miðvikudagur, 12. desember 2007

Hvítlaukur hressir, bætir og kætir

Jibbý!!!

ég er búin með hundleiðinlegu ritgerðirnar en á eftir að fara í próf á föstudaginn. Þarf að undirbúa spurningar fyrir það. Svo er ein ritgerð eftir og svo tvö próf og svoooooooo víííííííííi koma heim.

Það eru allir að týnast heim einn af öðrum hér og í gær fórum við á veitingastað til að kveðja Valentínu. Þessi staður er merkilegur fyrir þær sakir að allt á matseðlinum inniheldur hvítlauk. Meira að segja eftirréttirnir innihalda hvítlauk. Dagmar fékk sér súkkulaði parfait og í því voru hráir hvítlauksbitar, djöfuls viðbjóður! Hvítlaukur og súkkulaði eiga ekki saman! En ofnbakaði hvítlaukurinn í forrétt var æðislega fínn og aðalrétturinn líka. Eftir þetta allt saman fengum við stærðarinnar búnt af steinselju til að drepa lyktina því guð minn góður hún var rosaleg. Ég var að kafna úr eigin andfýlu, steinseljan virkaði en bara tímabundið því svo þegar ég fór að sofa fann ég hana aftur.

Ég er alveg að verða búin með jólagjafakaup svo ef það eru einhverjar séróskir þá fer hver að verða síðastur. Það er hægt að fá svona prittí vúman stígvél sem eru glansandi og ná upp á mitt lærið. Vínrauðir karlmanns pelsar eru á sanngjörnu verði og litlu karlmannshliðartöskurnar sívinsælu vaxa á trjánum. Áhugasamir láti mig bara vita og ég geng í málið.

sunnudagur, 9. desember 2007

prófatíð

Nú er törnin aldeilis byrjuð og ritgerðasmíð í fullum gangi. Er búin með þrjár og á eftir að skila fjórum. Stjórnendur þessa skóla eru brjálaðir í ritgerðir og finnst ekkert skemmtilegra en að lesa ritgerðir. Þær sem ég er búin að skila nú þegar eru huuund leiðinlegar og hinar sem ég á eftir að skila verða huuuundleiðinlegar! En svona er lífið.

Nú þegar jólin nálgast er fátt sem minnir á jólin alla á minn mælikvarða. Engin jólaljós svo heitið geta og enginn snjór. Það er þó búið að setja upp skautasvell í miðbænum og nokkra jólamarkaði. Kannski er ég bara ekki komin í jólaskapið enn þá.

Á föstudaginn fór ég á litlu jólin og áttum við að mæta með einn rétt hver. Ég kom með ægilega fínt kjúklingasalat. Það var líka svona pakkaleikur þar sem maður þurfti að kasta tening til að fá pakka. Svo þegar það var búið að dreyfa öllum pökkunum hélt teningakastið áfram og stelikeppni tók við þar sem maður gat tekið pakka af einhverjum öðrum ef maður fékk 6. Jii hvað mér þótti þetta spes leikur og sko ekki í anda jólanna.

Eftir mikið át og pakkafjör var dansað og farið í limbó. Það er orðin fastur liður eins og venjulega að dansa limbó og það er rosa stuð. Gæti bara ekki hugsað mér betri jólaleik en limbó svona ef ég hugsa út í það. Ekki voru allir til í limbófjörið en við hressa fólkið létum það ekki á okkur fá. Hef ég nú ákveðið að innleiða þennan skemmtilega leik í íslenskt partýlíf.

miðvikudagur, 5. desember 2007

Good morning sunshine

hæ,

Ég er að upplifa svo ægilega fínan dag eitthvað og varð að deila því með einhverjum.

Í gær fór ég að sjá Hnotubrjótinn í óperunni og ég verð bara að vera hreinskilin og segja að ballet virðist ekki vera sterkasta hlið letta. Það voru nokkrir færir dansarar inn á milli en þeir voru útlendingar. Það skal tekið fram að ef ég sé að einhver er ekkert spes ballet dansari þá hlýtur hann að vera ansi slakur greyið. Eftir ballettinn fór ég heim en hinir fóru á pöbbinn. Ég þurfti nefnilega að skrifa ritgerð fyrir daginn í dag. Um klukkan 2 í nótt var ég enn að bisa við ritgerð og að spjalla smá á msn þegar meðleigjandinn og vinur okkar hann Róbert frá Svíþjóð birtust ofsa hressir á stofugólfinu hjá mér. Þeir stóðu þarna brosandi út að eyrum og buðu mér bjór sem ég þáði. Þó að þetta hafi orðið til þess að ég skrifaði ekki staf í viðbót og er þess vegna að fara að skila ritgerðinni alltof seint þá gat ég ekki látið þetta fara í taugarnar á mér. Þeir voru bara svo fyndnir og krúttlegir.

Okei og nú koma allir litlu hlutirnir sem eru að gera daginn minn svona fínan. Ég náði að vakna í tíma fyrir tíma! haha! orðadjók! En hann byrjaði klukkan 10.15 og ég mætti bara 10 mínútum of seint þrátt fyrir að hafa vakað til 4 af fyrrgreindum ástæðum. Þá kom í ljós að það var umræðutími og í hann er mætingaskylda. jiiiiii ég var svo fegin að hafa verið hörð við sjálfa mig og dröslast af stað. Hafði ekki hugmynd um að það væri umræðutími í dag, þvílík heppni!

Þegar ég spjallaði svo við samnemendur mína kom í ljós að tíminn sem ég skrópaði í til að fara á Hnotubrjótinn féll niður og ég fæ því ekkert skróp í kladdann. Þvílík heppni!

Ég var rosa svöng eftir tíma þar sem morgunverður fær að víkja fyrir smá snúsi. Ég fór þess vegna í uppáhaldsmatvörubúðina mína, Stockman. Mig grunaði nefnilega að þar væri til alvöru smjör en í hverfisbúllunni minni er bara til margarín. Það er ekki hægt að borða harðfisk án þess að hafa smjör og viti menn ég hafði rétt fyrir mér. Í þessari dýru og fensí búð var til alvöru smjör, þvílík heppni!

Ég lagði mig eftir hádegismatinn minn sem varð mjög fjölbreyttur eftir vel heppnaða ferð í Stockman. Dreymdi alveg ótrúlega vel og vaknaði í enn betra skapi. Núna var ég að enda við að borða ótrúlega vel heppnað hakk og spaghetti á la Rigastelpan. Ætli matur bragðist betur af því maður er kátur þegar maður borðar hann eða af því maður er kátur þegar maður býr hann til?

Það er alveg ótrúlegt hvað það þarf stundum lítið til að gleðja mann :)

mánudagur, 3. desember 2007

Ég er svo aldeilis skelfingar óskaplega hissa

Ég veit ekki af hverju þetta er að koma mér á óvart en svona er ég bara bjartsýn eða eitthvað. Mamma sendi mér afmælisgjöf og gerði það sirkabát viku fyrir afmælisdaginn, hún setti hana líka í forgang svona til þess að þetta kæmist örugglega til skila. Fyrir um það bil 5 dögum fékk ég tilkynningu um böggul á pósthúsinu. Ekki í frásögur færandi fyrir utan það hversu seint þessi tilkynning barst, mamma var meira að segja búin að kjafta í mig hvað ég fengi. Ég dembi mér í að sækja gjöfina fínu en pósthúsið mitt segir mér að ég verði að fara á flugvöllinn til að sækja pakkann.

Svolítið langt að fara en Valentina ætlaði að sækja hann fyrir mig þegar hún fór að sækja mömmu sína á flugvöllinn. En þá var pósthúsið lokað svo ég þurfti bara að drífa mig í dag. Mér fannst þetta nú nógu mikið vesen fyrir en óraði ekki fyrir því hversu rosalega mikið vesen þetta yrði. Ég hendist út á völl og var komin á mettíma eða um 30 mínutum en þá kemst ég að því að þetta var vitlaust pósthús. Ekki að örvænta rölti ég af stað á það rétta og tók það 20 mínútur, allt í góðu ennþá. Ég kem inn og sé að það er bara einn í röðinni á undan mér og hrósa happi yfir því. Það tók hálftíma að afgreiða manninn. Hinar konurnar voru voða uppteknar við að lesa blaðið og borða köku. Svo tekur konan við sneplinum mínum og byrjar þá yfirheyrslan: er þetta Pora einkaaðili eða fyrirtæki? Nei Pora er ég. Já já og þetta asdis er manneskja líka? já það er mamma. Augnablik segir hún og ég bíð á meðan hún tekur 3 kúnna fram fyrir mig.

Þegar konan loksins stendur upp til að ná í kassann byrjar önnur yfirheyrsla. Hvað er í pakkanum? og hvað kostaði það? Ég náttúrulega veit það ekkert alveg því þetta er afmælisgjöf, Kommonn!!! En ég held ró minni ótrúlegt en satt. Konan opnar pakkann minn og veit þá á undan mér hvað ég er að fá í afmælisgjöf. Hún útskýrir þá á endanum af hverju þetta er svona mikið maus. Það gleymdist að setja upphæð á pakkann og vegna þess að það má ekki flytja vörur sem kosta meira en 45 evrur frá íslandi til Lettlands. Hún sagði þetta nákvæmlega svona (nema náttúrulega á ensku með rosalega rússneskum hreim)frá Íslandi til lettlands má ekki senda dýrari hluti en 45 evrur án þess að borga toll.

Þegar hér er komið við sögu er konan farin að brosa og leggja sig fram við að vera kurteis sem gerist yfirleitt á endanum þar sem ég er farin að leggja það í vana minn að brosa breitt og vera ofurkurteis. Jæja nú er búið að staðfesta innihald pakkans, þegar hún lyfti upp harðfiskinum innpökkuðum kyrfilega í plastpoka og ég sagði mjög ákveðið: Þetta er pottþétt fiskur hló konan dátt. Við urðum barasta vinkonur held ég.
Ég þurfti næst að fylla út einhvert eyðublað á hinu borðinu hjá konunni sem ekki talaði ensku. Það var pínu erfitt því allt var á lettnesku á þessu eyðublaði en konan var voða næs líka og tók bara stúdentaskirteinið mitt og skrifaði allt fyrir mig. Ég var reyndar búin að standa eins og illa gerður hlutur fyrir framan skrifborðið hennar í dágóða stund þangað til að hún áttaði sig á því að eyðublaðið væri mér gjörsamlega ofviða. Ég verð að viðurkenna að ég var við það að bugast því það litla sem ég skildi var að ég átti að fylla út upplýsingar af vegabréfinu mínu. Ég beið eftir afgreiðslu skíthrædd um að verða skömmuð og send heim eftir réttum skilríkjum en mér til mikillar undrunar og ánægju dugði skólaskírteinið.

Nú er ég komin á netkaffi með pakkann góða að kæfa alla úr fýlu af harðfiskinum, að dást að nýju vettlingunum mínum og kjammsa á íslensku súkkulaði. Veiveivei allt erfiðið borgaði sig svo sannarlega. Takk fyrir mig mamma!

þriðjudagur, 27. nóvember 2007

Tallinn

jæja gott fólk,

nú á ég að vera að skrifa fyrirlestur en finnst enginn tími betri en nú til að blogga smá. Fyrirlesturinn fjallar um samvinnu eystrasaltsríkjanna þriggja og fyrr mega nú aldeilis vera leiðindin maður! Hinar og þessar bölvuðu nefndir og allar skyldar evrópusambandinu sem er náttúrulega ekki beint skemmtilegt battarí. Svona ef maður þarf að setjast niður og lesa um allar þessar nefndir og ráð.

Á þeim tíma sem ég skrifa þetta blogg er kominn 27.nóvember og þá á Afi ammæli. Til hamingju Afi stebbi!!! Hann er 79 ára í dag, í megrun og á leiðinni í skíðaferð. Ég frétti í dag að nú drekkur hann bara grænt te og ekkert kaffisull.

Tallinn var frábær, við fórum þrjár stelpur að heimsækja þá fjórðu og skemmtum okkur konunglega. Borgin er falleg og fólkið vinalegt sem kemur á óvart í þessum heimshluta verð ég að segja. Við fórum á listasafn, skoðuðum höll forsetans, versluðum og drukkum bjór. Allt sem gert er í stelpuferð! Valentína vinkona mín frá ítalíu sem ekki alveg vön norrænum drykkjuhefðum, hrópaði upp yfir sig á laugardagskvöldið með yndislega ítölskum hreim: Fakkuh! æ ema drönk dúnæt againah.

