fimmtudagur, 29. maí 2008

Hvítruslahjónin á ValmuevejMeistarakokkurinn fór í klippingu hjá arabanum á horninu og sportar nú klippingu í ætt við amerískra hermanna. Ég fór í dag að versla í matinn og rakst á þessar líka fínu sólbrillur í tiger (tuígah á dönsku). Svo nú getum við skötuhjúin verið aldeilis í stíl.

Í dag dembdi ég mér á ströndina og komst að því að ég bara verð að kaupa einhverjar töflur, ég gjörsamlega soðna í þessum íslandsvetrarskóm, svona fyrir utan hvað ég er púkó innan um alla frjálslegu og líbó danina í pilsunum og sandölunum.

Nú fer að líða að helginni og við förum að flytja á Valmúaveginn þar sem ég hef ákveðið að rækta kryddjurtir í glugganum og baka allt brauð. Nei djók, myndi aldrei nenna því en ég hlakka samt til að geta farið að elda aftur.

þar til næst, Barbara Anne (eða eitthvað annað álíka hvítruslanafn) og Billy Bob biður að heilsa

þriðjudagur, 27. maí 2008

Bölvuð verðbólgan

Ég hef tekið eftir því að það er allt mun þægilegra hér í Kaupmannahöfn heldur en það var í Riga. Fólk virðist vingjarnlegra og sýnir útlendingum aðeins meiri þolinmæði. Það gæti nottla verið vegna þess að hér talar fólk ensku og ég kann pínu dönsku. Tungumálið skiptir náttúrulega heilmiklu máli og ég verð ekki eins stressuð þegar ég geri mistök í búðunum eins og ég varð í Riga. Þar fannst mér bara eins og fólk væri beinlínis öskureitt út í mig fyrir að setja peninginn á vitlausan stað á búðarkassann (það mátti sko ekki rétta afgreiðsludömunni péninginn).

Hérna er ég búin að fara tvisvar í búð og gera pínu mistök, í annað skiptið setti ég körfuna á bandvitlausan stað en maðurinn sem afgreiddi útskýrði rólega fyrir mér hvar hún átti að vera (voða vinalegur í framan). Núna þegar ég fór í Apótekið þurfti ég að skila eiginlega öllu aftur því það var ekki hægt að nota kort nema það væri Dankort og ég var ekki með nógu mikinn péning með mér. Ég hefði panikkað ef ég hefði verið í Riga enda hefði ég ekki getað sagt á lettnesku afsakið ég er ekki með meiri pening og hélt að ég gæti notað kortið. Það gat ég á DÖNSKU og svo brosti ég bara og konan brosti á móti og í sameiningu tókum við úr pokanum og reiknuðum hversu mikið ég gat keypt. Ég gekk heim ógisslega stolt því þessi samskipti fóru algerlega fram á dönsku, ég þurfti líka að biðja um hjálp við að velja sjampó á dönsku. Mér finnst ég ótrúlega klár í dag.

En talandi um pééninga, vá hvað reikningurinn minn er að tæmast hratt. Nú má verðbólgan aðeins taka pásu. Allir mínir peningar eru íslenskir og sjííís hvað þeir hverfa í ekki neitt. Ég hef í alvöru eiginlega ekkert keypt nema handa mér og kokkinum að borða (fyrir utan kjólinn sem kostaði ekkert) og ég er orðin blönk! Held að það sé best að geyma stórinnkaupin (skó, sængur og svoliss) þangað til íslenska krónan hefur jafnað sig einhvern tíma á næsta ári.

mánudagur, 26. maí 2008

komin til köben

jæja þá er ég komin til Kaupmannahafnar eftir langa bið. Lenti klukkan 12 í gær í blíðskaparveðri. Meistarakokkurinn tók á móti mér á vellinum og auðvitað fór ég að skæla (maður verður svo væminn með aldrinum) en þurrkaði tárin strax og við héldum af stað heim. Þegar ég var aðeins búin að koma mér fyrir fórum við í leiðangur.

