miðvikudagur, 31. október 2007

Haustið búið?

Litháenski strákurinn hélt fyrirlestur í kúrsinum saga og stjórnmál Eystrasaltsríkjanna. Þessi fyrirlestur var voða fínn og fjallaði hann um fall Sovíetríkjanna og upprisu Eystrasaltsríkjanna, aðallega Litháens. Þessi þrjú ríki vilja voða lítið með hvort annað hafa og er samvinna þeirra miklu minni en maður hefði haldið. En í baráttunni fyrir sjálfstæði unnu þau saman og börðust friðsamlega, það var kallað the Baltic way eða leið Eystrasaltsríkjanna. Eftir fyrirlesturinn sýndi hann stutt myndband sem var tekið upp þegar íbúar landanna þriggja tóku sig saman og mynduðu röð þvert yfir öll löndin. Fólk hélst hönd í hönd á þjóðveginum frá Vilnius til Tallinn , þetta var einstaklega fallegt og táknrænt. Sérstaklega ef maður hefur í huga að samskipti þessara ríkja hafa verið stirð. Tvær milljónir manna héldust hönd í hönd í 600 kílómetra langri röð 23. ágúst 1989. Þessi dagur markaði 50 afmæli molotov-ribbentrop samningsins milli þjóðverja og rússa sem leiddi til yfirráða Sovétríkjanna í þessum löndum. Þetta gátu Eystrasaltsmenn sameinast um og ég heyrði fljótlega eftir að ég kom hingað að það eina sem þeir eru sammála um í dag er að samkynhneigð er viðbjóður og gyðingar líka. Allt annað rífast þeir um.

Nú sit ég inni á kaffihúsi að stikna úr hita í skammdegissólinni, hún skín eins og lög gera ráð fyrir beint í andlitið á mér og ég sé varla á skjáinn. Þetta er eitthvað sem ég þarf ekki að sakna að heiman, en það er samt alltaf sól þegar ég vakna. En talandi um haustið þá eru bæjarstarfsmenn hér fyrir utan að saga greinarnar af trjánum. Laufin eru að miklu leiti fallin en þessir gaurar eru að bæta um betur og saga bara allt heila klabbið af. Svo eftir verða bara svartir drumbar með greinastubba út í loftið, mjög í anda draugamynda. Skil samt ekkert af hverju þetta er gert.

Í kvöld er mér boðið í hrekkjavökumatarboð þar verður boðið upp á graskerspasta og graskersböku í eftirrétt. Ég hlakka mikið til að smakka herlegheitin en ég hjálpaði aðeins við undirbúninginn í gær og lítur þetta voða vel út. Alltaf þegar kemur að heimilisstörfum hér í Riga man ég að ég er elst í hópnum. Það er eins og stelpurnar hafi aldrei eldað áður á ævi sinni og hringdu þær í mæður sínar milli landa til að spyrja ýmissa spurninga. Ég gat leiðbeint þeim aðeins þó að ég hafi ekki viljað skipta mér of mikið af og þá létu þær eins og ég væri matreiðslusnillingur. Ég ákvað að skera til dæmis graskerið og kartöflurnar smátt svo það yrði fljótlegra að sjóða og það var eins og ég hefði gefið þeim uppskriftina að gulli. Fleiri svona yndisleg atvik áttu sér stað í gær en þrátt fyrir reynsluleysið þá tókst þeim bara ágætlega upp og hlakka ég til að borða í kvöld. Það verður einnig keppni í að skera út í grasker...ég ætla að vinna.

sunnudagur, 28. október 2007

Heimsókn

Þá er helgin að líða og Sólveig á leiðinni heim. Við skemmtum okkur konunglega eins og við var að búast. Við fórum þó ekki í spa...það varð að víkja fyrir bjórdrykkju. Heimsóknin byrjaði ekki vel reyndar því þegar við komum út úr strætónum sem keyrði okkur frá flugvellinum gengum við fram á dáinn mann. Það var fólk þarna hjá svo við bara gengum fram hjá en þetta var rosa óhuggulegt. Ég get ekki sagt til um hvað hafði komið fyrir en mér sýndist hann vera róni. Þetta er náttúrulega ekki eitthvað sem maður sér á hverjum degi hérna og ekki alveg draumabyrjun á ferðinni hennar sólveigar.

