föstudagur, 31. ágúst 2007

Heima

Mér tókst að ljúka öllum verkefnunum mínum í gær sem mér finnst bara nokkuð vel að verki staðið. Regnhlífin er alveg uppáhalds, ég veit ekki hvort ég þori að nota hana hún er svo fyndin á litinn. Hún er appelsínugul með með rauðu, fjólubláu og brúnu mynstri og er rosa tæknileg. Maður ýtir á einn takka og hún skýst út svo ýtir maður aftur á takkann og þá lokast hún. Það þarf náttúrulega ekki að taka það fram að síðan regnhlífin var keypt hefur ekki rignt.

Bankakonan var ágæt alveg og meira að segja farin að brosa í lok samtalsins en vá hvað ég var hrædd við hana fyrst. Þegar maður opnar bankareikning þá þarf maður að svara allskonar skrítnum spurningum. Hvað gerirðu? hvað ertu með há laun? hversu mikið ætlar þú að leggja inn? hvað ætlarðu að taka mikið út? hversu margar færslur? Skrítnast fannst mér þó að útskýra af hverju ég þarf bankareikning! AF HVERJU? kemur þér ekki við! hahaha

En ég fór og hitti gamlan norskan karl sem meðleigjandinn minn þekkir og við drukkum öll bjór saman. Þessi gamli maður var voða ánægður með mig og sögukunnáttu mína en hann var pínu pervert. Eftir það fór ég á Skyline barinn sem er á 26. hæð og ég drakk meiri bjór. Þar hitti ég strák sem á íslenskan stjúpföður sem vinnur fyrir Eimskip, hann var hress. Ég var landi og þjóð til sóma og yfirgaf barinn síðust allra en missti þess vegna af skoðunarferðinni sem hófst klukkan 9 í morgun. Ég gríp næstu bara.

Ég er að fara í lítið eftir vinnu partý til hennar Isabel (fyrir nönnu, lærlingur í Goethe stofnun) og ég veit ekki alveg hvað ég á að gera. Á ég að koma með áfengi? er þetta svona drykkju partý? eða á ég að koma með köku? það komu allir með köku í afmælið hans Magnusar sem var fylleríis partý. Ég gæti keypt blóm en mér finnst þetta svolítið flókið allt saman, hver býður fólki í partý eftir vinnu? Ég verð að spyrja Magnus hvað honum finnst.

fimmtudagur, 30. ágúst 2007

Verkefni dagsins

já ég fer alveg að eignast líf og hætta að blogga á hverjum degi!

Þar sem skipulagt fjör er ekki alveg minn tebolli ákvað ég að skrópa í dag, það er einhver bátsferð á dagskrá en það er rigning og ég nenni ekki alveg kurteisishjali. Ég hitti þau kannski á barnum í kvöld...eða ekki. Fúll á móti? Já ég hef alltaf verið það!

Ég lofa að mæta á morgun en þá eru skoðunarferðir og ég skal vera búin að kaupa regnhlíf fjandinn hafi það. Ég fór í búð áðan til að kaupa í matinn og það var glampandi sól og blíða svo ég fór bara á bolnum. Þegar ég kom svo út úr búðinni var auðvitað komin grenjandi rigning...ég verð, verð, verð bara að kaupa regnhlíf í dag.

En ég er með nokkur verkefni til þess að leysa í dag svo að mér þarf ekki að leiðast. Eftir að ég hef keypt regnhlíf mun ég stofna bankareikning og ég er sérstaklega spennt fyrir þessu verkefni. Það er mjög misjafnt hvort fólk tali ensku hér í landi og það verður gaman að sjá hvort bankastarfsmenn búi yfir þeirri getu. Þegar ég fer í banka á Íslandi fæ ég yfirleitt spurningar sem ég get ekki svarað og mæti þá þessum íslenska bankahroka. Unglingar þurfa að eiga við þennan hroka allan daginn. Fólk fattar almennt ekki að ég er ekki 18 og sérstaklega ekki bankafólk sem er mjög skrítið þar sem það hefur kennitöluna mína fyrir framan sig. Nú er ég farin að röfla, best að hætta því.