Fórum í kristjaníu (hef aldrei komið þangað) og síðan kíktum við á hverfið þar sem við ætlum að eiga heima. Það er voða huggulegt bara með blómum og trjám í massavís, voða rólegt og bara sætt. Ég hlakka voða til að sjá íbúðina sjálfa en hverfið lofar góðu. Við erum aðeins út úr en ef maður á hjól skiptir það engu máli. Við gengum úr kristjaníu í hverfið, mér fannst það langt en ég hafði líka bara sofið í þrjá tíma svo það er ekkert að marka.

Í dag er hellirigning og bara kalt, uss ég sem var komin í sumarfílinginn. En ég lét mig nú hafa það og fór í búðir. Nennti ekki niður í miðbæ en tók metróið í næstu kringlu þar heyrði ég tvær stelpur tala íslensku en það voru einu útlendingarnir sem ég tók eftir. Ég lét rigninguna ekki á mig fá og keypti sumarkjól og appelsínugulan bol. Ég tók nefnilega eftir því í góða veðrinu í gær að ég á engin föt sem hægt er að njóta sólar í. Ætlaði nú samt bara að kaupa skó sem eru ekki lokaðir en fann ekkert svoleiðis, ég neyðist víst til þess að fara aftur á morgun.

miðvikudagur, 14. maí 2008

Friðbert, sérlegur verndari fegrunarnefndar

Þegar ég var aðeins yngri en ég er núna eða þegar ég var enn í Kvennó fékk ég vinnu hjá Garðyrkjudeild Reykjavíkurborgar. Amma var að vinna á skrifstofunni og sagði mér frá æðislega kósý vinnu þar. Starfið fól í sér að hjóla um allan bæ og skoða hús og garða í þeim tilgangi að halda borginni fallegri. Við áttum nefnilega að setja miða í lúguna hjá hverjum þeim sem hafði trassað garðinn sinn eða viðhald á húsi. Þetta er pínu spes ég veit, en þetta var á einhvern hátt undir sama apparati borgarinnar sem velur fegurstu götu borgarinnar á ári hverju (Fegrunarnefnd).

Sólveig bættist í lið Fegrunarnefndar eftir að ég hafði verið þar eitt sumar. Við hjóluðum saman um allan bæ með sérhönnuðu Fegrunarnefndarblokkirnar og skrifuðum athugasemdir sem féllu í misgóðan jarðveg húseigenda. Það var svo símatími í hádeginu þar sem fólkið gat hringt inn og kvartað undan þessum miðum eða komið með hvers konar athugasemdir. Fólk hringdi nú ekki mikið en hjartað tók kipp í hvert sinn þar sem við máttum búast við allskyns reiðilestri og lái nú hver sem vill húseiganda sem fær miða þar sem honum er sagt að slá garðinn sinn að hann verði reiður. Einhver talaði um stalinisma en aðrir bentu nú á að nágranninn væri miklu verri.

Þó að símtölin væru óþægileg fannst okkur erfiðari tilhugsun ef við myndum mæta íbúa í þann mund sem við vorum að setja miða inn um lúguna. Við vorum satt best að segja mjög kvíðnar því og hlupum yfirleitt eins hratt og við gátum og fleygðum okkur á hjólin í svona gettavei eins og sjá má í bíómyndunum. Til þess að róa taugarnar örlítið bjuggum við til plan, maður þarf alltaf að hafa plan. Þetta var kannski í meira gríni en alvöru en samt sem áður hjálpaði okkur að vita að við gætum þóst vera að heimsækja einhvern í húsinu ef við yrðum gripnar glóðvolgar. Þá myndum við bara spyrja er blabla heima? þá fengjum við svarið nei hann býr ekki hér og gætum lagt á flótta. Mjög gott plan.

