laugardagur, 30. apríl 2011

maní og pedí !

Þá er liðin vika síðan stelpan mætti til Dhaka og innan við 3 vikur eftir sjííís og við eftir að fara til Cox's Basar og allt. Það er að reynast pínu erfitt að fá viðtöl við NGO-in (hjálparstarfsfélög) í Cox's Basar þar sem þau eru undir mjög miklu eftirliti frá ríkisstjórninni. Ríkisstjórnin vill enga krítík á það hvernig flóttamenn eru meðhöndlaðir og vill helst losna við hjálparstarfsfélögin. Félögin eru því mjög lítið áberandi þarna niðurfrá og starfsmenn virðast hissa á því að við vitum að þau séu starfrækt á svæðinu. Það verður því mjög spennandi að sjá hvort að við fáum einhver viðtöl á svæðinu en næsta vika fer í að reyna að ná í höfustöðvar hina ýmsu félaga hér í Dhaka. En ef við förum suður þá er þetta allt að verða ansi tæpt tímalega séð, tíminn bókstaflega flýgur.

En við erum nú samt búnar að taka okkur frí þessa helgi og reyna að skoða borgina aðeins. Helgin hefst á föstudegi og eru því sunnudagar eiginlega eins og mánudagar,pínu skrítið. Núna er nottla 1. maí á sunnudaginn og hann er opinber frídagur hér í landi, en það kom okkur dáldið á óvart. Í gær gerðum við heiðarlega tilraun til þess að finna indverska hverfið og hinn svo kallaða Nýja markað en það gekk ekkert sérstaklega vel. Við fundum hins vegar Lalbag Kella sem er garður sem er girtur steinveggjum og innan veggjanna eru nokkur grafhýsi sem voru byggð á öldum áður. Það er svo sem ekkert í frásögur færandi annað en þar urðum við allt í einu aðal attraksjónið, útlendingar í Dhaka. Fólk gekk upp að okkur og bað um að taka myndir af okkur og aðrir tóku bara myndir úr fjarlægð en við vöktum mikla athygli. Meira að segja aðrir túristar tóku myndir af okkur. Mjög sérstök upplifun, pínu svona eins og Madonna bara! ha? haldiði að það sé? Það er alls staðar horft á okkur en þetta var aðeins meira en venjulega.

En ferðafélagi minn er orðin lasin og urðum við því frá að hverfa í gær úr rykinu og hávaðanum og fórum við bara snemma að sofa sem var mjög gott. Í dag fórum við aðeins styttra en líka í leit að markaði og fundum hann. En eftir markaðinn, tatatatammm, fór ég í maní og pedí (hand- og fótsnyrtingu). jiii hvað það var skrítið og ekkert sérstaklega þægilegt en ég er voða fín núna og verð sjálfsagt í svona tíu mínútur í viðbót. En fyrir utan að þjala, raspa og skrúbba var öllum skönkum dýft í vax, svona doldið eins og kertavax, brennandi heitt kertavax. Eftir það var þeim pakkað inn í plastfilmu og sat ég þannig í sirka 10 mínútur og það sem mig klæjaði rosalega í nefið, úff.

Á snyrtistofunni hittum við unga stúlku sem var ægilega sæt og skemmtileg og ákváðum við að fara með henni í hádegismat. Hún sagði okkur að hún væri búin með B.A. próf og stefndi á meistaranám en foreldrar hennar væru ekkert sérstaklega hrifin af því vegna þess að hún á að gifta sig. Hún á kærasta sem hún er búin að vera í fjarbúð með í 5 ár en hann býr í öðrum bæ í nokkurra klukkutíma fjarlægð. Í hvert skipti sem hún fer heim suða foreldrar hennar í henni að fara nú að gifta sig en hana langar það ekki svo hún hætti bara að heimsækja þau, helvíti fínt.