Það verður sem sagt spennandi að sjá hvort lettneskir bankastarfsmenn fari á sama hrokanámskeiðið og þeir íslensku. Þriðja verkefnið verður að fara í bókabúðina sem ég sá um daginn sem ég held að selji útlenskar bækur. Þar ætla ég að finna einhverja stórsniðuga bók því ég gleymdi öllu slíku heima. Ég skil ekki hvernig mér tókst að vera með svona mikla yfirvigt og mér finnst ég hafa gleymt öllu. Ég ætla líka að kaupa lonely planet, enn eitt sem ég gleymdi.

Nú er komin sól aftur og buxurnar þornaðar svo nú er tími drífa sig út og takast á við verkefni dagsins.

miðvikudagur, 29. ágúst 2007

heimför flýtt

jæja ég hef komist að því að önnin mín endar 21.desember en ekki í janúar eins og ég hélt fyrst. Svo það gæti verið að ég komi heim fyrir jól. Verð að skoða þetta eitthvað nánar en ég er svo sem ekkert ósátt því þá missi ég ekki úr næstu önn fyrir norðan.

En það var farið út að borða með Erasmusum í kvöld á fínan stað sem heitir Lido þar sem bæði Rússar og Lettar koma til að borða og dansa. ofsa fínt.

Ég komst að því að Kúka er lettneska orðið yfir köku...mér þótti það fyndið!

Ég er voða þreytt og ætla ekki að þreyta ykkur með lýsingum á deginum mínum því hann var ekkert spes.

heyrumst síðar,

þriðjudagur, 28. ágúst 2007

Erasmus fólk

Í dag fór ég í skólann loksins og hitti hina erasmusana. Ég fann réttan sporvagn en mér tókst að fara út á vitlausum stað svo það var 50% árangur í verkefnum dagsins. Ég tók reyndar bara næsta sporvagn og komst þannig alla leið.

En hinir skiptinemarnir eru ofsalega ung greyin og mig langaði soldið að láta mig bara hverfa þarna í smá stund. En komst reyndar seinna að því að tveir aðrir eru á mínum aldri og þeir voru voða ánægðir að uppgötva að þeir væru ekki elstir. Ég er sem sagt elst en ekki laaaannnng elst.


Ég komst líka að því að hópefli er alþjóðlegur andskoti... mikið þykja mér þessir leikir leiðinlegir! Við þurftum að hlusta á fullt af fólki segja okkur að skólinn Riga Stradins er rosa fínn og góður skóli, hér þarf að lesa voða mikið og skrifa fullt af ritgerðum. Ég er svo sem vön því úr HA en sjáum til hvort þetta verði óyfirstíganlegt.

En eftir hópeflisfjörið og fyrirlestrana fórum við á kaffihús sem ku vera vinsæll meðal nemenda en hann er ekki svo langt frá heimili mínu. Þar er setið á púðum eins og á testofunni fínu en þar er einnig hægt að panta vatnspípu með allskyns ávaxtabragði. Litlu spænsku stelpurnar voru voða feimnar við þetta þrátt fyrir að hafa reykt sígarettur frá unga aldri sem er pínu skrítið. En kannski finnst þeim bara tilgangslaust að reykja eitthvað ávaxtadrasl með engri tjöru og engu nikótíni.

Ég þurfti ekki að ganga mjög langt heim en fékk engu að síður fylgd heim að dyrum því litháenski strákurinn lét allan hópinn fylgja mér heim. Þau þurftu að taka á sig pínu krók til þess að ég kæmist heim heil á höldnu. Ég virðist laða að mér fólk sem vill passa upp á mig...það er allt í lagi svo sem...ég hef ákveðið að vera ekkert móðguð yfir því.