Ég held að þetta verði einkunnarorð rigadvalar okkar allra. Ég er að minnsta kosti komin með smá bjórvömb.

fimmtudagur, 22. nóvember 2007

skuldbindingarfælni

jæja lesendur góðir, er að blogga í annað sinn á stuttum tíma. Hvað finnst ykkur um það?

Á morgun fer ég til Tallinn í skemmtiferð sem virðist ætla að verða stelpuferð og ekkert nema gott um það að segja. Við ætlum að heimsækja hana Isabel sem er lærlingur í Goethe-institute í Tallinn en hún var lærlingur hér fyrst. Tallinn ku vera fínasta borg og hlakka ég bara svolítið til að sjá. Marie-louise segir að hægt sé að gera góð jólagjafakaup þar, veit ekkert um það en við sjáum til.

Á eftir fer ég í einhvern skóla í einhverjum bæ sem heitir Ogre og held fyrirlestur um Ísland og íslensku. Ég samþykkti í einhverju meðvirkniskasti að gera þetta fyrir nokkrum mánuðum og er að sjá aðeins eftir því núna. Ég á nefnilega að vera að læra! Veit ekki alveg hvar þetta endar allt með skólann.

En í dag borgaði ég inn á leiguíbúð fyrir norðan og hef þar með gert skuldbindingu um að búa ein og borga fullt í leigu. Mér er bæði létt og er pínu stressuð yfir þessu öllu. Æðislegt að vera komin með samastað og það ein í fyrsta skipti á ævinni. En jeminn hvað þetta er dýrt maður, þetta reddast allt saman. Ég fæ alltaf smá köfnunartilfinningu þegar ég þarf að ákveða eitthvað svona langtíma...eitthvað. En það eru allir velkomnir í heimsókn á Klettastíg eftir áramót. Mig vantar líka rúm, húsgögn og sjónvarp. Gæti samt verið komin með eldhúsborð og stóla.

góðar stundir

p.s. um daginn fór ég í dýragarð og tók myndir sem nú eru komnar á myndasíðuna mína.

sunnudagur, 18. nóvember 2007

Gleðilega þjóðhátið

Í gær fór ég í rosa fyndið matarboð. Kennarinn minn og kona hans buðu mér í mat ásamt lækni sem þau kynntust nýverið. Markús (kennarinn minn) þurfti nefnilega að fara í botnlangaskurð og þótti læknirinn svo fyndinn týpa að hann ákvað að bjóða honum í mat. Ég man ekkert hvað læknirinn heitir en hann hafði mikinn áhuga á að flytja til Íslands og ætlar Markus að reyna að hjálpa honum. Gaurinn átti rosa fensí Ipod sem var svona snertiIpod og eyddi hann góðum 20 mínútum í að sýna mér allt sem þessi æðislega græja inniheldur. Hann talaði voða mikið um fensí læknatól sem spítalinn hans hefur ekki efni á að kaupa og reyndi að fá okkur öll til að skipta yfir í apple-tölvur. Sem sagt algjör græjukarl og mun hann passa ágætlega inn í íslenskt samfélag hvað það varðar.

Í dag er þjóðhátíðardagur Letta og nú er í gangi skrúðganga sem ég ætti að vera að horfa á en er svo asskoti slöpp eitthvað (nei ég er ekki þunn). Ég heyri í sprengingum og efast ég um að það séu flugeldar þar sem ekki er farið að dimma enn. Skrúðgangan á að vera skipuð hermönnum, mér þykir allt þetta hermanna dót hérna svo spes. En auðvitað ef maður hugsar um sögu þessa lands þá er mikið um baráttu fyrir sjálfstæði og sjálfsmynd þjóðarinnar. Her er alltaf fínt tól til að þjappa saman þjóð, Björn Bjarnason meira að segja veit það. Um daginn var Lacplesis dagur sem er sérstakur dagur til minningar um fallna hermenn og til heiðurs hermanna almennt. Það var mikið húllumhæ í tengslum við þennan dag og áberandi meiri ölvun en aðra sunnudaga. Herinn virðist vera ansi tengdur sjálfsmynd Letta og minnir mig ósjálfrátt á Bandaríkjamenn.

Almenn ölvun er annað sem slær mig soldið hérna. Um helgar, bæði dag og nótt má sjá mikið af dauðadrukknu fólki. Aðallega karlmenn og eru þeir á öllum aldri. Það er ekkert vesen á þeim en bara sjáanlega ölvaðir og það finnst mér bara svo furðulegt. Þetta pirrar mig meira að segja pínu. Ég er að reyna að sjá menningarlega þáttinn í þessu og bera saman við furðulega hegðun annarra þjóða en ég kann samt ekki við þetta. Markús sagði mér að hér sé AA eiginlega óþekkt og hugmyndin um alkahólisma mjög fjarlæg ef ekki óþekkt. Fólk er bara fullt og sumir fullir soldið oft og mikið en alkahólistar eiginlega ekki til hér í landi. Fyrir mér er þetta bara ömurlegt en það gæti verið meðvirknin í mér ;). Við eigum svo mikið af fínum hugtökum til að útskýra allan fjandann kannski er það ekkert betra.

þriðjudagur, 6. nóvember 2007

aðstoð óskast

jæja þá held ég að veturinn sé barasta kominn. Mér er alla vega skítkalt og finn engar sokkabuxur sem ekki eru gerðar úr nyloni. Það er svo skrítið hvað það er erfitt að finna hlý föt í þessu landi svona miðað við hvað það verður kalt hérna.

En ég er byrjuð að skrifa túristagrein fyrir bissnessblaðið hérna í Lettlandi og gengur ágætlega. Ég á samt að skrifa útfrá eigin reynslu og forðast túristaauglýsingatungumálið en muna að markhópur blaðsins eru auðugir viðskiptajöfrar. Hvurn andskotann hef ég gert á íslandi sem ég get mælt með við svoleiðis fólk? Ég verð að ljúga býst ég við. En ég hef nú samt ákveðið að segja frá uppáhaldsstöðunum mínum, landmannalaugum, jökulsárlóni og svo fram eftir götunum. En það sem ég er að biðja ykkur um kæru lesendur eru ljósmyndir. Ef ykkur er sama um að myndirnar ykkar birtist í lettnesku dagblaði fyrir ríka karla þá þætti mér ofsa vænt um að geta myndskreytt greinina mína. Þá er ég sérstaklega að tala um landslagsmyndir en meiga svo sem alveg vera djamm-myndir líka ef fólk vill. Dagblaðið mun borga fyrir myndirnar sem birtar eru svo þetta gæti verið bissness fyrir ykkur. Ég get þó ekki lofað að ágóðinn verði mikill þar sem launakjör hér eru fyrir neðan allar hellur. En þið væruð að gera mér ofsalega mikinn greiða og kannski fengjuð súkkulaði að launum frá mér.

Annars er ekkert nýtt að frétta af mér. Þessi dvöl er nú aldeilis að styttast í annan endann og rétt rúmar 6 vikur þar til ég kem heim. Ég verð að fara að drífa mig að gera allt dótið sem ég ætlaði að gera, úff!

fimmtudagur, 1. nóvember 2007

vídjófjör

Við sólveig fundum rosa fyndinn áfengismæli á bar nálægt heimili mínu. Við urðum náttúrulega að prófa. Ef allt gengur að óskum þá ætti að vera einhverskonar linkur hér fyrir neðanvélin talaði með rosa fyndnum hreim ég vona að það heyrist.
myndir af ævintýrum okkar koma von bráðar en ég er samt að fara í ferðalag á morgun svo ég veit ekki hvernig fer.

miðvikudagur, 31. október 2007

Haustið búið?

Litháenski strákurinn hélt fyrirlestur í kúrsinum saga og stjórnmál Eystrasaltsríkjanna. Þessi fyrirlestur var voða fínn og fjallaði hann um fall Sovíetríkjanna og upprisu Eystrasaltsríkjanna, aðallega Litháens. Þessi þrjú ríki vilja voða lítið með hvort annað hafa og er samvinna þeirra miklu minni en maður hefði haldið. En í baráttunni fyrir sjálfstæði unnu þau saman og börðust friðsamlega, það var kallað the Baltic way eða leið Eystrasaltsríkjanna. Eftir fyrirlesturinn sýndi hann stutt myndband sem var tekið upp þegar íbúar landanna þriggja tóku sig saman og mynduðu röð þvert yfir öll löndin. Fólk hélst hönd í hönd á þjóðveginum frá Vilnius til Tallinn , þetta var einstaklega fallegt og táknrænt. Sérstaklega ef maður hefur í huga að samskipti þessara ríkja hafa verið stirð. Tvær milljónir manna héldust hönd í hönd í 600 kílómetra langri röð 23. ágúst 1989. Þessi dagur markaði 50 afmæli molotov-ribbentrop samningsins milli þjóðverja og rússa sem leiddi til yfirráða Sovétríkjanna í þessum löndum. Þetta gátu Eystrasaltsmenn sameinast um og ég heyrði fljótlega eftir að ég kom hingað að það eina sem þeir eru sammála um í dag er að samkynhneigð er viðbjóður og gyðingar líka. Allt annað rífast þeir um.

Nú sit ég inni á kaffihúsi að stikna úr hita í skammdegissólinni, hún skín eins og lög gera ráð fyrir beint í andlitið á mér og ég sé varla á skjáinn. Þetta er eitthvað sem ég þarf ekki að sakna að heiman, en það er samt alltaf sól þegar ég vakna. En talandi um haustið þá eru bæjarstarfsmenn hér fyrir utan að saga greinarnar af trjánum. Laufin eru að miklu leiti fallin en þessir gaurar eru að bæta um betur og saga bara allt heila klabbið af. Svo eftir verða bara svartir drumbar með greinastubba út í loftið, mjög í anda draugamynda. Skil samt ekkert af hverju þetta er gert.

Í kvöld er mér boðið í hrekkjavökumatarboð þar verður boðið upp á graskerspasta og graskersböku í eftirrétt. Ég hlakka mikið til að smakka herlegheitin en ég hjálpaði aðeins við undirbúninginn í gær og lítur þetta voða vel út. Alltaf þegar kemur að heimilisstörfum hér í Riga man ég að ég er elst í hópnum. Það er eins og stelpurnar hafi aldrei eldað áður á ævi sinni og hringdu þær í mæður sínar milli landa til að spyrja ýmissa spurninga. Ég gat leiðbeint þeim aðeins þó að ég hafi ekki viljað skipta mér of mikið af og þá létu þær eins og ég væri matreiðslusnillingur. Ég ákvað að skera til dæmis graskerið og kartöflurnar smátt svo það yrði fljótlegra að sjóða og það var eins og ég hefði gefið þeim uppskriftina að gulli. Fleiri svona yndisleg atvik áttu sér stað í gær en þrátt fyrir reynsluleysið þá tókst þeim bara ágætlega upp og hlakka ég til að borða í kvöld. Það verður einnig keppni í að skera út í grasker...ég ætla að vinna.

sunnudagur, 28. október 2007

Heimsókn

Þá er helgin að líða og Sólveig á leiðinni heim. Við skemmtum okkur konunglega eins og við var að búast. Við fórum þó ekki í spa...það varð að víkja fyrir bjórdrykkju. Heimsóknin byrjaði ekki vel reyndar því þegar við komum út úr strætónum sem keyrði okkur frá flugvellinum gengum við fram á dáinn mann. Það var fólk þarna hjá svo við bara gengum fram hjá en þetta var rosa óhuggulegt. Ég get ekki sagt til um hvað hafði komið fyrir en mér sýndist hann vera róni. Þetta er náttúrulega ekki eitthvað sem maður sér á hverjum degi hérna og ekki alveg draumabyrjun á ferðinni hennar sólveigar.

En við fórum beint á Pizzastaðinn hinum megin við götuna sem er líka sushistaður. Finnst það svo ótrúlega póst-módernískt og fyndið. En heimsóknin hennar Sólveigar einkenndist af fyndnum veitingastöðum. Við fórum á írska staðinn í morgunmat fyrsta morguninn og fengum fyndnasta morgunmat í heimi, þar voru teknar myndir. Á indverska staðnum var maturinn skrítinn á litinn en bragðaðist ágætlega.