En við fórum beint á Pizzastaðinn hinum megin við götuna sem er líka sushistaður. Finnst það svo ótrúlega póst-módernískt og fyndið. En heimsóknin hennar Sólveigar einkenndist af fyndnum veitingastöðum. Við fórum á írska staðinn í morgunmat fyrsta morguninn og fengum fyndnasta morgunmat í heimi, þar voru teknar myndir. Á indverska staðnum var maturinn skrítinn á litinn en bragðaðist ágætlega.

Við fórum líka á markaðinn og þar lenti ég á sjéns. Það var mjög fyndið líka. Sólveig var að kaupa eitthvað (einhvern ávöxt, hún er voða mikið í því núna) en ég rétti gaurnum peninginn og fékk afganginn með rosa fyndnum tilþrifum. Hann var búinn að vera tiltölulega eðlilegur fram að þessu en svo rétti hann mér klinkið rosa hægt og kom við höndina á mér. Við gengum í burtu og ég var enn með pínu hroll af þessum viðreynslutilburðum þá kallar hann á eftir mér ah bjúúdíífúll görrrl með rosalega rúshky hreim. Svo brosti hann tannlausu brosi og við hlupum flissandi í burtu.

Ég afrekaði að fara loksins inn í rússnesku rétttrúnaðarkirkjuna sem ég geng framhjá annan hvern dag. Fínt að nota gestina til að gera eitthvað sem maður ætlar alltaf að gera en gerir svo ekki. En það var líka svolítil upplifun að fara þangað inn, rosalega íburðarmikil kirkja með íkonum og öll sett gulli. Það eru engir bekkir heldur kemur fólk bara og stendur á meðan presturinn sönglar. Virðist ekki vera neinar eiginlegar messur heldur bara svona drop in. Eftir smá söngl byrjar presturinn að svefla reykelsi af miklu offorsi, þetta var svona rjúkandi gullkúla í keðju. Þetta gerir hann á meðan hann gengur um alla kirkjuna og fólk beygði sig og signdi þegar hann nálgaðist. En þá urðum við náttúrulega pínu skelkaðar og upplifuðum okkur svolítið sem óboðna gesti þar sem við kunnum ekkert þessa signingu. Þannig við læddumst með veggjum og með mikilli útsjónarsemi forðuðum okkur frá blessun.

Við náðum líka að versla smá og þurfti Sólveig að setjast á töskuna sína til að loka henni í morgun. En svo röltum við í strætóinn aftur og heimsóknin á enda. Við sáum engan dáinn mann á leiðinni til baka, það var gott.

mánudagur, 22. október 2007

Are you british?

jæja þá er ég loksins búin að ræða við fólkið á þessu dagblaði sem ég fæ að skrifa fyrir. Við eigum að finna eitthvað tengt okkar landi og lettlandi helst viðskiptatengt. Veit ekki alveg með það svo sem. En ég má líka skrifa túristagrein fyrir ríka Letta og ætli það endi ekki bara með því.

Ég er búin að hitta kennarann minn hann Markus og það var rosa fínt. Við spjölluðum yfir kaffibolla og hann sýndi mér uppáhaldsgormei búðina sína. Hreimurinn hans er bara æðislegur. En ég hitti hann aftur uppí skóla alveg óvænt en þá var ég með þýska bekkjarbróður mínum honum Tobias. Ég var búin að spjalla við Markus í smástund þegar Tobias spurði hann hvort hann væri breskur. Ég dó næstum úr hlátri en náði að halda aftur af mér. Tobiasi fannst hann tala svo fína ensku með svo góðum hreim, jeminn mér fannst þetta svo fyndið. Þeir tala næstum alveg eins og að hlusta á þessar samræður var bara skemmtilegast í heimi. Markus er ofsa hress og skemmtilegur og ætlar hann að bjóða mér í mat eftir að hann kemur frá Þýskalandi.