En við sáum samt strax fyrir ákveðið vandamál... hvað ef það býr einhver í húsinu með að nafni blabla ? (ekki í alvöru blabla heldur eitthvað nafn sem við værum búnar að ákveða skiluru) þá fengjum við svarið: já augnablik. Þetta var ekki mjög aðlaðandi tilhugsun og þá værum við lentar í enn meiri bobba en ef við hefðum bara rétt bölvaðan miðann og sagt viðkomandi að reita arfann. Það var ljóst að hér var aðeins eitt í stöðunni...við urðum að finna nógu helvíti (afsakið orðbragðið) óalgengt nafn, bara nafn sem enginn heitir í alvörunni en er samt alveg til. Eftir miklar bollaleggingar komumst við að niðurstöðu með nafn og vorum þá til í slaginn.

Nú rétt í þessu var ég að lesa grein á mbl (sorrý kann ekki að setja svona linka inn) en þar kom fram að hann Friðbert Traustason sem er framkvæmdastjóri samtaka starfsmanna fjármálafyrirtækja er alveg steinhissa á öllum uppsögnunum hjá Glitni. Ég las fyrstu setninguna og hugsaði með mér: sjúkk að ég var ekki á tröppunum heima hjá honum þegar ég fékk tækifæri til þess að framkvæma planið mikla (mætti gamalli konu þegar ég var í þann mund að troða svona snepli í lúguna, hún horfði á mig eins og ég væri þroskaheft þegar ég spurði eftir Friðberti).

mánudagur, 12. maí 2008

Þegar við Sólveig hlupum 10 kílómetrana í sumar...

ég vaknaði klukkan 7.45 í morgun eftir að hafa vaknað þrisvar í nótt með sama kvíðahnútinn í maganum og ég hef haft síðustu vikur. Mig dreymdi meira að segja verkefni sem ég fór svo yfir í huganum í þessi skipti sem ég vaknaði. Það þarf kannski að taka það fram fyrir einhverja lesendur að ég vakna ekkert 7.45 svona bara að gamni mínu. Þetta er í hæsta máta óvenjulegt, allt í lagi að vakna snemma en þetta vakna á nóttunni dót er ekkert spes. Vaknaði líka síðustu nótt, ætli þetta sé svona áfallastreita (post traumatic stress). Best að fara tjekka á áfallahjálp.

Það er samt notalegt að vakna á morgnana og þurfa ekkert að fara á fætur frekar en ég vil. Það er ekkert sem liggur á og ég get bara ákveðið hvað mig langar að gera ekki hvað ég þarf að gera fyrst.

Við meistarakokkurinn erum aðeins farin að plana húsgagnamál, ótrúlegt en satt þá erum við bara sammála. Við ætlum að kaupa dýnu og svo bara stela rest (jújú þannig er það gert í köben hann hefur séð það gert) en til þess að tie the room together kaupi ég sætt og dúllulegt smádót. Svo bara allir panta tíma í heimsókn á Valmúganum.

Það getur bara vel verið að ég fari í sund í dag en ég er samt ekki alveg búin að ákveða það. Út að hlaupa? það er langt síðan ég hef gert það. Fékk smá nostalgíukast þegar ég útskýrði fyrir Hjördísi um helgina hvernig við Sólveig mössuðum 10 kílómetrana í Reykjavíkurmaraþoninu í fyrra. Fjandinn hafi það, önnur eins tilþrif hafa nú bara ekki sést fyrr eða síðar.

föstudagur, 9. maí 2008

það snjóar enn norðan heiða

Fór og skilaði áðan...JÚHÚÚÚÚÚÚÚ!
Á eftir að skrifa eitt verkefni sem á að skila í dag en það verður létt og löðurmannlegt verk (hvað þýðir orðið löðurmaður?).