Við fórum líka á markaðinn og þar lenti ég á sjéns. Það var mjög fyndið líka. Sólveig var að kaupa eitthvað (einhvern ávöxt, hún er voða mikið í því núna) en ég rétti gaurnum peninginn og fékk afganginn með rosa fyndnum tilþrifum. Hann var búinn að vera tiltölulega eðlilegur fram að þessu en svo rétti hann mér klinkið rosa hægt og kom við höndina á mér. Við gengum í burtu og ég var enn með pínu hroll af þessum viðreynslutilburðum þá kallar hann á eftir mér ah bjúúdíífúll görrrl með rosalega rúshky hreim. Svo brosti hann tannlausu brosi og við hlupum flissandi í burtu.

Ég afrekaði að fara loksins inn í rússnesku rétttrúnaðarkirkjuna sem ég geng framhjá annan hvern dag. Fínt að nota gestina til að gera eitthvað sem maður ætlar alltaf að gera en gerir svo ekki. En það var líka svolítil upplifun að fara þangað inn, rosalega íburðarmikil kirkja með íkonum og öll sett gulli. Það eru engir bekkir heldur kemur fólk bara og stendur á meðan presturinn sönglar. Virðist ekki vera neinar eiginlegar messur heldur bara svona drop in. Eftir smá söngl byrjar presturinn að svefla reykelsi af miklu offorsi, þetta var svona rjúkandi gullkúla í keðju. Þetta gerir hann á meðan hann gengur um alla kirkjuna og fólk beygði sig og signdi þegar hann nálgaðist. En þá urðum við náttúrulega pínu skelkaðar og upplifuðum okkur svolítið sem óboðna gesti þar sem við kunnum ekkert þessa signingu. Þannig við læddumst með veggjum og með mikilli útsjónarsemi forðuðum okkur frá blessun.

Við náðum líka að versla smá og þurfti Sólveig að setjast á töskuna sína til að loka henni í morgun. En svo röltum við í strætóinn aftur og heimsóknin á enda. Við sáum engan dáinn mann á leiðinni til baka, það var gott.

mánudagur, 22. október 2007

Are you british?

jæja þá er ég loksins búin að ræða við fólkið á þessu dagblaði sem ég fæ að skrifa fyrir. Við eigum að finna eitthvað tengt okkar landi og lettlandi helst viðskiptatengt. Veit ekki alveg með það svo sem. En ég má líka skrifa túristagrein fyrir ríka Letta og ætli það endi ekki bara með því.

Ég er búin að hitta kennarann minn hann Markus og það var rosa fínt. Við spjölluðum yfir kaffibolla og hann sýndi mér uppáhaldsgormei búðina sína. Hreimurinn hans er bara æðislegur. En ég hitti hann aftur uppí skóla alveg óvænt en þá var ég með þýska bekkjarbróður mínum honum Tobias. Ég var búin að spjalla við Markus í smástund þegar Tobias spurði hann hvort hann væri breskur. Ég dó næstum úr hlátri en náði að halda aftur af mér. Tobiasi fannst hann tala svo fína ensku með svo góðum hreim, jeminn mér fannst þetta svo fyndið. Þeir tala næstum alveg eins og að hlusta á þessar samræður var bara skemmtilegast í heimi. Markus er ofsa hress og skemmtilegur og ætlar hann að bjóða mér í mat eftir að hann kemur frá Þýskalandi.

En nú er ég að fá heimsókn á miðvikudaginn. Sólveig ætlar að heimsækja mig en eins og kom fram í kommentari hér framar þá verður Nanna fjarri góðu gamni vegna veikinda. Rosa leiðinlegt en svona gerist víst og við höfum hana bara með í anda. Veit ekkert hvað verður gert en það verður eitthvað brjálað. Versla, drekka bjór, borða góðan mat, versla og drekka bjór býst ég fastlega við. Ó já og kannski spa! Þetta verður stuð og ég get ekki beðið þó að eftirvæntingin litist óneitanlega af pínu svekkelsi þar sem Nanna kemur ekki. En Nanna mín ef þú ert að lesa þá vona ég bara að þér batni sem fyrst og við gerum bara eitthvað skemmtó seinna.

Ég sit á kaffihúsi og á að vera að læra, fór nefnilega út til að fá frið til að skrifa ritgerð. Ég er með svo mikla frestunaráráttu að ég get ekki stöðvað mig í að skrifa nokkur orð hér fyrst og blaðra aðeins á msn áður en ég byrja. Veit ekki alveg hvar þetta endar, hef svei mér þá aldrei verið eins löt. Útum gluggann sé ég iðandi mannlífið; inni í búðinni á móti eru afgreiðsludömur að æfa salsasveiflurnar sínar, drengur með risa stóran tölustafinn fjóra í fanginu hefur gengið framhjá tvisvar og hefðbundin umferðarteppa á annatíma. Mér er bara farið að líka vel við þessa borg.

þriðjudagur, 16. október 2007

leifar af sovíet

Er búin að vera á röltinu í næstum allan dag. Veðrið er svo indælt og fínt að ég bara gat ekki hugsað mér að fara inn. Ég rölti alltaf bara í gamla bænum þar sem fallegu húsin eru, skítt með að hann sé fullur af túristum. Kíki alltaf í búðir og heimsæki flíkurnar sem mig langar svo að kaupa en eru of dýrar. Langar svo í nýja skó en þeir eru strigaskór og kosta 13.000 krónur, já það er alveg hægt að finna dýra og fallega hluti hérna þó að ódýra ljóta dótið sé yfirgnæfandi.

Í gær heimsótti ég bókasafnið hér á horninu í fyrsta sinn. Þetta er aðalbókasafnið og bjóst ég við að geta hangið þar og kíkt í einhverjar skræður. Ég veit ekki hvað það á eftir að taka mig langan tíma að læra að hér er ekkert eins þægilegt og það gæti verið. Þegar ég kom inn á safnið gekk ég í gegnum einskonar skrifstofu og leit til beggja hliða en sá engar bækur svo ég gekk áfram. Eftir nokkrar sekúndur var kominn vörður á eftir mér og spurði hann mig hvað ég væri að gera. Ég sagði eins og var að ég væri komin til að kíkja á nokkrar bækur. Hann benti mér þá á að tala við konu sem sat við skrifborð en hún vildi ekkert við mig tala og benti mér á aðra konu. Sú kona spurði mig hvaða bækur ég vildi skoða. Ég vissi það ekkert því ég ætlaði bara að litast um í sögudeildinni og kannski félagsfræðideildinni. Nei það var ekki svo auðvelt. Ég þurfti að setjast niður við tölvu og leita að bókum þar og ef ég finn einhverja þá verð ég að skrifa titil og höfund niður á þar til gerðan snepil og rétta konunni. Hún myndi þá finna bókina fyrir mig og ég fengi líkast til að setjast einhvers staðar og lesa hana. Það er líka bannað að koma með töskur og yfirhafnir inn á bókasafnið og er kona niðri í bás sem geymir það fyrir mann. Ég á voðalega erfitt með svona kerfi en settist nú samt við tölvuna og reyndi að finna eitthvað en það var bara hægt að leita að titlum en ekki efni. Þessu verð ég að venjast líklega eins og öðru, bara eitt af mörgum póst-sovíetskum einkennum borgarinnar.

Í gær fór ég í bíó og sá Foreldra loksins. Ég fór ein og var það í fyrsta sinn sem ég geri það. Það var ótrúlega fínt og myndin var æðislega fín, ég veit ekki hvort það er vegna þess að ég var að horfa á íslenska mynd eða hvað. En ég skemmti mér mjög vel. Seinna um kvöldið fór ég á aðra mynd en hún var norsk og alls ekkert síðri.

Ég hafði loksins samband við kennara sem kenndi fyrir norðan en er fluttur til Riga og var hann voða ánægður að heyra í mér. Ég var nefnilega að biðja um hjálp við að finna efni fyrir skólann þar sem bókasafnskerfið er ekki alveg að vinna með mér eða öðrum útlendingum. Hann ætlar að bjóða mér í mat karlinn og væntanlega getur hjálpað mér þar sem hann er sagnfræðingur og ætti að vita ýmislegt um sögu eystrasaltsríkjanna. Hann er samt örugglega fyndasti kennari sem ég hef nokkurn tíma hitt, hann er þýskur og talar með rosalega miklum hreim. Ég hef ofsalega gaman að honum og hlakka mikið til að hitta hann og fjölskylduna hans. Hann heldur eins og margir aðrir kennarar á Akureyri að ég sé iðnasti nemandi í heimi svo ég verð aðeins að halda uppi ímyndinni. Það verður lítið mál!

sunnudagur, 14. október 2007

Ísland - Lettland 2-4

Ég virðist alltaf vera að plata hér á þessu bloggi. Alltaf að segjast vera að fara gera eitthvað en svo verður mér aldrei neitt úr verki einhvern veginn. Við fórum semsagt ekki á Gus Gus tónleikana. Mér er svo sem alveg sama þar sem ég er ekkert mikil Gus Gus manneskja og enn með smá ógeð eftir tónleikana sem við fórum á fyrir nokkrum árum í Perlunni. Það er rosalega langt síðan og ekki sama fólkið í bandinu en þetta voru bara svo spes tónleikar.

Danirnir buðu okkur meðleigjandanum heim að horfa á Ísland - Lettland. Það var fínt að fara í heimsókn og meira að segja pínu stuð að sjá Laugardalsvöllinn. Ég fékk svona "ahhh heima" tilfinningu og kannaðist meira að segja við einn af áhorfendunum. Það þótti þeim fyndið. Rasmus spurði mig upp úr þurru hvort það væru kýr á Íslandi, ég var viss um að ég væri að misskilja eitthvað en nei nei honum fannst alveg líklegt að við ræktuðum ekki kýr. Hann hafði nefnilega lesið að það væru engar kýr á Grænlandi því þeir hafa ekki græn svæði til að geyma þær. Í hans huga erum við dáldið eins og Grænland og Færeyjar, það pirrar mig pínu en ekkert mikið.

Það er norræn kvikmyndahátíð í gangi hér núna og ætlum við að reyna að kíkja á nokkrar. Ég missti af Foreldrum sem var sýnd á frumsýningarkvöldið og frétti seinna að einn leikaranna var þar og sat fyrir svörum eftir sýningu. Það hefði verið áhugavert en ég sé hana bara seinna í vikunni. Við vorum nefnilega að kveðja hana Isabel sem er nú að flytja til Tallinn og ætlar að vera lærlingur í Goethe-stöfnuninni þar. Við ætlum að heimsækja hana í vetur svo þetta var ekki endanleg kveðja. Ég hef nú tekið við þeim vafasama heiðri að vera aldursforsetinn í hópnum og veit ég ekki alveg hvað mér finnst um það. Hún Isabel er nefnilega tveimur mánuðum eldri en ég og þótti mér það bara fínt.

þriðjudagur, 9. október 2007

Haustið komið í Riga

Hér rignir enn og inn á milli má greina haglél. Mér var svo kalt í morgun að ég setti upp vettlinga sem hafa ekki verið notaðir síðan á Akureyri. En talandi um þann ágæta bæ þá hitti ég nokkra Akureyringa um helgina sem komu í skemmtiferð beint frá Akureyrarflugvelli. Fyndið hvað það er auðvelt að þekkja Íslendinga alltaf, ég var búin að glápa á þau í smá stund fyrir framan lyftuna upp á 26. hæð á fínasta hótelinu hér í bæ þegar ég heyrði að þau voru íslensk. Þau þekktu auðvitað hana Herdísi mína sem við var að búast þar sem hún virðist þekkja alla fyrir norðan.

Helgin var æðisleg þrátt fyrir að plönin hafi farið fyrir lítið. Við fórum ekki til Sigulda á bobsleða, ekki í dýragarðinn og occupational safninu var lokað áður en við náðum að finna bréfið hans Jóns Baldvins. Við náðum ekki einu sinni markaðnum áður en honum var lokað. Þetta var letilíf og líkaði okkur vel. Gesturinn minn kom víst til að hitta mig en ekki Riga sem er náttúrulega mjög skiljanlegt...ekki satt?