En nú er ég að fá heimsókn á miðvikudaginn. Sólveig ætlar að heimsækja mig en eins og kom fram í kommentari hér framar þá verður Nanna fjarri góðu gamni vegna veikinda. Rosa leiðinlegt en svona gerist víst og við höfum hana bara með í anda. Veit ekkert hvað verður gert en það verður eitthvað brjálað. Versla, drekka bjór, borða góðan mat, versla og drekka bjór býst ég fastlega við. Ó já og kannski spa! Þetta verður stuð og ég get ekki beðið þó að eftirvæntingin litist óneitanlega af pínu svekkelsi þar sem Nanna kemur ekki. En Nanna mín ef þú ert að lesa þá vona ég bara að þér batni sem fyrst og við gerum bara eitthvað skemmtó seinna.

Ég sit á kaffihúsi og á að vera að læra, fór nefnilega út til að fá frið til að skrifa ritgerð. Ég er með svo mikla frestunaráráttu að ég get ekki stöðvað mig í að skrifa nokkur orð hér fyrst og blaðra aðeins á msn áður en ég byrja. Veit ekki alveg hvar þetta endar, hef svei mér þá aldrei verið eins löt. Útum gluggann sé ég iðandi mannlífið; inni í búðinni á móti eru afgreiðsludömur að æfa salsasveiflurnar sínar, drengur með risa stóran tölustafinn fjóra í fanginu hefur gengið framhjá tvisvar og hefðbundin umferðarteppa á annatíma. Mér er bara farið að líka vel við þessa borg.

þriðjudagur, 16. október 2007

leifar af sovíet

Er búin að vera á röltinu í næstum allan dag. Veðrið er svo indælt og fínt að ég bara gat ekki hugsað mér að fara inn. Ég rölti alltaf bara í gamla bænum þar sem fallegu húsin eru, skítt með að hann sé fullur af túristum. Kíki alltaf í búðir og heimsæki flíkurnar sem mig langar svo að kaupa en eru of dýrar. Langar svo í nýja skó en þeir eru strigaskór og kosta 13.000 krónur, já það er alveg hægt að finna dýra og fallega hluti hérna þó að ódýra ljóta dótið sé yfirgnæfandi.

Í gær heimsótti ég bókasafnið hér á horninu í fyrsta sinn. Þetta er aðalbókasafnið og bjóst ég við að geta hangið þar og kíkt í einhverjar skræður. Ég veit ekki hvað það á eftir að taka mig langan tíma að læra að hér er ekkert eins þægilegt og það gæti verið. Þegar ég kom inn á safnið gekk ég í gegnum einskonar skrifstofu og leit til beggja hliða en sá engar bækur svo ég gekk áfram. Eftir nokkrar sekúndur var kominn vörður á eftir mér og spurði hann mig hvað ég væri að gera. Ég sagði eins og var að ég væri komin til að kíkja á nokkrar bækur. Hann benti mér þá á að tala við konu sem sat við skrifborð en hún vildi ekkert við mig tala og benti mér á aðra konu. Sú kona spurði mig hvaða bækur ég vildi skoða. Ég vissi það ekkert því ég ætlaði bara að litast um í sögudeildinni og kannski félagsfræðideildinni. Nei það var ekki svo auðvelt. Ég þurfti að setjast niður við tölvu og leita að bókum þar og ef ég finn einhverja þá verð ég að skrifa titil og höfund niður á þar til gerðan snepil og rétta konunni. Hún myndi þá finna bókina fyrir mig og ég fengi líkast til að setjast einhvers staðar og lesa hana. Það er líka bannað að koma með töskur og yfirhafnir inn á bókasafnið og er kona niðri í bás sem geymir það fyrir mann. Ég á voðalega erfitt með svona kerfi en settist nú samt við tölvuna og reyndi að finna eitthvað en það var bara hægt að leita að titlum en ekki efni. Þessu verð ég að venjast líklega eins og öðru, bara eitt af mörgum póst-sovíetskum einkennum borgarinnar.

