fimmtudagur, 26. júní 2008

sybbelíus

Vá hvað ég er ógeðslega þreytt, ég á örugglega eftir að drekka marga lítra af kaffi í dag.

mánudagur, 23. júní 2008

montímontmont

Ég var að spjalla við Báru samnemanda minn og komst að því að ég hafi fengið verðlaun fyrir afbragðs námsárangur. Það finnst mér alveg magnað! Það voru nú ekkert margir að útskrifast úr nútímafræðinni en samt rosa flott fólk! Ég hef ekkert spáð í skólanum eða útskrift síðan ég fékk síðustu einkunnina svo þetta fór alveg framhjá mér. Ég skoðaði skólapóstinn minn eftir langa fjarveru og viti menn, þar liggja skilaboð frá skrifstofustjóra sem spyr mig hvert ég vilji fá bókarverðlaunin send.

jebb æm vei smart!

föstudagur, 20. júní 2008

Íslendingar leynast víða

Jæja fyrsti vinnudagurinn á enda runninn, líst bara ágætlega á þetta allt saman þó að betra væri að hafa tungumálið. Á vaktaskiptum hitti ég íslenska stelpu sem vinnur þarna líka og ég er ansi hrædd um að ég hafi kjaftað hana í hel eftir að hafa sagt aha og jeh í allan dag. Ég skil ágætlega en er ekkert sérstaklega góð í að spjalla á dönsku. Það kemur!

Nú þegar ég er komin á hjólið er voða auðvelt að flækjast um og nú sit ég á kaffihúsi oní bæ og sötra latte á meðan ég glápi út um gluggann. Það er alltaf jafn gaman og ég góní út í allar áttir og grandskoða fólkið hvar sem ég kem. Danir eru svo kurteisir að ef þeir halda að þeir eigi að þekkja mann þá bara brosa þeir svo ég hef uppskorið fjölmörg brosin frá ókunnugu fólki síðan ég kom. En um daginn sá ég mann út um gluggann á strætó sem mér fannst ég kannast við og núna áðan fékk ég grun minn staðfestan þegar ég hjólaði fram hjá honum. Sævar Síselskí býr í köben og ég er alltaf að rekast á hann.

fimmtudagur, 19. júní 2008

nýja íbúðin

En eins og ég sagði hér áður þá erum við búin að fá dótið okkar og íbúðin að verða heimilislegri með hverjum deginum. Ég geri ekki annað en að taka myndir af íbúðinni og meistarakokkinum, fyrsta máltíðin, fyrsta skipti að horfa á sjónvarpið í sófanum, fyrsta máltíðin eftir að við fengum dótið okkar, fyrsta skipti á klóinu og þar fram eftir götunum.





Nú þurfum við ekki lengur að húka á dýnu inn í herbergi heldur höfum við bæði stofu og skrifstofu:


Það má alveg koma fyrir fleiri húsgögnum en þetta dugir í bili og erum við hæstánægð með það sem komið er. Það mun svo bara bætast hægt og rólega við þegar fjárhagur leyfir.

dýragarðurinn

Fórum í dýragarðinn í gær og sáum fullt af sætum apaköttum og fílum.



mér finnst eins og hann sé að brosa út í annað þessi tíhí
og svo var líka rosa sætur ungi.

mánudagur, 16. júní 2008

Af flutningum

mmmmm sit í eldhúsinu og sötra kaffi úr Bodum pressukönnunni sem ég gaf mömmu eftir einhverja danmerkurferðina. Kannan er semsagt komin heim aftur og verður á valmúgaveginum eitthvað áfram. Við fengum dótið okkar á brettinu loksins í dagn og nú bíður okkar verkefnið að púsla leirtauinu í skápana. En við byrjum á byrjuninni: alvöru kaffi!

Flutningar gengu vel og sófinn fíni flaug upp morðtröppurnar og kommóðan sömuleiðis. Það verður eins og hjá fólki hérna bráðum.

þriðjudagur, 10. júní 2008

Skatturinn, Skadestuen og Tivolí

Það er loksins farið að kólna! Það rigndi meira að segja smá í morgun. Ég er alls enginn sólardýrkandi, því hef ég svo sannarlega komist að síðustu vikur. Hitinn hefur farið stigvaxandi undanfarna viku og náði hámarki á sunnudaginn, Sjitt hvað það var heitt!! (afsakið orðbragðið). Ég er skaðbrunnin á öxlum og baki, mér tekst þetta alltaf þó ég noti sólarvörn puh!

Ég er búin að fá tvö dönsk símtöl í dag, geri aðrir betur. Hann Rasmus nýji yfirmaðurinn minn hringdi klukkan 9 (danska í morgunsárið svíkur engan) til að segja mér hvenær ég byrja og svona. Hann er greinilega vanur að tala við útlendinga og þau öll sem töluðu við mig í viðtalinu því ég skil allt sem þau segja. Hann Erik hjá skatta-eitthvað hringdi líka og hann skildi ég bara alls ekki! gvuðð hvað þetta var fyndið símtal. Fyrst hélt ég að hann væri að bjóða mér vinnu, svo hélt ég að hann ætlaði að senda mér skattkort en svo komumst við að þeirri niðurstöðu að ég myndi bara hringja þegar ég vissi meira um þessa vinnu sem ég er búin að fá. Hann vildi fá einhverja prósentu og dagsetningu, svona eftir á að hyggja get ég alveg ímyndað mér að hann hafi viljað vita hvenær ég ætlaði að byrja og hversu stórt starfshlutfall mitt yrði en það bara gerðist allt svo hratt. Við vorum bæði farin að flissa í lok símtals.