Í kvöld var ákveðið að storma á Gus Gus tónleika sem verða haldnir næstu helgi og vona ég bara að þau standi undir nafni. Á spjallvefum hér í borg eru fjöllistahópurinn lofaður í hástert og mætti halda að um konunga elektróniskrar tónlistar væri að ræða. Vinir mínir þekkja bandið ekkert fyrir utan Hauke en eru samt sem áður rosa spennt.

Félagslífið er soldið að trufla námið en ég hef ákveðið að snúa við blaðinu og fara að taka þetta föstum tökum. Kúrsarnir eru ekki alveg það sem ég hefði valið heima en ágætir samt sem áður. Ég er orðin dálítið leið á því að vera alltaf úti að aka og skila lélegum ritgerðum jafnvel degi of seint. Á bara svolítið erfitt með að finna mótívasjón þar sem ég er í frekar fáum og auðveldum kúrsum. Ritgerðirnar eru skrifaðar á handahlaupum en ég er samt að fá fínustu einkunnir fyrir þær. Fólk er að fá 3 og 4 svo það virðist ekkert sjálfgefið að fá góðar einkunnir (ég kíkti á nokkrar þegar ég var að leita að mínum í dag). En það er leiðinlegt að lulla hugsunarlaust í gegnum þetta svo ég ætla núna að verða fyrirmyndarnemandi á ný, mér tókst það fyrir norðan svo ég hlýt að geta það hér líka.

Í dag keypti ég eriku í eldhúsið svo nú er orðið örlítið heimilislegra um að litast. Ég held að ég muni reyna að finna fleiri plöntur og jafnvel plaköt eða myndir á veggina til að gera íbúðina aðeins Þórulegri. Hún er svolítið eins og skandinavískt farfuglaheimili núna. En ég verð að taka myndir af ljósakrónunum bráðum og sýna ykkur því þær eru svo fyndnar, engin eins og hver annarri ljótari.

bless

fimmtudagur, 4. október 2007

Heimsóknir

Nú var meðleigjandinn að bjóða mér að koma með sér til Ogre að halda ræðu um íslensku. Hann ætlar að tala um norsku og spurði mig hvort ég hefði áhuga á að tala líka. Þetta er náttúrulega bara gott tækifæri fyrir mig að æfa mig í að blaðra fyrir framan fólk svo ég bara sló til. En nú er ég enginn sérfræðingur í íslenskri tungu svo ég verð bara að bulla, ekki satt? Þetta kemur allt í ljós síðar, fyrirlesturinn er ekki fyrr en seinni part nóvember.

Það hefur rignt alveg ógurlega síðustu daga og er ekki annað hægt en að vorkenna foreldrum meðleigjandans þar sem þau hafa ekki fengið gott veður. Þau fara á morgun, Ofsalega indælt fólk sem hefur boðið mér með í ferðir og út að borða...Magnus gerir þetta líka; býður mér alltaf með hvert sem hann fer. Voða næs. Hint, hint foreldrar þegar þið komið, haha.

En talandi um heimsóknir þá er ég líka að taka á móti gestum (gesti öllu heldur) yfir helgina svo að ég mun líklega ekkert láta í mér heyra fyrr en á þriðjudag. Ég veit að ég á eftir að skemmta mér konunglega á meðan og vona að þið gerið það sömuleiðis. Förum til Sigulda sem er bær í klukkutíma fjarlægð en þar er opinber pólisía að halda öllu náttúrulegu og stuðla að útivist í fallegu umhverfi. Þar er líka hægt að fara í bobsleða en ég efast stórlega um að ég muni gera það, læt ferðafélagann um slíkt glæfraspil!

Erasmus fólkið er að fara til Sigulda á laugardag sem þýðir að við munum fara á sunnudag. Ég er ofsalegur félagsskítur en líkar það bara ágætlega.

Er að spá í að fara í dýragarðinn líka og jafnvel occupational safnið (get ekki fyrir mitt litla líf munað hvað occupation er á íslensku, herseta? finnst eins og sovíet hafi nú verið eitthvað meira og annað en bara herseta) En þar ku vera bréf frá honum Jóni Baldvini frekar en Dabba konungi til Eystrasaltsríkjanna. Erasmusarnir sem hafa farið tala alltaf um bréf frá Bush eldri en mér þykir nú ekkert til þess koma ef hægt er að finna okkar bréf í staðinn. Það hlýtur nú bara að þykja merkilegra, ekki satt?

jæja farin að röfla og þá er best að hætta bara,

heyrumst eftir helgi

miðvikudagur, 3. október 2007

Ferðalög og myndir

Um síðustu helgi fór ég ásamt nokkrum öðrum til Cesis (lesist tjesis). Það er indælis smábær sem er gullfallegur í haustlitunum. Við skoðuðum þar kastala og fleira skemmtilegt. Ég lærði fullt af sögustaðreyndum í þessari ferð en er að sjálfsögðu búin að gleyma þeim öllum núna.

Kóramenningin hér í landi er mikil og er það skylda í flestum grunnskólum að ganga í skólakórinn. Við sáum einn slíkan í Cesis sem var skipaður af krökkum sem virtust ekki eldri en 15 eða 16. Þeim virtist líka ofsalega vel að syngja og hljómuðu mjög fullorðinslega (þetta hljómaði ekkert eins og hólabrekkuskólakórinn sem ég fékk ekki aðgang að sökum lagleysis).

En í gær fór ég ásamt meðleigjandanum og foreldrum hans til Litháen en þar skoðuðum við hæð krossanna. Þar eru skrilljón krossar þar sem fólk getur sett niður til minningar um nákomna. Æðislega fallegur staður og gaman að koma þangað. Ég man að ég sá myndir frá þessari hæð og las um hana fyrir örugglega 10 til 15 árum og ákvað ég þá að þangað þyrfti ég að koma. Ég var því ótrúlega ánægð þegar ég heyrði af þessari ferð.

Krossinn er auðvitað trúartákn hér en hefur einnig fleiri tilvísanir. Ég sá í heimildamynd um daginn að hann er einnig tákn fyrir baráttu hér í Eystrasaltsríkjunum. Þegar Rússar réðu hér lögum og lofum á tímum sovíetríkjanna tóku þeir krossana oft og mörgum sinnum niður en Litháar reistu þá upp jafn óðum þangað til að þeir fengu að vera.

Ég tók út texta sem var ekki mjög sanngjarn gagnvart fólki sem mér þykir orðið ansi vænt um svo að kommentin sem komið hafa eru dáldið út úr kú ef þið hafið ekki séð það sem hér áður stóð.

góðar stundir

p.s. setti myndir af ferðalögum mínum inná myndasíðuna

föstudagur, 28. september 2007

Póst-sovíetskir tímar

Riga er voða hrein borg og hvergi rusl að sjá á götunum, þetta er ekki vegna þess að fólk sé svo snyrtilegt hérna og hendi aldrei rusli á göturnar. Nei, hér starfa um 10.000 götusóparar sem sjá um að halda borginni hreinni. Nú sjáiði ef til vill fyrir ykkur appelsínugula og hávaðasama vélknúna götusópara en því fer fjarri hér í Póst-sovíet, götusópararnir fá strákúst til verksins. Kústarnir eru eins og þeir sem nornir nota til að fljúga á. Ég veit svo sem ekki alveg hvað þeir eru margir en meðleigjandinn sem er mín helsta upplýsingauppspretta fleygði þessari tölu fram í gær. Flestir þessara starfsmanna eru konur og eru líklega ekki að fá mikið borgað en þær standa sig ofsalega vel sérstaklega ef haft er í huga verkfærið sem þær fá.

Sporvagnarnir hér í borg fara flestir á 5 mínútna fresti og alltaf sömu leið en það eru nokkir sem fara sjaldnar og fara þá einhverja leið sem spannar nokkur hverfi. Til að þessir sporvagnar komist sína leið þarf að breyta sporinu svo þeir geti beygt þar sem annars er ekki beygt. Vagnstjórinn breytir ekki sporinu sjálfur og ekki er það sjálfvirkt. Það eru starfsmenn settir í þetta verkefni eins og önnur, þeir mæta þá nokkrum sinnum á þessa tilteknu staði og toga í stöng til að breyta sporinu. Þetta er þeirra vinna og gætu þeir því kallast sporbreytingastjórar eða eitthvað þvíumlíkt.

Á bókasafninu í skólanum er hægt að prenta og er reyndar allt námsefni skannað inn í tölvur eins og ég hef kannski sagt ykkur áður. En til þess að prenta námsefnið út þarf maður að vera í skólanum það er ekki hægt að komast inn á skólavefinn utan skólans. Þegar maður prentar finnur maður bara skjalið og ýtir á print eins og venjulega en svo fer maður og bíður við prentarann. Hann tekur sér sinn tíma í þetta eins og annað þjónustufólk hér í landi. Þegar prentið er tilbúið fer ég með það til konunnar sem situr við hliðina á prentaranum og hún telur blaðsíðurnar. Ykkur missást ekki hún TELUR blaðsíðurnar, ég hef þurft að bíða á meðan hún taldi 75 blaðsíður og sleikti puttana á milli. Þegar hún er búin að telja skrifar hún upphæð á blað og ég tek blaðið og fer með það til konunnar sem situr í búri frammi á gangi, þar borga ég téða upphæð. Konan í búrinu kvittar á blaðið að ég hafi borgað, síðan fer ég aftur inn á bókasafn og næ í blöðin.

Þetta eru bara örfá dæmi um furðulega skilvirkni hér í Riga, ég gæti setið og talið upp fleiri slík í allan dag. Við sem köllum okkur vesturlandabúa, sem pirrar austantjaldsþjóðir soldið, höfum komist að þeirri niðurstöðu að þetta eins og raðirnar séu leifar af kommúnismanum. Þá þurfti að finna vinnu fyrir alla og ef þær voru ekki til þá varð að finna þær upp. Með því að skipta mannafli ekki út fyrir vélar má halda atvinnuleysi í skefjum. Nú eiga Lettar reyndar ekki í vandræðum með atvinnuleysi því þeir eiga í svipuðum vandræðum og við, þá vantar fólk. En skilvirknin hefur ekki alveg náð fótfestu enn og þarf maður bara að lifa með því.

Hvur veit? kannski læri ég bara þolinmæði á meðan ég er hérna.

miðvikudagur, 26. september 2007

Beðmál í borginni

Ég er svoddan partýstelpa að ég er með gesti nánast á hverju kvöldi hér í Riga. Neii djóóóók. En samt er ég að fá gesti í kvöld aftur og ætlum við að reyna að elda eitthvað ætilegt í þetta skipti. En við ætlum líka að vígja sánuna fínu upp á 11. hæð og það verður rosa fínt held ég. Meðleigjandinn þarf reyndar að kenna mér á hana fyrst en hann þorir ekki að vera með því þetta verða bara stelpur. Ég er reyndar enginn sérstakur sánuáðdáandi en þetta verður fínt, herbergið fyrir framan er ægilega fínt líka svo þar má sitja og sötra sjampanietis og borða jarðaber.

Það eru allir að kvarta undan því að dagarnir séu orðnir svo stuttir hérna en ég norðurhjarabúinn hef ekki einu sinni tekið eftir því. Ég bjóst reyndar ekki við því að þessi fídus væri hér í Lettlandi líka. Ég komst að því í gær að í júní verður einungis dimmt í sirka 4 tíma. Dagarnir verða örugglega ekki eins stuttir og heima og það er ekki einu sinni orðið dimmt á morgnana svo ég veit ekki alveg hvað þetta fólk er að kvarta. Vinir mínir halda að Íslendingar hljóti að vera voða þunglynt fólk en mig minnir endilega að ég hafi lesið einhverjar rannsóknir í sálfræðinni þarna um árið að það væri enginn munur á okkur og öðrum. Hins vegar verðum við úber hress þegar við flytjum til heitu landanna samkvæmt þessum rannsóknum...ef ég man þetta rétt. Það er svo ashkoti langt síðan ég lufsaðist í gegnum þetta nám svo ég er kannski ekki áræðanlegasta heimildin.