Andrea, Riga er barasta mjög kúl borg spurðu bara Steina! En ég er hér bara í eina önn sem skiptinemi og fer svo aftur norður til að klára.

sæl að sinni,

mánudagur, 27. ágúst 2007

stelpuhangs

Í dag fór ég og hitti þrjár stelpur sem komu í partýið á föstudaginn og fórum við á mjög skemmtilegan te stað. Það er svona lítið hringlaga glerhús á tveimur hæðum og uppi eru dýnur og koddar og allir flatmaga þar með teið sitt á bökkum. Þarna sátum við fjórar og drukkum hver sína te-tegund umkringdar ástföngnum pörum í sleik. Það kom svo sem ekkert að sök þar sem við blöðruðum mestan tíman en ég get svarið það þegar ég leit í kringum mig roðnaði ég bara pínu. Ég var satt best að segja að því komin að biðja ,,þetta fólk'' um að fara bara eitthvert annað (ég er ekkert bitur eða neitt svoleiðis!).

En þetta var samt voða sætur og skemmtilegur staður með fullt fullt af tegundum að tei og ég var í alvöru ekkert pirruð yfir ástföngnu pörunum. Eftir teið fórum við og borðuðum þannig að þetta var heljarinnar hangs. Mjög kærkomið breik frá hangsi ein og líka bara allt öðruvísi en að hanga með strák. Það var talað um stráka, föt og svoleiðis.

Á morgun fer ég í undirbúningsvikuna í skólanum og vonandi eignast fleiri vini þar. Ég er að uppgötva að ég þarf dáldið að hafa fólk í kringum mig. Það verður líka spennandi að sjá hvernig gengur að taka tramm í skólann... skildi ég fara út á réttum stað? finn ég stöðina þar sem tramminn stoppar? kemur í ljós!

heyrumst

sunnudagur, 26. ágúst 2007

Háskaför á Moskvustræti

Ég fór ekkert á kaffihús því Magnus ákvað að sína mér rússneska hverfið. Hér í borg búa nefnilega bæði rússar og lettar. Það er töluð bæði rússneska og lettneska en þeir tala ekki mikið saman. Lettarnir eru yfirleitt betur settir en Rússarnir.

Við byrjuðum á því að fara í kirkjugarð sem var svona allur í hrúgu og hver gröf ofan í hinni. Krossarnir og legsteinarnir voru allir skakkir og þetta var allt frekar spúkí svona. Það voru rosa há tré sem skyggðu á sólina og myndir á legsteinunum sem störðu á mann.

Ég hélt að þetta væri bara smá rölt sem myndi ljúka þegar við kæmumst í gegnum þennan draugalega kirkjugarð. En svo var ekki, það þurfti nefnilega að sýna mér hættulega hverfið líka sem er víst ekkert svo hættulegt á daginn. Mér fannst leiðsögumaðurinn norski samt virðast pínu stressaður þegar við mættum strákagengjunum í íþróttagöllunum með gullkeðjurnar. Ég var alla vega skíthrædd!

Þetta hverfi er í ofsalegri niðurníðslu og við myndum ekki geyma hross í sumum af þessum hjöllum. Aðalgatan heitir Maskavas iela eða Moskvustræti. Fólkið í þessu hverfi myndi víst frekar kjósa kommunismann því það varð illa úti við breytingarnar. Það er lika ofsalega erfitt að vera á ellilífeyri og þarf fólk oft að rækta grænmeti og selja á mörkuðum til að hafa í sig og á. Hluti af rússneska hverfinu er gamalt gettó úr seinni heimstyrjöldinni svo mikil og átakanleg saga á tengist því. En gyðingar eru ekkert vinsælir hérna svo að það er ekkert verið að minnast þeirra sérstaklega.

