miðvikudagur, 30. apríl 2008

111 represents

Vissuð þið að í Breiðholti búa 20.942 manns og þar af 2010 með erlent ríkisfang?

Vissuð þið að í Austurbæ búa 19.161 manns og þar af 2457 með erlent ríkisfang?

Vissuð þið að í Vesturbæ búa 16.156 manns og þar af 1520 með erlent ríkisfang?

hlutfallið er þá í Breiðholti 9,6% íbúa með erlent ríkisfang
12,8% íbúa í Austurbæ eru með erlent ríkisfang og 9,4% íbúa í Vesturbæ hafa erlent ríkisfang*.

Af hverju er mesta innflytjendavandamálið þá í Breiðholtinu?

er gettóstelpan ég bara eitthvað viðkvæm?

*allar tölfræðiupplýsingar eru fengnar af vef Hagstofunnar: hagstofan.is

þriðjudagur, 29. apríl 2008

Æ heit tú sei Æ tóld jú só!

Jæja gott fólk það er loksins komið að því, ég hef beðið eftir þessu í nokkurn tíma þó ekki með eftirvæntingu.

Æ am góing nöts! eins og maður segir á vondri íslensku.

Ég er alltaf að standa mig að því að vera segja sömu hlutina aftur og aftur, ekki bara sömu atvikin en ég jafnvel gef sömu ráðleggingar með nákvæmlega sama orðalagi. Ég hef blaðrað soldið á msn og hef tekið upp á því að segja sömu hluti aftur og aftur. Einhvern tíma röflaði ég í Líffræðingnum um það að hún ætti nú ekki að hafa áhyggjur þó að hlutir væru að gerast hratt. ,,Það er alltaf hægt að flytja aftur heim" er setning sem hún hefur fengið að heyra ansi oft undanfarnar vikur, Heimspekingurinn fær að heyra af æsispennandi iðju minni sem felst í því að kíkja hérna inn á nokkurra tíma fresti til að skoða teljarann hér neðst á síðunni.

En það sem gjörsamlega fór með það er þegar það tók mig 30 mínútur sirka að standa upp og ná í gleraugun mín í töskuna. Ég stóð upp svona fimm sinnum áður en ég mundi af hverju ég stóð upp til að byrja með. Hellti upp á kaffi, vaskaði upp og sitthvað fleira þegar ég mundi loksins að ég væri með höfuðverk af því ég var að lesa af skjánum gleraugnalaus.

Amma Gústa leitaði alltaf að gleraugunum sínum á 10 mínútna fresti en var yfirleitt með þau um hálsinn. Ég er farin að leita að símanum mínum í hvert sinn sem ég kem eitthvert í heimsókn. Amma var með Altzheimer...ég hinsvegar em góing nöts!

Það er byrjað að snjóa á Akureyri aftur...hvað sagði ég?

laugardagur, 26. apríl 2008

röfl

Ég horfi iðulega á sjónvarpið þegar ég er að læra og finnst ég bara oft koma meira í verk ef kveikt er á því. En það er háð því að ég sé að vinna verkefni eða skrifa ritgerð því ég get svo sem ekki lesið ef það er mikið að gerast í kringum mig. En sjónvarpið er næstum því nauðsynlegt til þess að ég geti setið kyrr og skrifað. Það þýðir þó það að ég veit ekkert alveg hvað er að gerast í sjónvarpinu og fylgist með söguþræðinum með öðru auganu. Ef ekki er kveikt á sjónvarpinu fer ég að góna út í loftið og tapa mér gjörsamlega í einhverjum dagdraumum.

Ég þekki samt fólk sem ég ímynda mér að gætu þetta alls ekki. Meistarakokkurinn gæti þetta líklegast ekki og leikhúsfræðingurinn ætti mjög bágt með þetta líka. Þau eru svona fólk sem dettur inn í sjónvarpið þegar þau horfa. Þau gleyma gjörsamlega stað og stund og bara gleypa í sig fróðleikinn úr heimildamyndunum eða söguþráðinn í kvikmyndunum. Ég öfunda þau pínu af þessum hæfileika til þess að einbeita sér að einu í einu. Ég held svei mér þá að mér hafi bara aldrei tekist að einbeita mér svona að einu verkefni í einu. Þetta er mjög eftirsóknarverður eiginleiki og myndi nýtast mér ofsalega vel þessa dagana.