Ég er að skrifa um fjölskylduna mína og gera á þeim eigindlega mannfræðirannsókn. Þau hafa ekki hugmynd um það múahaha. En ég fékk þessa hugmynd þegar þau ákváðu að koma norður um páskana annað árið í röð. Það flugu póstar á milli í skipulagsferlinu og mikil tilhlökkun að sjálfsögðu. Það nefnilega rann upp fyrir mér að páskaskíðaferðir eru ekki nýjar af nálinni hjá þessari hrikalega stóru fjölskyldu. Þær voru bara lagðar niður um hríð en mínar sterkustu bernskuminningar eru tengdar páskum og Valsskála. Það var alltaf farið á skíði á víkingssvæðinu og svo haldnar kvöldvökur. Ég skil ekki ennþá hvernig foreldrar héldu sönsum í þessu brjálæði, en það voru skrilljón krakkar og bara eitt svefnloft, matsalur og arinstofa. En þetta var ótrúlega skemmtilegt eins og svo margt annað sem gert var í þessari biluðu fjölskyldu þegar ég var yngri. þau voru öll yngri þá líka svo það var kannski aðeins meiri kraftur í liðinu en þau eru að koma sterk til baka. Nú bíð ég bara spennt eftir því að áramótafjörið snúi aftur, vinir mínir öfunduðu mig mikið af partýstandi fjölskyldunnar á þeim árum þegar haldin var stórveisla á gamlárskvöld. Systkinin eru 8 og barnabörnin eru 16, allt þetta hrúgast á ótrúlega lítið svæði og allir ofan í öllum. Bara stuð!

Veturinn ætlar ekki að fara...verð að viðurkenna að mig er farið að lengja soldið eftir sumrinu, það snjóar í dag svo sumarið lætur bíða eftir sér.

fimmtudagur, 8. maí 2008

Fjúh!

Jæja, þá er ritgerðin komin í prentun og ég búin að klóra mig í gegnum rafrænu skilin. Ég þarf að skila inn þremur eintökum á prentuðu formi, einu í hina svokölluðu skemmu sem er rafræn geymsla og svo eitt á diski held ég. Til hvers í ósköpunum þarf að skila svona mörgum asskotash eintökum? Eitt fer til leiðbeinanda, eitt til yfirlesara og eitt til geymslu á bókasafninu. Eitt til geymslu á bókasafninu? til hvers? ég er búin að skila einu rafrænt í rafræna geymslu! og til hvers í ósköpunum er eintakið á geisladiskinum?

jæja skiptir svo sem ekki máli, síðan ég sendi pdf skjalið í prentun og í skemmuna hef ég ekki getað setið kyrr. Ég ráfa bara eins og geðsjúklingur um alla íbúðina og sest í 5 sekúndur en þá stend ég aftur upp og ráfið tekur við á ný. Ég ákvað að blogga bara svo ég hefði eitthvað að gera því ég er satt best að segja farin að hafa áhyggjur af þessu geðsjúklingsráfi. Nú hef ég setið í nokkrar mínútur og er farið að syfja, það er svo sem ekkert skrýtið miðað við svefnmynstrið sem ég hef komið mér upp síðustu vikur.


Vá hvað ég er ánægð og mér er létt, ég var bara alls ekkert viss um að þetta myndi sleppa. Það gekk töluvert á til þess að ég næði að klára þetta og þó ég sé ekki fullkomlega ánægð með efnið þá er ég fegin að hafa klárað.

issss ég tala bara eins og þetta sé búið. Ég á eftir að fá eintökin úr prentun og leita uppi kennarann minn sem er eins og búálfur (hverfur þegar þú ferð að leita að honum) til þess að hann geti skrifað undir verkefnið mitt. jújú hann þarf að kvitta til staðfestingar um það að ritgerðin að hans dómi uppfylli kröfur til lokaverkefnis. kommonn! ef verkefnið mitt gerði það ekki á þessu stigi á að reka hann fyrir að hafa ekki stöðvað mig fyrr. Leiðbeinandi er með í öllu ferlinu og ef verkefnið uppfyllir ekki kröfurnar má að einhverju leiti kenna honum um, hann á allavega að benda á það einhvers staðar í ferlinu. Fullt af fólki er með leiðbeinanda sem er ekki einu sinn staddur á Akureyri, það þarf þá að senda honum standard blaðið sem hann á að kvitta á sem hann síðan faxar til Akureyrar og nemandi þarf að biðja prentstofuna um að troða þessu blaði inn á milli í ritgerðina því það þarf að vera með ritgerðinni. Ritgerðin fer í pdf skjali á prentstofuna. Finnst einhverjum öðrum en mér þetta vera óþarfa vesen?