Í morgun fór ég á fund með alþjóðafulltrúanum og einhverri konu sem ég man ekki hvað heitir en hún á að finna fyrir mig eitthvert verknám innan fjölmiðlanna hér í Riga. Hún tók einu sinni viðtal við Frú Vigdísi og bað ofsa vel að heilsa henni. En það sem mér þótti skemmtilegast við þessa konu er að hún þekkir ritstjóra lettneska Cosmopolitan og ætlar að spyrja hana hvort ég megi vinna hjá henni í vetur. Ég er rosalega spennt fyrir þessu og vona að ég fái verknám þar, það á víst ekki að vera mikið mál fyrir þau að þýða greinar eftir mig á lettnesku. Ég verð þá að sjálfsögðu lettnesk/íslensk útgáfa af henni Carrie Bradshaw og þarf þá að fjárfesta í háum hælum og stuttum pilsum sem nóg er af í þessari borg. Ég mun héðan í frá aðeins drekka cosmopolitan kokteila og hanga með þotuliðinu.

En það kemur í ljós síðar hvort þetta gangi upp og ég geti farið að lifa lífi kvennanna í Sex and the City.

sunnudagur, 23. september 2007

Helgin er leið

Helgin hefur verið ansi viðburðarík og er ég bara nokkuð ánægð með það. Við fórum nokkrar á ströndina sem staðsett er í Júrmala og er bara ægilega fín. Lestin frá Riga tekur hálftíma þangað svo þetta var pínu ferðalag. Alltaf er ég jafn hissa á því hvað sveitin er fín hérna í kring. En það var fullt af fólki á ströndinni þó að ég og Johanna værum þær einu sem skelltum okkur í sjóinn. Hann var bara 10 gráðu heitur og var sundferðin ansi hressandi. Fólk horfði náttúrulega á okkur eins og við værum fæðingarhálfvitar en við skeyttum því engu. Það var búið að taka niður alla búningsklefana og læsa flestum klósettum, það virðist ekki vera gert ráð fyrir því að fólk sé að baða sig í sjónum á haustin. Skil ekkert í því!

Fólk var á ströndinni í úlpum með húfur þó að það væri 18 stiga hiti, þetta eru voðalegar kuldaskræfur hérna.

Partýið í gær fór einstaklega vel fram og þarf ég alveg að fara að venjast því að vinir mínir hér eru ofsalega settlegir þegar kemur að drykkju. Ég er alltaf svo viss um að þeim leiðist en svo er ekki, þau eru bara svona róleg. Lummurnar slógu í gegn en maturinn sem Dagmar frá hollandi eldaði varð svo rótsterkur að varla var hægt að koma honum niður. Við tvær fórum saman í búðina og tók það 20 mínútur að finna einhverja bolognese sósu sem átti að passa en þetta fór ekki betur en svo að við svitnuðum öll við kvöldverðar borðið. Janis (vatnstankurinn víðfrægi) hafði ekki undan við að svala þorsta gestanna eftir matinn svo við verðum að panta meira vatn á morgun.

Í dag fór ég svo ásamt tveimur öðrum í open air museum sem var bara ofsalega fínt. Veðrið var æðislegt og röltum við innan um æfagömul timburhús í skóginum. Þar var fólk í þjóðbúningum að vinna við hefðbundin sveitastörf frá því í gamla daga. Þetta var ofsalega fínt og tók ég fullt af myndum sem ég mun setja á síðuna von bráðar. Við fengum okkur líka að borða og stóðum í hefðbundinni Lettneskri röð.

Ég veit ekki hvort ég hef sagt ykkur frá því fyrr en hér er öll þjónusta með því allra hægasta sem ég hef nokkurn tíma upplifað. Fólk í afgreiðslustörfum virðist bara með engu móti geta hreyft sig á eðlilegum hraða. Alls staðar sem maður fer lendir maður í röð og hún gengur alltaf ótrúlega hægt. Þetta er eitthvað sem þarf bara að venjast en mikið rosalega getur þetta farið í taugarnar á mér. Innfæddir virðast ekkert pirra sig á því þó að afgreiðslumanneskjan stoppi andartak til að spjalla við vini sem koma í heimsókn. Okkar kenning er sú að þetta sé eitt af póst-sovíetskum einkennum Eystrasaltslandanna, allir séu bara vanir því að þurfa að bíða í klukkutíma röðum eftir brauði.

Bölvaðar moskítóflugurnar hafa látið á sér kræla á ný og vaknaði ég með 11 bit í andlitinu í morgun. Já þið lásuð rétt ELLEFU bit í andlitinu. Ég lít út eins og fílamaðurinn þar sem flest bitanna eru í kringum vinstra augað. ÉG er að verða brjáluð á þessu satt best að segja, fór og keypti meira smyrsl til að bera á þetta þar sem hitt sem ég keypti er búin. Ég reyndi að finna einhverjar fælur en það virðist vera ómögulegt. Ég fann eitthvað dót sem ég er að prófa núna en sýnist á myndunum þetta vera kakkalakka-eitur, sjáum til. Ég á fullt af spreyjum og b-vítamíni en ekkert dugar...aaaaarrrrrrgggh! Bitið á augnlokinu er mest pirrandi!

fimmtudagur, 20. september 2007

Vinir okkar í Eystrasaltslöndunum

Jæja ég er aldeilis búin að koma mér í hann krappan, ég er að fara að halda partý fyrir fullt af fólki og búin að taka að mér að elda líka. Það verða hér líka gestir frá Tallinn sem ég hef aldrei hitt en þau eru lærlingar í sendiráðum þar. Meðleigjandinn verður eins og áður kom fram fjarri góðu gamni en virðist vera sama um allt þetta vesen á mér svo það er allt í góðu.

Ég veit ekkert hvað ég á að elda en ég veit að þau búast jafnvel við lummum líka, úff púff. Ég hlýt að geta hrist eitthvað snjallt fram úr erminni. Þetta verður bara stuð!

Ég fór í tíma í dag sem átti að fjalla um innanríkismál í Eystrasaltslöndunum en fjallaði einhvern veginn um eitthvað allt annað. Stelpan sem kennir þennan kúrs hefur tekið ástfóstri við mig því hún heldur að ég viti ekki neitt. Hún grillar alla hina nemendurna um sögukunnáttu og hvað þau viti um Eistland, Lettland og Litháen og þau standa á gati greyin. Ég á víst ekki að vita neitt því ég er frá Íslandi og við lærum ekki sögu þar...eða eitthvað. Mér er alveg sama því hún lætur mig fá fullt af einhverju efni sem hún vill að hinir leiti að sjálfir. Vitleysingurinn frá Íslandi kann nefnilega ekki að leita á bókasafni eða á netinu.

Hún taldi líka upp tengsl landa bekkjafélaganna við Eystrasaltsríkin og þau voru flest í formi einhvers konar yfirráðum nema náttúrulega ÍSLAND. Við erum góðu gæjarnir! Ég skemmti mér konunglega yfir þessu og vona bara að hún fatti ekki að ég á að þekkja evrópska sögu rétt eins og aðrir í bekknum. Hún meira að segja skammaði finnann fyrir að tala ekki...Ég sagði ekki orð heldur.

Ég er að spá í að flagga þjóðerni mínu á fleiri stöðum og sjá hvað gerist. Ætli ég gæti reddað mér fríum bjór eða fram fyrir í röð í súpermarkaðnum? Ég læt ykkur vita.

þriðjudagur, 18. september 2007

Vinir í Riga

Ég er núna búin að breyta öllum kúrsunum mínum. Ég þarf að taka fleiri einingar en venjulegur nemandi hér því skólinn heima vill ekki meta annirnar jafnt einhverra hluta vegna. En ég er ansi háð námslánum svo ég verð bara að bíta í það súra. En ég er rosa spennt fyrir vettvangsnáminu sem ég er búin að skrá mig í, þá fæ ég að fara á einhvern vinnustað og gera eitthvað stuð. Þetta er innan fjölmiðlafræðinnar hér svo það gæti farið svo að ég skrifi í einhvern ferðamannabækling eða eitthvað annað sem er gefið út á ensku. Þetta þykir mér frábært tækifæri til að kynnast venjulegu lífi hér í borg og get varla beðið. Nú þarf ég bara að sannfæra kennarana mína heima um að þetta sé rosalega nútímafræðilegt allt saman. En ég er í pínu fýlu út í þá núna svo að ég ætla að bíða aðeins með bréfið svo ég segi ekki eitthvað sem ég mun sjá eftir.

Í kvöld fór ég á bar sem heitir Bars I love you! pínu fyndið nafn en stórskemmtilegur og huggulegur staður. Þeir spila voða mikið af skandinavískri tónlist, ekkert Roxette bull þó. Ég heyrði meira að segja ammæli með sykurmolunum um daginn og núna áðan fattaði ég af hverju ég kannaðist svo við myndirnar á veggjunum...þær voru allar af SigurRós! Kannski ekkert skrýtið þó okkur norðurlandabúunum líki vel þarna. Þetta var samt svo óvart, við vorum ekkert að leita að skandinavískum bar þetta gerðist bara. Það eru samt engir íslendingar þarna eða fólk af hinum norðurlöndunum svo þetta sleppur.

Allt í karlkyni í lettnesku endar á -s eins og sést hér að ofan þá er bar ekki bar heldur bars og verslunarmiðstöðvarnar heita centrs. Mér finnst þetta svo fyndið að nú tek ég bara hvaða enska orð sem er og set -s aftan við.

Næstu helgi mun ég að öllum líkindum halda partý hér heima og ég á meira að segja vini sem vilja mæta. Ég er voða hress með þetta en þori ekki alveg að segja meðleigjandanum en hann er bara svo akkúrat eitthvað. Voða fínn en ofsalega akkúrat! Hann fer til noregs um næstu helgi svo að hann þarf ekkert að vita. Ég er meira að segja að spá í að elda fyrir fólkið. Hann Hauke frá Þýskalandi vill endilega að ég steiki lummur handa sér og ég er að spá í að verða bara við því. Ég auglýsi hérmeð eftir Lummu uppskrift, amma Edda gerir bestu lummur í heimi og ég vona að það sé genatískt. Ég varð útundan þegar prjónageninu var úthlutað, hef líklega verið bakvið tré en hlýt að hafa lummugenið. Annað væri bara ósanngjarnt.

Lífið í Riga er að komast í einhverjar skorður og ég er komin í rosa fínan vinahóp sem er alltaf til í að gera eitthvað. Komin með rosaplön fyrir helgina, Tallinn ferð einhvern tíma og jafnvel Sankti Pétursborg. Mér líkar þetta vel.

mánudagur, 17. september 2007

myndir!

Heyrðu svo voru myndirnar bara þarna. Ég mun víst seint vinna til verðlauna fyrir færni í tölvum. En hérna eru þær þó með stórskemmtilegum lýsingum mínum.

njótið

Vilnius er fín

Jæja þá er ég komin frá vilnius. Það var voða fínt hjá þeim þarna niðurfrá en þeir virðast leggja meira í að gera upp byggingarnar sínar en þeir gera hér. Borgin er því mjög falleg á að líta og hrein. Hún er líka mjög róleg og friðsæl ólíkt Riga sem er bara doldið eins og stórborg þó að hún sé lítil. Ég er svoddan smábæjarmanneskja og þess vegna líkar mér miklu betur við Vilnius en Riga. Auðvitað á ég eftir að venjast röðunum og hávaðanum hér en mér þótti ofsalega gott að komast út úr borginni. Sveitin er bara býsna falleg hér þó hún sé alveg flöt. Hér eru skógar og sveitahúsin eru voða sæt og fín.

Krakkarnir sem tóku á móti okkur voru mjög dugleg að draga okkur hingað og þangað en við fórum til dæmis hingað í Sjónvarpsturninn sem er rosa hár. Hann er 326 metrar en veitingahúsið þar fólk fær að njóta útsýnisins er í 160 metra hæð. Í frelsisbaráttunni 1991 dóu 14 Litháar og 700 slösuðust þegar þeir voru að mótmæla því að Sovíetríkin hefðu hertekið turninn.

Við fórum líka á KGB safnið sem er staðsett í gömlu herstöðvunum Í Vilnius. Þar var fangelsi í kjallaranum og hefur það fengið að standa í upprunalegu ástandi. Það var mjög óhugnalegt að litast um þar.