Veit ekki alveg af hverju ég ákvað að fjalla um þetta hér og nú en ætli ég sé ekki bara að segja ykkur að ég nenni ekki að skrifa ritgerðina mína.

þriðjudagur, 22. apríl 2008

koddu og kysstu mig eskan... já þú sleppur ekki

Jæja þá er að komast einhver mynd á BA ritgerðina, hún verður dálítið öðruvísi en upphaflega var ætlað. Mikil teoría og lítið af viðtölum, ég er pínu fúl en jafna mig fjótt þar sem sumarið er að koma. Það verður líka djöfull gott að klára þetta og komast til úglanda til að hitta meistarakokkinn minn eftir langa bið.

Ég ætla að vera svo dugleg að kaupa mér eitthvað fallegt í landi þar sem hægt er að kaupa skó án þess að fara á hausinn. Ég er búin að vera að reyna smita svilkonuna á þessu kaupæði sem er að grípa mig eins og svo oft áður á vorin. Ég veit þið trúið mér ekki en ég er bara orðin doldil sjoppaholikk eftir Rigadvölina. Mig vantar sumarskó og sundföt, ætli ég byrji ekki á því.

Hafið þið horft á barnaefni gott fólk? jeminn hvað það er leiðinlegt! Var þetta svona hrikalega leiðinlegt þegar ég var lítil? ha? Brakúla greifi, strumparnir og folinn minn litli? var það virkilega svona grautfúlt sjónvarpsefni eins og ég hef verið að horfa á undanfarna daga rétt fyrir fréttir? Það er ein svona japanskt dót og um daginn var lítil stelpa að berjast við einhverja hlaupabólu sem hægt var að hræða í burt með fjöður af útdauðum fugli. Einhverra hluta vegna hoppaði hlaupabólan ekki á hana heldur bara ALLA aðra í þorpinu og þar á meðal strákinn sem stelpan er svo ofsalega skotin í. Hún fer út um allar trissur til að finna lausnina og tekst það á endanum, læknar strákinn og getur þá farið að kyssa hann bak og fyrir honum til mikillar armæðu... HONUM TIL MIKILLAR ARMÆÐU!!!! Auðvitað er litla stelpan ofsalega mikil hetja og alltaf að bjarga málunum en við skulum ekki gleyma því eitt andartak að hún er ástsjúk og eins og allar litlar stelpur dreymir hana um að eignast kærasta.

Ég er voða ánægð að stelpurnar í barnaefninu eru ekki lengur passívar og óvirkir þátttakendur í dramanu en andskotinn hafi það (afsakið orðbragðið) er ekki hægt að ganga alla leið?

jæja þetta var reiðipistill vikunnar,

góðar stundir

mánudagur, 21. apríl 2008

mont

ég þekki einn gaur sem ætlar að fara að vinna á 10. besta veitingastað í heimi.

Úti er alltaf að snjóa

jæja þá er það ítölskupróf á eftir, parla italiano eh? ég er búin að reyna klambra saman einhverjum setningum til þess að leggja á minnið fyrir þetta munnlega lokapróf. Valentinu er hvergi að finna svo ég varð að notast við venjulega orðabók í þetta skiptið. Það er að saxast á þessi blessuðu verkefni þó að það stærsta sé enn þá á frumstigi.

Kennarinn minn vill endilega að ég rumpi þessu bara af þó að hún verði ekkert spes og ætli ég sé ekki bara sammála. Illu er best af lokið.

Sólin hættir ekkert að skína, þetta er ótrúlegt. En ég var að rifja það upp með svilkonu minni (já maður, ég á svilkonu!) að vorin hér norðan heiða byrja oft í lok apríl og hætta svo við. Mig minnir að tvö síðustu ár hafi snjóað rétt áður en ég hafi horfið suður á bóginn. Ég er ekkert að reyna að vera svartsýn eða eitthvað svoleiðis... bara raunsæ.