Jeminn hvað ég vona að ég finni leiðbeinandann minn á morgun!

þriðjudagur, 6. maí 2008

úbs

Þú veist það er árið 2008 ef.....

1. Þú ferð í partý og byrjar taka myndir fyrir bloggið þitt.
2.
Þú hefur ekki spilað kapal með alvöru spilastokk í nokkur ár.
3.
Ástæðan fyrir því þú ert ekki í sambandi við suma vini þína er af því þeir eru ekki blogga, ekki á MySpace og eða á MinnSirkus .
4.
Þú leitar frekar um alla íbúð af fjarstýringunni í stað þess ýta bara á takkann á sjónvarpinu.
6.
Kvöldstundir þínar snúast um setjast niður fyrir framan tölvuna.
7.
Þú lest þennan lista kinkandi kolli og brosandi.
8.
Þú hugsar um hvað það er mikil vitleysa lesa þennan lista.
9.
Þú ert of upptekin/nn taka eftir númer fimm.
10.
Þú virkilega leist tilbaka til athuga hvort þar væri númer
fimm.
11.
Svo hlærðu af heimsku þinni.
12.
Sendu þetta á vini þina, settu þetta á bloggið þitt eða komdu þessu á framfæri einhverstaðar. EF þú féllst fyrir þessu ...

ég fékk þetta í pósti frá svilkonunni og fékk eiginlega bara pínu sjokk, það er einhver þarna úti sem þekkir mig svo vel!

nei annars án gríns þá er þessi listi fullyrðinga mjög lýsandi fyrir mitt líf síðustu vikurnar. ég hef sáralítið haft samskipti við fólk án þess að það sé á tölvutæku formi. Ég fékk nú heimsókn að sunnan um daginn jújú, en svo hringdi nanna í gær í gegnum skype og við töluðum um allt og ekkert í 3 klukkutíma. jú þið lásuð rétt ÞRJÁ klukkutíma eftir það rifjaðist upp fyrir mér að ég hef einungis átt samskipti við örfáa útvalda á meðan þessari törn stendur og maður lifandi hvað það verður bætt upp þegar ég skila. Passið ykkur bara!

Listinn góði hér að ofan er eins og ég sagði mjög kunnuglegur en það sem situr mest í mér eftir lestur hans er: hvað er þetta minn sirkus? er ég að missa af einhverju?

mánudagur, 5. maí 2008

stund milli stríða

Ég er með harðsperrur í rassinum og mjóbaki, hvað finnst ykkur um það? Ég hef ekki fært mig spönn frá rassi alla síðustu viku að undanskildum fimmtudegi þegar ég tók viðtal hérna út hverfi. Ég vissi ekki að það væri hægt að fá harðsperrur í algjöru hreyfingaleysi, kannski er ég bara að jafna mig eftir göngutúrinn út í Síðuhverfi þar sem viðtalið var fyrir fimm dögum síðan...gæti verið.

Ég sendi kennaranum mínum einhvern slatta núna í hádeginu og þó að þetta hafi ekki verið lokauppkast þá er lítið eftir. Bara umræðukafli og heimildaskrá en það kemur í ljós vonandi á morgun hversu miklu þarf að breyta af því sem búið er.

Núna er æðislegt veður á Akureyri, ég rölti til svilkonunar og mágs áðan með bakarísgúmmelaði og soðnaði í bakgarðinum. Svei mér þá ef ég brann bara ekki á bringunni og allt. Nú þarf að fara að draga fram sólarvörnina góðu. En kannski ekki alveg strax þar sem spáð er slyddu um helgina aftur, jújú það verður kominn miður maí.