Í gær fór ég í bíó og sá Foreldra loksins. Ég fór ein og var það í fyrsta sinn sem ég geri það. Það var ótrúlega fínt og myndin var æðislega fín, ég veit ekki hvort það er vegna þess að ég var að horfa á íslenska mynd eða hvað. En ég skemmti mér mjög vel. Seinna um kvöldið fór ég á aðra mynd en hún var norsk og alls ekkert síðri.

Ég hafði loksins samband við kennara sem kenndi fyrir norðan en er fluttur til Riga og var hann voða ánægður að heyra í mér. Ég var nefnilega að biðja um hjálp við að finna efni fyrir skólann þar sem bókasafnskerfið er ekki alveg að vinna með mér eða öðrum útlendingum. Hann ætlar að bjóða mér í mat karlinn og væntanlega getur hjálpað mér þar sem hann er sagnfræðingur og ætti að vita ýmislegt um sögu eystrasaltsríkjanna. Hann er samt örugglega fyndasti kennari sem ég hef nokkurn tíma hitt, hann er þýskur og talar með rosalega miklum hreim. Ég hef ofsalega gaman að honum og hlakka mikið til að hitta hann og fjölskylduna hans. Hann heldur eins og margir aðrir kennarar á Akureyri að ég sé iðnasti nemandi í heimi svo ég verð aðeins að halda uppi ímyndinni. Það verður lítið mál!

sunnudagur, 14. október 2007

Ísland - Lettland 2-4

Ég virðist alltaf vera að plata hér á þessu bloggi. Alltaf að segjast vera að fara gera eitthvað en svo verður mér aldrei neitt úr verki einhvern veginn. Við fórum semsagt ekki á Gus Gus tónleikana. Mér er svo sem alveg sama þar sem ég er ekkert mikil Gus Gus manneskja og enn með smá ógeð eftir tónleikana sem við fórum á fyrir nokkrum árum í Perlunni. Það er rosalega langt síðan og ekki sama fólkið í bandinu en þetta voru bara svo spes tónleikar.

Danirnir buðu okkur meðleigjandanum heim að horfa á Ísland - Lettland. Það var fínt að fara í heimsókn og meira að segja pínu stuð að sjá Laugardalsvöllinn. Ég fékk svona "ahhh heima" tilfinningu og kannaðist meira að segja við einn af áhorfendunum. Það þótti þeim fyndið. Rasmus spurði mig upp úr þurru hvort það væru kýr á Íslandi, ég var viss um að ég væri að misskilja eitthvað en nei nei honum fannst alveg líklegt að við ræktuðum ekki kýr. Hann hafði nefnilega lesið að það væru engar kýr á Grænlandi því þeir hafa ekki græn svæði til að geyma þær. Í hans huga erum við dáldið eins og Grænland og Færeyjar, það pirrar mig pínu en ekkert mikið.

Það er norræn kvikmyndahátíð í gangi hér núna og ætlum við að reyna að kíkja á nokkrar. Ég missti af Foreldrum sem var sýnd á frumsýningarkvöldið og frétti seinna að einn leikaranna var þar og sat fyrir svörum eftir sýningu. Það hefði verið áhugavert en ég sé hana bara seinna í vikunni. Við vorum nefnilega að kveðja hana Isabel sem er nú að flytja til Tallinn og ætlar að vera lærlingur í Goethe-stöfnuninni þar. Við ætlum að heimsækja hana í vetur svo þetta var ekki endanleg kveðja. Ég hef nú tekið við þeim vafasama heiðri að vera aldursforsetinn í hópnum og veit ég ekki alveg hvað mér finnst um það. Hún Isabel er nefnilega tveimur mánuðum eldri en ég og þótti mér það bara fínt.