Við sáum alveg risa stóra byggingu sem er eiginlega ekki í notkun nema smá partur af henni því lettar þola hana ekki. Hún var nefnilega gjöf frá Stalín forðum og þykir það ekki vinsælt hér í landi. Lettar eru að rífa niður fullt af byggingum í miðbænum sem minna á kommunismann og byggja aðrar súper nýtískubyggingar í staðinn. En fókusinn er samt á miðbæinn og hefur þetta rússneska hverfi ekki fengið neina athygli frá yfirvöldum. Þegar við komum úr hverfinu og i miðbæinn snarbreyttist umhverfið og alls staðar voru auglýsingaspjöld og tískuvöruverslanir og allt í einu vorum við komin í evrópu aftur.

Krisjana Barona iele

Dagurinn hefur verið ansi rólegur i dag en ég svaf líka til tvö og Magnus meðleigjandinn minn var voða hissa. Held að hann sé svona doldið akkúrat maður (enda norðmaður) sem fer snemma að sofa og vaknar snemma. hann var búinn að fara út að hlaupa og taka til þegar ég vaknaði! en hann er ágætur þrátt fyrir þennan eiginleika, hann hefur verið mjög duglegur að draga mig með þegar hann fer og gerir skemmtilega hluti. Hann er líka voða hjálpsamur og krúttlegur, prentaði út fyrir mig dagskrána í skólanum án þess að ég bæði um það og athugar allskonar hluti fyrir mig. Hann er ofsalega rólegur, ofsalega ljóshærður og bláeygður og ofsalega lágvaxinn.

áðan fórum við upp á þaksvalirnar þar sem má halda grillveislur og svo skoðuðum við gufuböðin i húsinu. Ég sé fyrir mér fínar veislur þegar allir sem ætla að heimsækja mig koma: riga sjampanietis sem er fínasta kampavín Riga og er bleikt á lit i setustofunni í baðsloppunum áður en haldið er í aðra hvora sánuna. Mér þykir þetta svona hæfilega fínt fyrir mitt fólk.

ég á samt eftir að sjá leikfimissalinn en þar eru víst hlaupabretti, hjól og svoleiðis fínerí. held að mín verði orðin fitt og fín eftir önnina.

Borgin er voða fín ég er búin að fara í nokkra leiðangra og skoða en ekkert keypt enn þá. Ég bara svona ráfa um og góni í allar áttir eins og vitleysingur. Langar voða mikið að kaupa blóm af öllum blómasölunum fínu. Það er allt fullt af ofsa fallegum blómum sem kosta sama og ekkert. Það er því mjög auðvelt að vera rosa rjómantískur í þessari borg.

Ég er að spá í að smella mér út á kaffihús og kíkja i tískublöðin sem ég keypti á flugvellinum en náði ekki að lesa því ég var of upptekin við að iðka slökunaræfingar. Það kemur sér vel núna þar sem ég hef ekki fundið búð með útlenskum blöðum.

en þangað til næst bestu kveðjur af Krisjana Barona iele 7/9

laugardagur, 25. ágúst 2007

tí hí ég gat það aftur

varð að prófa !

ég komst inn á þetta aftur ... já ég er tölvu idjót og hef aldrei bloggað áður!

það er þá komið á hreint ég mun jafnvel skrifa eitthvað um daglegt líf í lettlandi en fyrst þarf ég að fara og fá mér nýtt símanúmer og kaupa sólgleraugu

kveðja Þóra
jæja ég er að prófa þetta.
veit ekkert hvað ég er að gera, það er nefnilega allt á lettnesku í þessu blogger dóti.
kannski verður þetta eina bloggfærslan mín...

en jæja það er steikjandi hiti og sól. Ég var svo upptekin af þvi að veturinn er kaldur í riga að ég endaði hér með tvær flíspeysur, ullar nærföt og fullt fullt af peysum en engar stuttbuxur. En það sakar ekki ég fer þá bara að versla!

en jæja ég ætla að fara og fá mér nýtt símanúmer og vona að ég rati heim aftur (þetta er allt pínu ruglingslegt hérna) svo fer ég víst á einhvern skyline bar með fullt af útlendingum sem ég kynntist í gær.

ég læt heyra í mér aftur ef ég get fundið út úr þessu með lettneskuna

kveðja, Riga stelpan