Lithaár komust ansi langt í Evrópukeppninni í körfubolta og kvöldið sem við komum komust þeir í undanúrslit sem þeir reyndar töpuðu svo fyrir Rússlandi. En stemmningin var gríðarleg fólk dansaði úti á götu og bílar skreyttir fánum bibuðu og keyrðu í hringi. Þetta var mjög skemmtilegt að sjá en það hefði verið gaman ef þeir hefðu unnið leikinn gegn Rússum líka. En við fréttum svo að Litháen endaði í 3. sæti svo það er fínasti árangur.

myndirnar koma bráðum. var búin að setja inn rosa fína möppu en svo hvarf hún og ég nenni ekki að byrja upp á nýtt alveg strax

föstudagur, 14. september 2007

Farin í frí

Ég er að fara til Vilnius eftir hálftíma, jibbý hlakka rosa til. Ætla að taka fullt af myndum og skoða fullt af dóti. Skandinavísku lærlingarnir í Riga buðu bara öllum lærlingunum í Eystrasaltslöndunum að mæta og eru með rosa plan og allt. Ég fæ að koma með þó að ég sé ekki lærlingur og er mjög þakklát fyrir það. Héðan fara Magnus, Ég, Rasmus (danmörk) og Dagmar (holland).

En ég heyri örugglega ekki í ykkur fyrr en eftir helgi svo hafið það gott í rigningunni. Við höldum bara áfram að sleikja sólina hér eystra, nani nani búú búú!

fimmtudagur, 13. september 2007

myndir!

það er kominn linkur hér til hægri sem vísar ykkur á myndasíðuna mína. þær eru ekki margar og ekki kannski þær mest spennandi en það mun vonandi breytast.

njótið

miðvikudagur, 12. september 2007

Labdien

Ég náði að afreka ýmislegt í gær sem hefur verið í deiglunni síðan ég kom. Í fyrsta lagi keypti ég myndavélina sem ég reyndi að kaupa um daginn. Hafði farið í einhverja risabúð og fundið þessa fínu myndavél en þegar ég kom að kassanum þurfti ég að framvísa vegabréfinu mínu. Þegar í ljós kom að ég gæti það ekki snéri kassadaman sér orðalaust að næsta kúnna og neitaði að útskýra nokkuð fyrir mér. Ég mátti ekki kaupa myndavélina!

Ég fór auðvitað í fýlu en seinna sá ég sömu vél í annarri búð. Ég þorði ekki að reyna að versla myndavél aftur án þess að hafa vegabréf en gleymi því alltaf heima. En í gær fór ég í seinni búðina og keypti þessa fínu fínu vél án þess að framvísa vegabréfi. Hún er voða nett og með einhverjum fídusum en ég þekki þá ekki enn. Ég kann ekkert á digital en ég læri bara.

Í öðru lagi smellti ég mér í búðir og verslaði. Ég er búin að skoða voða mikið en aldrei fundið búðir þar sem ég vildi kaupa eitthvað. Erasmus-buddýinn minn sýndi mér búðirnar sem ég hafði verið að leita að um helgina svo ég gat aldeilis notað vísakortið mitt í gær.

Lífið mitt er orðið svo áhyggjulaust eftir að ég ákvað að hætta í leiðindakúrsinum að nú veit ég ekkert hvað ég á að gera. Fara í bæinn og eyða meiru á vísa kortið eða á ég að smella mér í gymmið niðri, hmm. Ég þarf líka að læra að setja myndir inn á bloggið, eitthvað segir mér að það muni taka töluverðan tíma.

Í gær sagði mannfræði kennarinn okkur frá því að í Litháen var öllum Lenín styttunum safnað saman og þær settar í eins konar gúlag. Inni í einhverjum skógi þar í landi er hrúga af Lenínum og í kringum hrúguna er skurður með vatni í og þar fyrir utan er gaddavírsgirðing. Þetta er mjög symbólískt og fær Lenín borgað fyrir allt það sem kommúnistar lögðu á Litháen.

Í Lettlandi er ein Lenín stytta eftir og er hún á safni einhvers staðar. En hún liggur í kistu og sést ekki. Á kistunni er platti og á honum stendur: í þessari kistu er stytta af Lenín.

Ég er nú búin að læra nokkur lettnesk orð:

Labdien = Góðan dag
Paldies (pínu mjúkt P og svo bara rosa rúskhý)= takk
Lúdzu= gjörðu svo vel (notast eins og please í ensku)
chao=hæ og bæ (eins og ítalska)
Ka tevi sauc? (c lesist eins og ts) = hvað heitir þú?
Mani sauc...= ég heiti...

lettneska er borin fram eins og hún er skrifuð. Málfræðin er ekkert svo brjáluð, nokkur föll og þau sjást á endingunum og tvö kyn. Orðaröðin er víst pínu spes hef ég heyrt en hef ekki orðið vör við það. Það sem er erfiðast er að orðin eru bara ekkert lík neinu sem ég hef lært áður svo að ég man bara ekki hvað er hvað. Ég get til dæmis ekki fyrir mitt litla líf munað hvernig maður á að segja kurteist bless.

Chao

mánudagur, 10. september 2007

Uppáhaldsbúðin fundin

Ég hætti bara í pró-ameríku kúrsinum. Kláraði nú samt ritgerðina og mætti í málstofu sem var svo skrítin að ég bara sat bara og þagði. Við vorum svona 40 talsins og allir áttu að rétta upp hendi til fá að tala og svo bunuðu þau út úr sér einhverri þvælu sem þau lásu í textanum. Eins og við hefðum ekki öll lesið hann og svo biðu bara allir þangað til að það kæmi að þeim. Það svaraði enginn neinum, bara staðhæfingar út í loftið um það hvað Ameríka er hræðileg. Vá spes, ég þurfti að stoppa mig tvisvar af í að grípa frammí og svara einhverju bullinu.
Ég kann ekki að bulla svona út í loftið svo ég rétti ekki upp hendi, eftir tímann fattaði ég af hverju allir voru svona áfjáðir í að tala þó þeir hefðu ekkert að segja. Ég var skömmuð fyrir að tala ekki! Mér þykir nú bara best að þegja ef ég hef ekkert gáfulegt að segja! Karluglan skráði hjá sér hverjir töluðu og hverjir ekki, það er ekkert skrítið þó að þetta hafi orðið að einhverju kapphlaupi í að bulla. Ég er hætt!

Ég er skráð í of marga kúrsa svo ég þarf að hætta í einhverju og ég tel best að þetta verði það!

Ég var svo pirruð á leiðinni heim að ég ákvað að kíkja í stóru matvörubúðina hjá lestarstöðinni minni. Hún er svo fín að mér fannst ég komin heim, það er allt til. Það er meira að segja hægt að kaupa kaffibaunir ómalaðar og lífrænt ræktað grænmeti. Þetta er alveg nýja uppáhaldsbúðin. Ég keypti meira að segja ís sem ég borðaði á leiðinni heim og svo gúffaði ég súkkulaðistykki þegar heim var komið. Núna er ég með magaverk, það er allt of langt síðan ég hef borðað gúmmelaði. En ég er syngjandi sæl því nú get ég farið að elda, veivei. Hef ekki borðað góðan heimatilbúinn mat síðan ég kom, bara einhvern piparsveinsviðbjóð sem meðleigjandinn býður upp á.

Ég er farin að rata hér um eins og herforingi þegar ég er ódrukkin en það er dálítið erfiðara að komast heim af skrallinu. Ég tók að mér að fylgja stelpu heim úr partýi á föstudaginn sem hafði bara verið hér í tvo daga, það endaði með þvi að hún hringdi á leigubíl. Ég var mjög fegin að hún vissi númerið því ekki gerði ég það.

af heimsóknum og öðru

Ég er að verða búin að jafna mig af óperunni en hef verið að skrifa ritgerð síðan í gær. Að sjálfsögðu er ég á síðustu stundu og ætti jafnvel að vera að skrifa niðurlagið núna í stað þess að blogga um ekki neitt. En svona er þetta bara! Ég á að skila eftir þrjá tíma og á eftir að fara í sturtu, klæða mig og taka sporvagninn í skólann. uss nægur tími!

En nú hef ég fengið staðfestingu á því að stelpurnar munu heimsækja mig í lok október, júbbí. Ég segi stelpurnar því það er ekki alveg ráðið hverjar koma en Nanna og Sólveig eru búnar að kaupa miðann dadarara. Svo gæti farið svo að ég fái heimsókn fyrstu helgina i október líka, það fer því hver að verða síðastur að bóka tíma. Ég verð bara fram að jólum...sem minnir mig á það ég þarf að breyta miðanum mínum.

Það eru iðnaðarmenn í nærliggjandi íbúðum með hávaða, þeir eru búnir að vera hér í ár og þegar meðleigjandinn spurði hvenær þeir yrðu búnir: á næsta ári! Þetta er að taka djöfuls tíma og þeir vinna frá 8 til 6 alla daga nema sunnudaga. Hvurn fjárann eru þeir að gera þarna? Þeir eru venju samkvæmt Rússar, Lettarnir eru farnir annað í vinnu. Vestur-evrópa flytur inn svo mikið af vinnuafli að nú þurfa Eystrasaltsríkin að flytja inn vinnuafl líka. Fyndið!

laugardagur, 8. september 2007

Óperan

Ég fór í óperuna og jeminn eini einasti hvað það var leiðinlegt. Það ætti að sekta fólk fyrir að bjóða manni upp á þetta. Sýningin heitir Operation: Orpheus og fór fram á dönsku, hún er módern klassík heyrði ég í eftirpartýinu. Ég var ekki sú eina sem var að tapa sér úr leiðindum því meðleigjandinn og hinir lærlingarnir hefðu alveg viljað eyða kvöldinu í annað. En norski sendiherrann var í stuði og vildi ræða sögu íslands. Þetta er þá í annað sinn á mjög stuttum tíma sem ég hitti eldri norskan mann sem þykir sopinn fínn og saga íslands svo merkileg. Ég get svona slumpað á flestar þessar spurningar og frætt um sitt hvað en svo bara bullar maður inn á milli, ha? er þaggi bara!

Óperuhúsið var samt voða smart þó að sýningin hafi verið grautfúl. Veggirnir voru allir settir gulli og allskonar mynstri. Ég sat á svölunum og sá bara alveg ágætlega þó að það hafi ekki gert neitt gagn. Í lok sýningar var rosa fínt laser-show og leit út fyrir að við værum á hafsbotni. En eftir sýninguna og eftirpartýið fórum við meðleigjandinn samferða sendiherranum heim þar sem hann býr í sama húsi og við. Á leiðinni keypti sendiherrann rós af konu sem sat nálægt óperunni og gaf mér. Haldiði að það sé sjarmör!

Ég hef tekið eftir því að fólkið sem situr á götuhornum og betlar eða reynir að selja smáhluti eru eiginlega í öllum tilfellum konur. Meðleigjandinn sagði mér að ellilífeyriskerfið hérna væri meingallað og margir þurfa að framfleyta sér með því að selja grænmeti eða rósir. Mér þykir það sorglegt hvað stór hluti betlara hér í borg eru konur, ekki að ég vilji fjölga karlkynsbetlurum. Þetta er bara soldið dæmigert, ekki satt?

Á morgun þarf ég að byrja á og klára fyrstu ritgerð annarinnar, hún á að vera 6 til 8 blaðsíður og skilum við ritgerð í hverri viku í flestum kúrsunum. Ég á að fjalla um utanríkisstefnu Bandaríkjanna í þessari viku og eru allar greinarnar sem við eigum að lesa brjálæðislega hliðhollar Bandaríkjunum. Í undirtitli einnar kemur fram að ef við hefðum ekki Bandaríkin til að halda öllu á réttum kili þá myndum við fljótt stefna í anarkí-óreiðu miðaldanna. Úff hvað mér á eftir að finnast þetta spes áfangi.

fimmtudagur, 6. september 2007

bíó

Klórar sér pirruð í bitunum, hress og kát það er hún Þóra...
ræræræræræræræræræræ rararæræræ
(soda,1999)

Þegar ég varð tvítug fékk ég frumsamið lag um mig í afmælisgjöf. Þetta lag er að poppa upp í kollinn á mér alltaf öðru hverju þessa dagana. Helvítis flugukvikindið hefur ekki hætt enn, hún er svo lævís að hún bíður þangað til að ég er sofnuð og fer þá á stjá. Ég hélt mig væri farið að dreyma flugur þegar ég vaknaði en svo varð ég vör við þrjú ný bit. Mig rámar nefnilega mjög óljóst í að ég hafi heyrt eitthvað suð í gærkveldi. Ég gæti verið að rugla textanum eitthvað hér að ofan en þá bið ég höfund innilegrar afsökunar, frumheimildin varð eftir í Safamýrinni.