þriðjudagur, 9. október 2007

Haustið komið í Riga

Hér rignir enn og inn á milli má greina haglél. Mér var svo kalt í morgun að ég setti upp vettlinga sem hafa ekki verið notaðir síðan á Akureyri. En talandi um þann ágæta bæ þá hitti ég nokkra Akureyringa um helgina sem komu í skemmtiferð beint frá Akureyrarflugvelli. Fyndið hvað það er auðvelt að þekkja Íslendinga alltaf, ég var búin að glápa á þau í smá stund fyrir framan lyftuna upp á 26. hæð á fínasta hótelinu hér í bæ þegar ég heyrði að þau voru íslensk. Þau þekktu auðvitað hana Herdísi mína sem við var að búast þar sem hún virðist þekkja alla fyrir norðan.

Helgin var æðisleg þrátt fyrir að plönin hafi farið fyrir lítið. Við fórum ekki til Sigulda á bobsleða, ekki í dýragarðinn og occupational safninu var lokað áður en við náðum að finna bréfið hans Jóns Baldvins. Við náðum ekki einu sinni markaðnum áður en honum var lokað. Þetta var letilíf og líkaði okkur vel. Gesturinn minn kom víst til að hitta mig en ekki Riga sem er náttúrulega mjög skiljanlegt...ekki satt?

Í kvöld var ákveðið að storma á Gus Gus tónleika sem verða haldnir næstu helgi og vona ég bara að þau standi undir nafni. Á spjallvefum hér í borg eru fjöllistahópurinn lofaður í hástert og mætti halda að um konunga elektróniskrar tónlistar væri að ræða. Vinir mínir þekkja bandið ekkert fyrir utan Hauke en eru samt sem áður rosa spennt.

Félagslífið er soldið að trufla námið en ég hef ákveðið að snúa við blaðinu og fara að taka þetta föstum tökum. Kúrsarnir eru ekki alveg það sem ég hefði valið heima en ágætir samt sem áður. Ég er orðin dálítið leið á því að vera alltaf úti að aka og skila lélegum ritgerðum jafnvel degi of seint. Á bara svolítið erfitt með að finna mótívasjón þar sem ég er í frekar fáum og auðveldum kúrsum. Ritgerðirnar eru skrifaðar á handahlaupum en ég er samt að fá fínustu einkunnir fyrir þær. Fólk er að fá 3 og 4 svo það virðist ekkert sjálfgefið að fá góðar einkunnir (ég kíkti á nokkrar þegar ég var að leita að mínum í dag). En það er leiðinlegt að lulla hugsunarlaust í gegnum þetta svo ég ætla núna að verða fyrirmyndarnemandi á ný, mér tókst það fyrir norðan svo ég hlýt að geta það hér líka.

Í dag keypti ég eriku í eldhúsið svo nú er orðið örlítið heimilislegra um að litast. Ég held að ég muni reyna að finna fleiri plöntur og jafnvel plaköt eða myndir á veggina til að gera íbúðina aðeins Þórulegri. Hún er svolítið eins og skandinavískt farfuglaheimili núna. En ég verð að taka myndir af ljósakrónunum bráðum og sýna ykkur því þær eru svo fyndnar, engin eins og hver annarri ljótari.

bless

fimmtudagur, 4. október 2007

Heimsóknir

Nú var meðleigjandinn að bjóða mér að koma með sér til Ogre að halda ræðu um íslensku. Hann ætlar að tala um norsku og spurði mig hvort ég hefði áhuga á að tala líka. Þetta er náttúrulega bara gott tækifæri fyrir mig að æfa mig í að blaðra fyrir framan fólk svo ég bara sló til. En nú er ég enginn sérfræðingur í íslenskri tungu svo ég verð bara að bulla, ekki satt? Þetta kemur allt í ljós síðar, fyrirlesturinn er ekki fyrr en seinni part nóvember.