En þar sem ég bíð bara eftir svari frá kennara hef ég smá tíma til að anda og gera græjur ætla ég að gera hvað? jújú klára hin verkefnin sem eftir eru.

baráttukveðjur af Akureyri

laugardagur, 3. maí 2008

Usssss pirri pú

Ég rembast við að flokka mitt sorp svona upp að því marki að hægt er. Meistarakokkurinn skilur ekki alveg af hverju ég er alveg til í að safna dagblöðum í tonnavís undir eldhúsinnréttinguna en það er enginn blaðagámur hérna. Hef satt að segja ekki séð neinn blaðagám á akureyri fyrir utan þann sem er í sorpu, það þýðir náttúrulega ekki að hann sé ekki til staðar en ég bara veit ekki hvar hann er og á meðan safnast blöðin upp. Ég ætla að dobbla mömmu í endurvinnsluferð á sorpu þegar hún kemur. Hef heldur ekki rekist á dósagáma annars staðar en í endurvinnslunni en hér í blokkinni minni er endurunnið af miklum móð svo ég þarf ekki að hafa áhyggjur af því og fer bara með dósirnar mínar niður í kjallara.

Ég losaði mig við bílinn fyrir nokkrum árum og hef því ekki mengað með útblæstri síðan (nema náttúrulega þegar ég fæ bíl lánaðan sem gerist stundum). Ég væri eiturhress með að ferðast á hjóli og menga ekkert ef það væri alltaf hægt. En snjóþunginn hér á Akureyri hefur ekki gefið tilefni til þess svo ég geng eða fæ far (car-pool er nú skárra en að menga fyrir einn farþega).

Ég er alveg til í að ganga töluvert langt í umhverfisvernd og geri svona það sem ég get. En til hvers? Ef eitthvað sjálfstæðispakk á vestfjörðum ætlar bara að planta niður ógeðslegri olíuhreinsistöð og síðasta ríkisstjórn gekk svo langt að sökkva böns af landi til að búa til ógeðslegt álver.

Já já minni mengun ef álver eru rekin á endurnýjanlegri orku. meiri mengun hér ef við byggjum álver! Þessi áhersla á þungaiðnað minnir á áætlanagerð kennd við fimm ár. Hún virkaði ekki í Sovét og mun ekki bæta nokkuð hér.

Lægra olíuverð ef þeir byggja olíuhreinsistöð? glætan! er einhver annar en ég sem efast um það? Getur verið að það sé PR trikk til að fá fólk með sér í lið þar sem fólk er að verða vitlaust á háu eldsneytisverði. Fáið ykkur hjól, takið strætó eða fyllið bílana af fólki í stað þess að keyra einn í hverjum bíl!

föstudagur, 2. maí 2008

prófastuð

Þið sem lesið meistarakokkinn sem ég er með hlekk á hér til vinstri vitið sjálfsagt að við erum komin með íbúð í köööööben. Ég er orðin svo leið á skólanum og ritgerðarveseni að nú sit ég bara og læt mig dreyma um fallegu og rjómantísku risíbúðina MÍNA. Eftir mánuð verð ég komin til kaupmannahafnar og að flytja inn í þriggja herbergja risíbúð með bjálkum og baðkari á fótum en stiginn er víst eitthvað mörder. Meistarkokkurinn kvíðir því að burðast upp með búslóð en hann veit náttúrulega ekki hvurslags atvinnu-flutningakona ég er, við mössum þetta bara!

já Inga ég hef aldrei skilið þetta antipat á verkalýðsfélögum, ef þú ert launamaður/kona viltu þá ekki að passað sé upp á réttindi þín? öss þessir úglendingar! En sorakjafturinn á írunum, maður bara roðnar;)

Það er próf á morgun, fæ þá smá frí frá BA ritgerðinni hvort sem ég á það skilið eða ekki. Það er fínt. Verst að það er próf í Eigindlegum aðferðum og tímarnir voru klukkan 8 á mánudagsmorgnum, kommonn!