Í gær fór ég á baltneska heimildamyndahátíð og sá þar tvær fínar myndir. Sú fyrri var um Litvinenko, KGB manninn sem fékk geislavirkt eitur. Myndin heitir My friend Sasha og er eftir hann Andrei Nekrasov sem kom og svaraði spurningum eftir sýningu. Það hafði allt farið fram á ensku, kynningin, eftirmálinn og Andrei kynnti sig á ensku líka. En svo fór fólk að spyrja og þá allt í einu fór allt fram á rússnesku, ekki lettnesku nei rússnesku. Það hefði ekki hjálpað mér neitt þó þau hefðu talað hið opinbera tungumál Lettlands en þá hefði hálfur salurinn líklega ekki látið sig hverfa. Ég var svo ofsalega svekkt þegar fyrsta spurningin kom því mig langaði svo að heyra hvað maðurinn hefur að segja um ástandið í Rússlandi. En þurfti að hlusta á rúshky babúshký í hálftíma áður en við þorðum að laumast út. Maðurinn talaði svo fína ensku!

Hin myndin var um sjálfstæðisbaráttu Eistlands, Lettlands og Litháens. Hún var að sjálfsögðu hádramatísk en léttir sprettir inn á milli. Veit ekki alveg hvort ég mæli með henni en hún heitir Homeland. Áhugaverð en ekki beint skemmtileg.

Í dag á að sýna heimildamynd um danska skopmyndafíaskóið sem ég væri til í að sjá en ég þarf að fara í skólann klukkan fjögur og verð ekki komin heim fyrr en 7. Bölvaður dónaskapur að hafa tímana svona seint. En vitiði hvað? Ég og Jóhanna fengum miðana frítt af því við vorum með skólaskírteini, FRÍTT! Það sem meira er þá á Jóhanna bara þýskt skólaskírteini því hún er ekki í skóla hér. Þetta finnst mér til fyrirmyndar og legg til að íslensk kvikmyndahús hætti þessu rugli og bjóði okkur í bíó.

bless,

p.s. Sólveig Lilja, ég ýkti aðeins við hann Magnus þegar ég var að monta mig af 10 kílómetrunum í gær, þú samþykkir bara allt þegar þú kemur. Ég veit ekkert af hverju ég gerði það en áður en ég vissi af þá komu orðin bara út úr mér. Hann hljóp hálft maraþon í sumar en ég veit ekki hvað hann var lengi.

þriðjudagur, 4. september 2007

Jibbý kóla!

Ég vona að þeir fylkismenn sem lesa þetta blogg séu búnir að jafna sig...neneneneneeeeee!

en að öðru:
Þá er dagur númer tvö í skólanum liðinn og mér líst bara voða vel á þetta allt saman. Ég er loksins komin í umhverfi þar sem ég kann reglurnar og það er ósköp þægilegt. Kennararnir eru mjög týpískir allir klæddir í flauelsjakka og gallabuxur, svona kasjúal en virðulegir. Það er létt andrúmsloft í fyrirlestrunum og allt eins og heima bara.

Það er samt einn kennari sem kom mér pínu á óvart en hann er mjög Ameríkuseraður og var fylgjandi innrásinni í Írak. Þetta viðurkenndi hann bara sisvona og án þess að skammast sín en sagðist þó vera viss um að vera í minnihluta í salnum. Hann í raun er viss um að heimurinn færi bara fjandans til ef væri ekki fyrir stöku inngrip Bandaríkjanna. Skrítið, flestir minna kennara eru svo vinstrisinnaðir að þeir gagnrýna Bandaríkin frekar en að tala þeirra máli. Reyndar var Magnus búinn að vara mig við þessu og sagði að þetta væri alls ekkert óalgengt. Þessi sami kennari lítur á sjálfan sig sem mjög mið-evrópskan því hann hefur bæði lært og kennt í Póllandi, Rússlandi og Lettlandi. Fyrir mér er mið-evrópa meira Þýskaland og Holland eða þar einhvers staðar en ég er kannski soldið gamaldags, járntjaldið er víst fallið.

Það er ákveðið að ég mun fara í óperuna á sunnudaginn að sjá eitthvað sem ég man ekki alveg hvað heitir. Magnus þarf að fara með sendiherranum því konan hans er veik eða í útlöndum og danski lærlingurinn er í svipuðum sporum. Þeir fara því sem eiginkonur sendiherranna sinna og þykir þeim það ofsa sniðugt. Ég hlakka mikið til og ætla að fara í mitt fínasta púss, ég fer jafnvel í háu hælana.

Bækur eru mjög ódýrar hér í borg og ég komst að því í gær að bókabúðin við hliðina á mér selur líka útlenskar bækur. Ég keypti ensk-lettneska, lettnesk-enska orðabók á 5.30 lats sem er 670 kall og sá fullt af fíneríis ljósmyndabókum sem mig langar að kaupa seinna.

Núna sit ég í kaffisölu stúdenta þar sem má kaupa kaffi og mat fyrir lítinn pening. Það er nefnilega nýtísku þráðlaust net hér í skólanum, ég bjóst alls ekki við því. Það þarf að stilla upp myndvarpa fyrir hvern tíma í stofunum og það kemur gaur til að gera það á milli allra tímanna. Ég skil ekki alveg af hverju þetta er svona mikið vesen en kennarinn bað okkur erasmusana afsökunar og sagði að við værum enn á póst-sovíeskum tímum.

Ég er að bíða eftir buddýinum sem mér var úthlutað sem erasmus nemanda. Hún á að hjálpa mér ef ég lendi í vandræðum og ég bað hana um að hjálpa mér að ná í námsefnið. Allar bækurnar eru nefnilega skannaðar inn og við eigum að sækja pdf skjölin í tölvurnar uppi á bókasafninu en það er náttúrulega ómögulegt ef maður talar ekki lettnesku. Ég reyndi í gær en starði síðan bara á skjáinn tómum augum gjörsamlega buguð. Pínu spes sýstem.

bless

p.s. Sólveig og Kolbrún, ég bið ofsa vel að heilsa og vona að skólinn ykkar sé eins skemmtilegur og minn. Í gær sá ég fullt af krökkum á ykkar aldri á leiðinni í skólann á fyrsta daginn og þau voru öll með blóm til að gefa kennaranum sínum. Til þess að komast í skólann þurfa þau að taka sporvagn eða strætó því það er svo langt að fara.

sunnudagur, 2. september 2007

Menning og listir

Nú hef ég verið að hlusta á rússneska útvarpstöð sem meðleigjandinn minn valdi og hún er algjört æði. Í Lettlandi búa bæði Rússar og Lettar muniði og þeir tala ekki saman. Það eru því útvarpstöðvar, dagblöð og sjónvarpstöðvar á báðum tungumálum svo enginn verði út undan. En tónlistin sem er spiluð hér í landi er mikið til frá 9. og 10. áratug síðustu aldar. Þetta er poppmúsík oftar en ekki frá skandinavíu einhverra hluta vegna. Ég hef ekki heyrt eins mikið af Roxette lögum á jafn stuttum tíma síðan ég var í heimsókn hjá Hafdísi og Stulla í Lundi árið 1990. En Leonard Cohen og Susanne Vega slæðast þó inn á milli og þá syng ég með.

En talandi um músík þá er víst algjört möst að mæta í óperuna hér í Riga, húsið sjálft sem er kallað í daglegu tali hvíta húsið er stórfenglegt að utan sem innan. Það var byggt á árunum 1860 til 1863 og er prýtt grískum súlum (jónískum, hah þetta man ég úr kvennó) og guðum. En að innan er það víst ekki síðra. Þeir útlendingar sem ég þekki sem hafa farið eru voða ánægðir með óperuna þó svo þeir séu ekki aðdáendur klassískrar tónlistar. Ég ætla að mæta og þeir sem vilja koma með eru velkomnir.

Það er eitthvert flugukvikindi búið að finna sér samastað í herberginu mínu svo nú er ég öll útbitin og ógeðsleg. Komin með 10 bit hvorki meira né minna og þar af þrjú í andlitið. Þetta þykir mér hinn argasti dónaskapur og hef ég sagt kvikindinu stríð á hendur. Ég verð ekkert voða sæt á fyrsta skóladeginum mínum með þrjú flugnabit og frunsu.

Ég fór í apótekið til að fá mér B-vítamín til að koma í veg fyrir að vera étin lifandi en fann ekkert slíkt. Þar voru multivit og C-vítamín og allskyns megrunarpillur en ekkert B-vítamín, er það ekkert skrítið? Mér þótti það alla vega en kom samt sem áður heim með Gingko Biloba svo ég verð til í skólaslaginn von bráðar.

Á morgun verður fyrsti skóladagur hjá öllum skólum, bæði menntaskólum og háskólum svo það má búast við traffík í fyrramálið. Það verður stuð að komast í sporvagninn. Ég er líka skráð í tvo kúrsa á sama tíma á morgun og það er bannað að skrópa svo ég veit ekki alveg hvað ég á að gera. Gáfulegast væri að mæta snemma og spyrjast fyrir en þá þarf ég að vakna fyrr...ég nenni því ekkert. Sjáum hvað setur.

kveðjur

föstudagur, 31. ágúst 2007

Heima

Mér tókst að ljúka öllum verkefnunum mínum í gær sem mér finnst bara nokkuð vel að verki staðið. Regnhlífin er alveg uppáhalds, ég veit ekki hvort ég þori að nota hana hún er svo fyndin á litinn. Hún er appelsínugul með með rauðu, fjólubláu og brúnu mynstri og er rosa tæknileg. Maður ýtir á einn takka og hún skýst út svo ýtir maður aftur á takkann og þá lokast hún. Það þarf náttúrulega ekki að taka það fram að síðan regnhlífin var keypt hefur ekki rignt.

Bankakonan var ágæt alveg og meira að segja farin að brosa í lok samtalsins en vá hvað ég var hrædd við hana fyrst. Þegar maður opnar bankareikning þá þarf maður að svara allskonar skrítnum spurningum. Hvað gerirðu? hvað ertu með há laun? hversu mikið ætlar þú að leggja inn? hvað ætlarðu að taka mikið út? hversu margar færslur? Skrítnast fannst mér þó að útskýra af hverju ég þarf bankareikning! AF HVERJU? kemur þér ekki við! hahaha

En ég fór og hitti gamlan norskan karl sem meðleigjandinn minn þekkir og við drukkum öll bjór saman. Þessi gamli maður var voða ánægður með mig og sögukunnáttu mína en hann var pínu pervert. Eftir það fór ég á Skyline barinn sem er á 26. hæð og ég drakk meiri bjór. Þar hitti ég strák sem á íslenskan stjúpföður sem vinnur fyrir Eimskip, hann var hress. Ég var landi og þjóð til sóma og yfirgaf barinn síðust allra en missti þess vegna af skoðunarferðinni sem hófst klukkan 9 í morgun. Ég gríp næstu bara.

Ég er að fara í lítið eftir vinnu partý til hennar Isabel (fyrir nönnu, lærlingur í Goethe stofnun) og ég veit ekki alveg hvað ég á að gera. Á ég að koma með áfengi? er þetta svona drykkju partý? eða á ég að koma með köku? það komu allir með köku í afmælið hans Magnusar sem var fylleríis partý. Ég gæti keypt blóm en mér finnst þetta svolítið flókið allt saman, hver býður fólki í partý eftir vinnu? Ég verð að spyrja Magnus hvað honum finnst.

fimmtudagur, 30. ágúst 2007

Verkefni dagsins

já ég fer alveg að eignast líf og hætta að blogga á hverjum degi!

Þar sem skipulagt fjör er ekki alveg minn tebolli ákvað ég að skrópa í dag, það er einhver bátsferð á dagskrá en það er rigning og ég nenni ekki alveg kurteisishjali. Ég hitti þau kannski á barnum í kvöld...eða ekki. Fúll á móti? Já ég hef alltaf verið það!

Ég lofa að mæta á morgun en þá eru skoðunarferðir og ég skal vera búin að kaupa regnhlíf fjandinn hafi það. Ég fór í búð áðan til að kaupa í matinn og það var glampandi sól og blíða svo ég fór bara á bolnum. Þegar ég kom svo út úr búðinni var auðvitað komin grenjandi rigning...ég verð, verð, verð bara að kaupa regnhlíf í dag.