Helgin var fín, foreldrar kokksins komu með frænkur til að versla og fara í tívolí. Það er ekki hægt að segja annað en að markmiðin hafi verið uppfyllt með sóma. Ég missti af verslunaræðinu sem greip stelpurnar í HM þar sem ég beið á skadestuen eftir að fá pensilín. Náði mér í smá sýkingu í fótinn, panikkaði og hljóp á slysó (ég meina það var komin rauð lína þvert yfir ristina á mér og eins og allir vita er það merki um yfirvofandi dauða). En við hittum þau öll í tívolíinu á laugardaginn og þar voru tækin prófuð hvert á fætur öðru. Stelpan sem þetta ritar lét að sjálfsögðu ekkert stöðva sig í að prófa öll hættulegustu tækin frekar en venjulega (iiiii glætan!).

Djöfull hafa tækin stækkað síðan ég var þarna síðast maður! Ég sá töfrateppið gamla sem amma fór í á meðan ég geymdi veskið hennar hérna í denn. Það leit út eins og smábarna-tæki við hliðina á þessum hrikalega fallturni, rússíbana og himnaskipi (sem eru bara rólur sem hífðar eru upp í hæð sem ekki er ætluð mannfólki og svo danglar fólk þarna í heillangan tíma og snýst í hringi). Síðast þegar ég fór í Tívolí var það með Hafdísi, Stulla og Ömmu Kollu (og einhverjum fleirum ég man ekki hverjum) og ég lýg því ekki Amma fór í fleiri tæki en ég. Þá lét ég klessubílana og parísarhjólið nægja, þá uppgötvaði ég líka lofthræðslu mína svo núna lét ég tækin bara alveg eiga sig. Meistarakokksmóðir fór í litla rússibanann og ráðlagði mér að vera bara ekkert að þessu, ég tók þeim ráðlagningum enda hlýðin stelpa.

fimmtudagur, 5. júní 2008

Vinna Vinna

Jæja, vinnan sem ég sagði frá í gær er í höfn. Ég greinilega sjarmaði liðið upp úr skónum. Ég tók bara vinnuna, hef ekki alveg kjark í að segja nei og enda þá kannski bara atvinnulaus. Ef þetta verður leiðinlegt þá bara fer ég að leita að einhverju öðru.

Í dag ætla ég að smella mér til Lundar þar sem Robert rigafari býr. Það verður stuð! Kannski rifjast upp fyrir mér vikurnar hjá Hafdísi og Stulla 1991, best að fara dánlóda roxette og setja á æpoddinn. Þá kemst ég örugglega í fíling.

miðvikudagur, 4. júní 2008

dókúmentasjón

baðið fína, það þarf samt að halda á sturtuhausnum þegar maður baðar sig og helst að sitja því annars sullast vatn út um allt. En það lúkkar vel!

eldhúsið fína og eldavélin, það virkar bara önnur hellan en það er allt í lagi við eigum bara eina pönnu og engan pott.

Fyrsta kvöldmáltíðin, borðbúnaður er á bretti á leiðinni yfir hafið svo við notumst við viðhaldsfrítt leirtau á meðan. Kertið alveg gerði máltíðina!

Til hvers að deita meistarakokk ef hann getur ekki eldað oní mann endrum og eins?

En hann er til fleiri hluta nýtur, strákurinn! Hér er hann að stilla spánýja sjónbartið okkar og ég dókumentera, það þarf einhver að vera í því (hér má sjá ef vel er rýnt skaða sólarinnar á nefi húsfreyju)

Annars eigum við tvær auka dýnur og sófinn kemur á brettinu svo það er hægt að hýsa hér með góðu móti þrjá gesti og jafnvel fleiri ef viljinn er fyrir hendi. Um að gera að panta og mæta svo bara.

fréttir af amager




Jæja þá erum við flutt inn og voða ánægð með þetta allt saman. Íbúðin er björt og falleg en helvítis stiginn er doldið pein. Við verðum komin með rasskinnar úr stáli áður en líður á löngu.

Dótið okkar er á leiðinni og það verður fjör að koma því þarna upp.

Þegar inn er komið blasir þó við bjart og skandinavískt himnaríki. Með tveimur rúmgóðum herbergjum, sætu eldhúsi og rúmgóðu baðherbergi með baðkari og alles (það er víst sjaldséð sjón hér í köben).

Ég fór í atvinnuviðtal í morgun og fór það fram á dönsku. shííís hvað maður er orðinn fær! Ég fæ að heyra seinna í dag hvernig fer en ég er beggja blands sjálf. Veit ekki hvort ég nenni meira sambýli en þetta virkaði allt voða faglegt og fínt.