Það hefur rignt alveg ógurlega síðustu daga og er ekki annað hægt en að vorkenna foreldrum meðleigjandans þar sem þau hafa ekki fengið gott veður. Þau fara á morgun, Ofsalega indælt fólk sem hefur boðið mér með í ferðir og út að borða...Magnus gerir þetta líka; býður mér alltaf með hvert sem hann fer. Voða næs. Hint, hint foreldrar þegar þið komið, haha.

En talandi um heimsóknir þá er ég líka að taka á móti gestum (gesti öllu heldur) yfir helgina svo að ég mun líklega ekkert láta í mér heyra fyrr en á þriðjudag. Ég veit að ég á eftir að skemmta mér konunglega á meðan og vona að þið gerið það sömuleiðis. Förum til Sigulda sem er bær í klukkutíma fjarlægð en þar er opinber pólisía að halda öllu náttúrulegu og stuðla að útivist í fallegu umhverfi. Þar er líka hægt að fara í bobsleða en ég efast stórlega um að ég muni gera það, læt ferðafélagann um slíkt glæfraspil!

Erasmus fólkið er að fara til Sigulda á laugardag sem þýðir að við munum fara á sunnudag. Ég er ofsalegur félagsskítur en líkar það bara ágætlega.

Er að spá í að fara í dýragarðinn líka og jafnvel occupational safnið (get ekki fyrir mitt litla líf munað hvað occupation er á íslensku, herseta? finnst eins og sovíet hafi nú verið eitthvað meira og annað en bara herseta) En þar ku vera bréf frá honum Jóni Baldvini frekar en Dabba konungi til Eystrasaltsríkjanna. Erasmusarnir sem hafa farið tala alltaf um bréf frá Bush eldri en mér þykir nú ekkert til þess koma ef hægt er að finna okkar bréf í staðinn. Það hlýtur nú bara að þykja merkilegra, ekki satt?

jæja farin að röfla og þá er best að hætta bara,

heyrumst eftir helgi

miðvikudagur, 3. október 2007

Ferðalög og myndir

Um síðustu helgi fór ég ásamt nokkrum öðrum til Cesis (lesist tjesis). Það er indælis smábær sem er gullfallegur í haustlitunum. Við skoðuðum þar kastala og fleira skemmtilegt. Ég lærði fullt af sögustaðreyndum í þessari ferð en er að sjálfsögðu búin að gleyma þeim öllum núna.

Kóramenningin hér í landi er mikil og er það skylda í flestum grunnskólum að ganga í skólakórinn. Við sáum einn slíkan í Cesis sem var skipaður af krökkum sem virtust ekki eldri en 15 eða 16. Þeim virtist líka ofsalega vel að syngja og hljómuðu mjög fullorðinslega (þetta hljómaði ekkert eins og hólabrekkuskólakórinn sem ég fékk ekki aðgang að sökum lagleysis).

En í gær fór ég ásamt meðleigjandanum og foreldrum hans til Litháen en þar skoðuðum við hæð krossanna. Þar eru skrilljón krossar þar sem fólk getur sett niður til minningar um nákomna. Æðislega fallegur staður og gaman að koma þangað. Ég man að ég sá myndir frá þessari hæð og las um hana fyrir örugglega 10 til 15 árum og ákvað ég þá að þangað þyrfti ég að koma. Ég var því ótrúlega ánægð þegar ég heyrði af þessari ferð.

Krossinn er auðvitað trúartákn hér en hefur einnig fleiri tilvísanir. Ég sá í heimildamynd um daginn að hann er einnig tákn fyrir baráttu hér í Eystrasaltsríkjunum. Þegar Rússar réðu hér lögum og lofum á tímum sovíetríkjanna tóku þeir krossana oft og mörgum sinnum niður en Litháar reistu þá upp jafn óðum þangað til að þeir fengu að vera.

Ég tók út texta sem var ekki mjög sanngjarn gagnvart fólki sem mér þykir orðið ansi vænt um svo að kommentin sem komið hafa eru dáldið út úr kú ef þið hafið ekki séð það sem hér áður stóð.

góðar stundir

p.s. setti myndir af ferðalögum mínum inná myndasíðuna