En ég er með nokkur verkefni til þess að leysa í dag svo að mér þarf ekki að leiðast. Eftir að ég hef keypt regnhlíf mun ég stofna bankareikning og ég er sérstaklega spennt fyrir þessu verkefni. Það er mjög misjafnt hvort fólk tali ensku hér í landi og það verður gaman að sjá hvort bankastarfsmenn búi yfir þeirri getu. Þegar ég fer í banka á Íslandi fæ ég yfirleitt spurningar sem ég get ekki svarað og mæti þá þessum íslenska bankahroka. Unglingar þurfa að eiga við þennan hroka allan daginn. Fólk fattar almennt ekki að ég er ekki 18 og sérstaklega ekki bankafólk sem er mjög skrítið þar sem það hefur kennitöluna mína fyrir framan sig. Nú er ég farin að röfla, best að hætta því.

Það verður sem sagt spennandi að sjá hvort lettneskir bankastarfsmenn fari á sama hrokanámskeiðið og þeir íslensku. Þriðja verkefnið verður að fara í bókabúðina sem ég sá um daginn sem ég held að selji útlenskar bækur. Þar ætla ég að finna einhverja stórsniðuga bók því ég gleymdi öllu slíku heima. Ég skil ekki hvernig mér tókst að vera með svona mikla yfirvigt og mér finnst ég hafa gleymt öllu. Ég ætla líka að kaupa lonely planet, enn eitt sem ég gleymdi.

Nú er komin sól aftur og buxurnar þornaðar svo nú er tími drífa sig út og takast á við verkefni dagsins.

miðvikudagur, 29. ágúst 2007

heimför flýtt

jæja ég hef komist að því að önnin mín endar 21.desember en ekki í janúar eins og ég hélt fyrst. Svo það gæti verið að ég komi heim fyrir jól. Verð að skoða þetta eitthvað nánar en ég er svo sem ekkert ósátt því þá missi ég ekki úr næstu önn fyrir norðan.

En það var farið út að borða með Erasmusum í kvöld á fínan stað sem heitir Lido þar sem bæði Rússar og Lettar koma til að borða og dansa. ofsa fínt.

Ég komst að því að Kúka er lettneska orðið yfir köku...mér þótti það fyndið!

Ég er voða þreytt og ætla ekki að þreyta ykkur með lýsingum á deginum mínum því hann var ekkert spes.

heyrumst síðar,

þriðjudagur, 28. ágúst 2007

Erasmus fólk

Í dag fór ég í skólann loksins og hitti hina erasmusana. Ég fann réttan sporvagn en mér tókst að fara út á vitlausum stað svo það var 50% árangur í verkefnum dagsins. Ég tók reyndar bara næsta sporvagn og komst þannig alla leið.

En hinir skiptinemarnir eru ofsalega ung greyin og mig langaði soldið að láta mig bara hverfa þarna í smá stund. En komst reyndar seinna að því að tveir aðrir eru á mínum aldri og þeir voru voða ánægðir að uppgötva að þeir væru ekki elstir. Ég er sem sagt elst en ekki laaaannnng elst.


Ég komst líka að því að hópefli er alþjóðlegur andskoti... mikið þykja mér þessir leikir leiðinlegir! Við þurftum að hlusta á fullt af fólki segja okkur að skólinn Riga Stradins er rosa fínn og góður skóli, hér þarf að lesa voða mikið og skrifa fullt af ritgerðum. Ég er svo sem vön því úr HA en sjáum til hvort þetta verði óyfirstíganlegt.

En eftir hópeflisfjörið og fyrirlestrana fórum við á kaffihús sem ku vera vinsæll meðal nemenda en hann er ekki svo langt frá heimili mínu. Þar er setið á púðum eins og á testofunni fínu en þar er einnig hægt að panta vatnspípu með allskyns ávaxtabragði. Litlu spænsku stelpurnar voru voða feimnar við þetta þrátt fyrir að hafa reykt sígarettur frá unga aldri sem er pínu skrítið. En kannski finnst þeim bara tilgangslaust að reykja eitthvað ávaxtadrasl með engri tjöru og engu nikótíni.

Ég þurfti ekki að ganga mjög langt heim en fékk engu að síður fylgd heim að dyrum því litháenski strákurinn lét allan hópinn fylgja mér heim. Þau þurftu að taka á sig pínu krók til þess að ég kæmist heim heil á höldnu. Ég virðist laða að mér fólk sem vill passa upp á mig...það er allt í lagi svo sem...ég hef ákveðið að vera ekkert móðguð yfir því.

Andrea, Riga er barasta mjög kúl borg spurðu bara Steina! En ég er hér bara í eina önn sem skiptinemi og fer svo aftur norður til að klára.

sæl að sinni,

mánudagur, 27. ágúst 2007

stelpuhangs

Í dag fór ég og hitti þrjár stelpur sem komu í partýið á föstudaginn og fórum við á mjög skemmtilegan te stað. Það er svona lítið hringlaga glerhús á tveimur hæðum og uppi eru dýnur og koddar og allir flatmaga þar með teið sitt á bökkum. Þarna sátum við fjórar og drukkum hver sína te-tegund umkringdar ástföngnum pörum í sleik. Það kom svo sem ekkert að sök þar sem við blöðruðum mestan tíman en ég get svarið það þegar ég leit í kringum mig roðnaði ég bara pínu. Ég var satt best að segja að því komin að biðja ,,þetta fólk'' um að fara bara eitthvert annað (ég er ekkert bitur eða neitt svoleiðis!).

En þetta var samt voða sætur og skemmtilegur staður með fullt fullt af tegundum að tei og ég var í alvöru ekkert pirruð yfir ástföngnu pörunum. Eftir teið fórum við og borðuðum þannig að þetta var heljarinnar hangs. Mjög kærkomið breik frá hangsi ein og líka bara allt öðruvísi en að hanga með strák. Það var talað um stráka, föt og svoleiðis.

Á morgun fer ég í undirbúningsvikuna í skólanum og vonandi eignast fleiri vini þar. Ég er að uppgötva að ég þarf dáldið að hafa fólk í kringum mig. Það verður líka spennandi að sjá hvernig gengur að taka tramm í skólann... skildi ég fara út á réttum stað? finn ég stöðina þar sem tramminn stoppar? kemur í ljós!

heyrumst

sunnudagur, 26. ágúst 2007

Háskaför á Moskvustræti

Ég fór ekkert á kaffihús því Magnus ákvað að sína mér rússneska hverfið. Hér í borg búa nefnilega bæði rússar og lettar. Það er töluð bæði rússneska og lettneska en þeir tala ekki mikið saman. Lettarnir eru yfirleitt betur settir en Rússarnir.

Við byrjuðum á því að fara í kirkjugarð sem var svona allur í hrúgu og hver gröf ofan í hinni. Krossarnir og legsteinarnir voru allir skakkir og þetta var allt frekar spúkí svona. Það voru rosa há tré sem skyggðu á sólina og myndir á legsteinunum sem störðu á mann.

Ég hélt að þetta væri bara smá rölt sem myndi ljúka þegar við kæmumst í gegnum þennan draugalega kirkjugarð. En svo var ekki, það þurfti nefnilega að sýna mér hættulega hverfið líka sem er víst ekkert svo hættulegt á daginn. Mér fannst leiðsögumaðurinn norski samt virðast pínu stressaður þegar við mættum strákagengjunum í íþróttagöllunum með gullkeðjurnar. Ég var alla vega skíthrædd!

Þetta hverfi er í ofsalegri niðurníðslu og við myndum ekki geyma hross í sumum af þessum hjöllum. Aðalgatan heitir Maskavas iela eða Moskvustræti. Fólkið í þessu hverfi myndi víst frekar kjósa kommunismann því það varð illa úti við breytingarnar. Það er lika ofsalega erfitt að vera á ellilífeyri og þarf fólk oft að rækta grænmeti og selja á mörkuðum til að hafa í sig og á. Hluti af rússneska hverfinu er gamalt gettó úr seinni heimstyrjöldinni svo mikil og átakanleg saga á tengist því. En gyðingar eru ekkert vinsælir hérna svo að það er ekkert verið að minnast þeirra sérstaklega.

Við sáum alveg risa stóra byggingu sem er eiginlega ekki í notkun nema smá partur af henni því lettar þola hana ekki. Hún var nefnilega gjöf frá Stalín forðum og þykir það ekki vinsælt hér í landi. Lettar eru að rífa niður fullt af byggingum í miðbænum sem minna á kommunismann og byggja aðrar súper nýtískubyggingar í staðinn. En fókusinn er samt á miðbæinn og hefur þetta rússneska hverfi ekki fengið neina athygli frá yfirvöldum. Þegar við komum úr hverfinu og i miðbæinn snarbreyttist umhverfið og alls staðar voru auglýsingaspjöld og tískuvöruverslanir og allt í einu vorum við komin í evrópu aftur.

Krisjana Barona iele

Dagurinn hefur verið ansi rólegur i dag en ég svaf líka til tvö og Magnus meðleigjandinn minn var voða hissa. Held að hann sé svona doldið akkúrat maður (enda norðmaður) sem fer snemma að sofa og vaknar snemma. hann var búinn að fara út að hlaupa og taka til þegar ég vaknaði! en hann er ágætur þrátt fyrir þennan eiginleika, hann hefur verið mjög duglegur að draga mig með þegar hann fer og gerir skemmtilega hluti. Hann er líka voða hjálpsamur og krúttlegur, prentaði út fyrir mig dagskrána í skólanum án þess að ég bæði um það og athugar allskonar hluti fyrir mig. Hann er ofsalega rólegur, ofsalega ljóshærður og bláeygður og ofsalega lágvaxinn.

áðan fórum við upp á þaksvalirnar þar sem má halda grillveislur og svo skoðuðum við gufuböðin i húsinu. Ég sé fyrir mér fínar veislur þegar allir sem ætla að heimsækja mig koma: riga sjampanietis sem er fínasta kampavín Riga og er bleikt á lit i setustofunni í baðsloppunum áður en haldið er í aðra hvora sánuna. Mér þykir þetta svona hæfilega fínt fyrir mitt fólk.

ég á samt eftir að sjá leikfimissalinn en þar eru víst hlaupabretti, hjól og svoleiðis fínerí. held að mín verði orðin fitt og fín eftir önnina.

Borgin er voða fín ég er búin að fara í nokkra leiðangra og skoða en ekkert keypt enn þá. Ég bara svona ráfa um og góni í allar áttir eins og vitleysingur. Langar voða mikið að kaupa blóm af öllum blómasölunum fínu. Það er allt fullt af ofsa fallegum blómum sem kosta sama og ekkert. Það er því mjög auðvelt að vera rosa rjómantískur í þessari borg.

Ég er að spá í að smella mér út á kaffihús og kíkja i tískublöðin sem ég keypti á flugvellinum en náði ekki að lesa því ég var of upptekin við að iðka slökunaræfingar. Það kemur sér vel núna þar sem ég hef ekki fundið búð með útlenskum blöðum.

en þangað til næst bestu kveðjur af Krisjana Barona iele 7/9

laugardagur, 25. ágúst 2007

tí hí ég gat það aftur

varð að prófa !

ég komst inn á þetta aftur ... já ég er tölvu idjót og hef aldrei bloggað áður!

það er þá komið á hreint ég mun jafnvel skrifa eitthvað um daglegt líf í lettlandi en fyrst þarf ég að fara og fá mér nýtt símanúmer og kaupa sólgleraugu

kveðja Þóra
jæja ég er að prófa þetta.
veit ekkert hvað ég er að gera, það er nefnilega allt á lettnesku í þessu blogger dóti.
kannski verður þetta eina bloggfærslan mín...

en jæja það er steikjandi hiti og sól. Ég var svo upptekin af þvi að veturinn er kaldur í riga að ég endaði hér með tvær flíspeysur, ullar nærföt og fullt fullt af peysum en engar stuttbuxur. En það sakar ekki ég fer þá bara að versla!

en jæja ég ætla að fara og fá mér nýtt símanúmer og vona að ég rati heim aftur (þetta er allt pínu ruglingslegt hérna) svo fer ég víst á einhvern skyline bar með fullt af útlendingum sem ég kynntist í gær.

ég læt heyra í mér aftur ef ég get fundið út úr þessu með lettneskuna

kveðja, Riga stelpan