmálamennirnir hafa náð að skemma þetta svona fyrir okkur. Hvað ætlar 4. borgarstjórnarmeirihlutinn að gera til þess að laga það sem úrskeiðis hefur farið á þessu tímabili? hverju ætlar hann að ná í gegn? nei! sorrý ætlaði ekki að setja mig inn í þetta, verð bara pirruð á því.

Ég sá rétt bláendann á leik íslendinga og þjóðverja og mikið varð ég glöð. Hugsaði: já núna kemur þetta skoh! er enn á þeirri skoðun. Það var skrítið að horfa á leikinn með dönskum þuli (dönskum þul? vá hætt að kunna íslensku, hvað geri ég þá? kann ekki dönsku heldur) en hann var heldur lítið imponeraður yfir þessum stórglæsilega sigri fyrrum nýlendu þeirra. Reyndar var hann svo lige glad að ég beinlínis móðgaðist, puh eins og þeir geti ekki glaðst með okkur. Ég ætla að horfa á laugardaginn þegar við rústum baunum og mæta svo í vinnuna á mánudaginn í íslensku fánalitunum og syngja: danmark er et tegneseriehold, tegneseriehold! (þýðist: Danmörk er lið sem inniheldur teiknimyndafígúrur, teiknimyndafígúrur!). Það mun sýna þeim hvar Davíð keypti ölið.

Hef oft verið spurð hvort íslendingum líki ekki illa við dani og ég svara alltaf í hreinskilni að svo sé bara ekki, okkur er eiginlega alveg sama. En þessar spurningar vekja mig samt til umhugsunar og nú er ég eiginlega komin á þá skoðun að það sé frekar á hinn veginn. Við förum í taugarnar á þeim.


p.s. Er einhver að sjá hversu skáldleg ég er í titlasmíðum?

fimmtudagur, 7. ágúst 2008

Nýhöfn og negulnaglar

ég er búin að finna lausn á internetsvandamálinu. Eftir margar tilraunir til að hala niður og setja upp java var ég eiginlega búin að gefast upp. Ákvað að reyna að hala niður vírusleitarforriti og setja upp en það tókst ekki heldur, ég var orðin dauðþreytt og hundpirruð þegar ég tek tölvuna með mér í bælið. Viti menn! blíng! forritið installast með því sama. Ég hef sum sé fundið staðinn þar sem tölvan mín vill helst vera, upp í rúmi.

ég náði að setja inn myndirnar sem ég ætlaði að setja inn um daginn. Eftir svona mikið erfiði vil ég endilega hafa þær hérna þó að allt í einu virðist þær hundómerkilegar. En alla vega, um daginn fórum við á nyhavn í blíðskaparveðri, þennan dag ómaði jass um alla borg og var höfnin ekki undanskilin.


Við höfðum það einnig af að drífa okkur á listasafnið.


mér fannst þetta svo fínt hjól og er nú búin að setja það á afmælisgjafalistann. Meistarakokkurinn myndi ekki láta grípa sig dauðann á vespu sem þýðir bara eitt: Ég fæ að hafa hana í friði.

Aftur nyhavn, þetta var bara svo fínn dagur. Hér sátum við á bátabar eða barbát eða bárbat eða bleh veitiggi. Þetta er sem sagt skip sem er búið að breyta í bar og selur ökólógiskan bjór og spilar júróteknó.


Í dag er ég í helgarfríi þar sem ég á að vinna á laugardag og sunnudag. Í gær eldaði ég í vinnunni þann skrítnasta kjúkling sem ég hef á ævinni eldað. Hann var soðinn í potti með stjörnuanís, kanilstöngum, kardimommum og negulnöglum og aprikósum. Færeyska stelpan sem vinnur með mér labbar inn í eldhús, finnur matar"ilminn" og segir: mmmm þetta minnir mig á blóðmör. Í Færeyjum nota þau kanil og rúsínur í blóðmörina sína það fannst mér rosa spes en henni fannst líka spes að heyra að amma mín notar nagla til að loka þeim. Það finnst reyndar fleirum.

laugardagur, 2. ágúst 2008

bölvuð nettengingin

Heyrði í dönsku fréttunum að partýið væri búið og nú tæki kreppan við. Hvurslags, slepp ég þá ekki við kreppuna? puh! Nei annars var þetta ekki nein dómadagsspá en nú herðir samt að eða eitthvað svoleiðis. Ég skildi þetta nottla ekkert alveg en þjóðerniskenndin kraumaði í mér og ég hugsaði: hvað eru þessir andskotar að gagnrýna okkur og eru bara ekkert skárri sjálfir! En eins og ég segi þá skildi ég ekki alveg allt og það gæti vel verið að maðurinn hafi verið að tala um eitthvað annað partý. Einhver hafi drukkið of mikið í amalíuborg og þau séu komin í straff, hvað veit ég svo sem?

Ég hef tekið doldið af myndum þegar við erum að spóka okkur um bæinn eða bara að hanga heima, það þarf ekki mikið til að vélin sé tekin fram. En ég reyndi að setja nokkrar inn um daginn en ekkert gekk þar sem bölvuð tölvan mín fílar ekki nettenginguna hérna. Meistarakokkurinn svífur á öldum veraldarvefsins eins og enginn sé morgundagurinn en það virðist vera sem svo að ég sé undir álögum. Það er einhver þarna úti sem vill ekki að ég sé nettengd, ég er viss um það því þetta er ekki fyrsta netið sem er með leiðindi við mig. En alla vega nú ætla ég að reyna aftur, sjáum hvort það virkar.




Heyrðu, þetta tókst!
ég á það til að tala svo mikið og vilja svo mikið segja frá að ég gleymi alveg að gera ráð fyrir því að fólk hafi kannski öðrum hlutum að sinna. Meistarakokkurinn hefur fengið að finna fyrir því en tekur þessu með miklu jafnaðargeði. Hann kann nefnilega að sóna út og einangra sig frá umhverfinu sínu, röddin í mér verður bara suð og hann getur sinnt verkefnum sínum í friði. Hér má sjá þegar ég var komin inn á baðherbergi á eftir honum, það má glögglega sjá að athygli hans beinist eingöngu að rakstrinum og ég er ekki viss um að hann hafi vitað af mér þarna einu sinni. Er nokkuð viss um að þessi eiginleiki hans eigi eftir að verða okkur til góðs um ókomna tíð.


uuu neibb nó dæs, það koma ekki fleiri. búnað reyna í hálftíma og hef ákveðið að gefast upp. Þær koma kannski seinna.

Annars ekkert mikið að frétta: finnst vinnan mín ekkert spes, hlakka til að fá unu í heimsókn og veðrið ofsa gott.