Herdís ætlar að bruna norður um næstu helgi og hafa dúndurgaman í stuðbænum. Það verður stuð að hitta þau (já maður, hún er orðin þau!). Ég ætla að reyna að vera búin með allt áður en þau koma (ræææt!) svo ég geti gert eitthvað með þeim.

góðar stundir

föstudagur, 18. apríl 2008

Io mi chiamo þóra, sono ..... veitiggi

Mikið er veðrið orðið gott hérna á Akureyri, ég hélt hreinlega að mig væri að misminna þegar ég var að rifja upp góðviðrisdaga í fyrra eða hittífyrra. Neibb, þeir eiga þetta til...alltaf þegar ég er í prófum fer sólin að skína. Það er fínt, þá léttist lundin.

ég er að krafsa fram úr verkefnum og búin að temja mér heilbrigðt/heilbrigt kæruleysi. Ef þetta klárast þá klárast þetta ... annars ekki(hallast að því síðar nefnda). Ég kláraði tvö ítölsku verkefni með dyggri hjálp Valentinu sem ég kynntist í Lettlandi. Þegar ég var búin að senda þau inn birtist það þriðja. úff svona er lífið mitt soldið þessa dagana ánægjan af því að klára verkefni er svo skammvinn því það bíða önnur 23 og eitt af þeim er BA ritgerðin. En ég nenni ekki að tuða... var ég ekki að tala um nýtilfundið kæruleysi hér að ofan, kommonn!

Allt í einu í dag fór ég að hugsa um svakalega leiðinlegt leikrit sem leiklistarhópur Kvennaskólans setti upp þegar ég var á fyrsta eða öðru ári. Það heitir Grænjaxlar og ástæða þess að ég fór að hugsa um það í dag er sú að mig minnir einhvern veginn að lagið sem Valgeir Guðjónsson er alltaf að syngja í auglýsingatímum á rás 2 (næ ekki bölvaðri gufunni á fyndnu næntís græjunum mínum...en þær taka samt 6 diska í einu svo ég kvarta ekki) hafi verið í sýningunni. Lagið er svona: ,,Grænaaaaaa, græna byltingin" og svo aftur ,,grænaaaa, græna byltingin". Nú er ég ekki alveg viss um að ég hafi rétt fyrir mér og að þetta lag hafi verið í þessari sýningu en mig minnir það samt.

Leikritið var leiðinlegt og á meðan ég sat yfir því man ég að ég hugsaði að þetta ætti bara ekki erindi til okkar í dag (fyrir meira en 10 árum, þegar ég var í menntó). Það átti kannski betur við á áttunda áratugnum þegar verðbólgan var að plaga fólk og ríkisstjórnin vissi ekkert hvernig hún átti að sporna við henni. Það mátti jafnvel kenna ríkisstjórninni um að verðbólgan varð eins mikil og hún varð. Minnir líka að leikritið hafi verið að segja það, þetta var nefnilega hárbeitt ádeila sem fór gjörsamlega fyrir ofan garð og neðan hjá mennaskólanemum fyrir 10 árum. Við hreinlega blésum á þetta og sögðum: en þetta var í gamla daga mar!

Ætli menntaskólanemendur í dag myndu bregðast eins við þessu leikriti?

miðvikudagur, 16. apríl 2008

sæl veriði,

ég ákvað að starta þessu bloggi mínu aftur bara svona af því ég á að vera gera eitthvað annað. Nú fer að styttast í það að ég klári þennan skóla þó að ég sjái það ekki alveg gerast eins og er. En hlutirnir eiga það til að fara einhvern veginn.

Hef svo sem ekkert að segja þannig, vorið er komið á Akureyri og grundirnar gróa... og það allt.

puh nú þegar ég loksins lét verða af því að fara inn á þessa síðu hef ég bara ekkert að segja, hvurslags?!

mér dettur eitthvað í hug