Núna erum við bara komnar aftur heim og ferðafélaginn að leggja sig sem mér finnst bara fínt, ég hef ofsalega litla orku í að vera úti í þessum hávaða en það hlýtur nú að fara að venjast, ha? er þaggi? þetta segi ég við mig á hverjum degi, já kannski daginn áður en við förum venst ég þessu.

mánudagur, 25. apríl 2011

Af plebbisma og bangladesískum fríkadellum

Jæja þá er dagur þrjú í Dhaka að verða búinn og stelpan orðin töluvert sjóaðri en hún var í byrjun. En það verður að segjast að þessi umferð er ekkert grín og hávaðinn, ussss þessi hávaði. Í dag tókum við þriðja viðtalið á tveimur dögum en það var við plebba hjá sameinuðu þjóðunum. sjííís hvað hann var mikill plebbi, afsakið þó að ég bara segi það hreint út. Hann var hrokagikkur með mikilmennskubrjálæði og hnussaði hreinlega yfir sumum spurningunum. Það hafði nú samt ekki tilætluð áhrif þar sem við fengum síður en svo minnimáttarkennd, við gengum út hlægjandi að þessum kjánaskap. Hann var voða hrifinn af því að segja mér allt sem hann vissi um Ísland en hann var víst að deita íslenska stelpu í tvö ár. Hann var ekki eins hrifinn af Danmörku, ég verð að viðurkenna að það hlakkaði aðeins í minni þá.

Viðtölin í gær við lókal gæjana gengu miklu betur, þeir voru ekkert að þykjast vera neitt annað en þeir eru. Svöruðu kannski ekki öllum spurningunum en brostu þá allavega þegar þeir sögðu: now you are approaching a critical issue.

Í morgun fórum við líka á lítinn markað þar sem var hægt að kaupa allt milli himins og jarðar. Skrítnastur var nú samt kjötmarkaðurinn þar sem kjötið stóð fyrir utan í taumi og beið slátrunar. Skemmtilegastir voru karlarnir 5 sem sátu við saumavélar og saumuðu án afláts, þeir voru með svona svartar saumavélar sem þarf að stíga, voða hressir.

Það allra erfiðasta við þessa borg eru betlararnir en þeir eru ansi víða og þá börnin sérstaklega erfið ekki bara vegna þess að þau eru börn en þau eru líka ágengust og oft þykjum við ekki gefa alveg nóg. Það er ofsalega erfitt að horfa upp á eymdina hérna.

En á móti kemur að hér eru margir ofsalega hressir og sérstaklega glaðir að sjá útlendinga, það gerist greinilega ekki alveg á hverjum degi. Okkur er heilsað mjög kurteisislega á hverju götuhorni, good evening mam, how are you? mjög huggó allt saman.

Eftir viðtalið ógurlega fórum við í rólegheit í Norræna klúbbinn og skrifuðum upp viðtalið og snurfusuðum við laugina. Það er nú skrítinn staður, HA? shjííís. Þar eru allir plebbarnir saman komnir með fjölskylduna í tennistíma eða í sundlaugina og drekka bjór. Áfengi er almennt bannað hér í Bangó en útlendingar mega drekka, af því þeir eru ekki múslimar, þetta er allt mjög líberal hérna. Við ákváðum að borða þar líka áður en við fórum heim og viti menn! Á matseðlinum var ekki einn einasti bangladesíski réttur en það var hins vegar hægt að panta fríkadellur. Þetta var svona lítil Skandinavía í miðju bangladesíska brjálæðinu. Mjög spes. En ég ætla samt í maní og pedí og ætla ekki að fá samviskubit yfir því og hana nú (kannski er ég bara plebbi inn við beinið eftir allt saman)

laugardagur, 23. apríl 2011

Gulshan

Jæja þá erum við loksins komnar á leiðarenda, mér finnst eins og það sé hálfur mánuður síðan við flugum frá danmörku. Dúbai var fín voða flottar og fínar verslunarmiðstöðvar annars vegar og hins vegar markaðir og þröngar götur. En daginn áður en við flugum til Dakha fengum við póst frá gistiheimilinu sem við höfðum ætlað okkur að vera á og okkur sagt að það væri því miður ekki pláss fyrir okkur. Við þurftum því að finna okkur hótel kvöldið sem við lentum sem var hrikalega leiðinlegt og erfitt.

Á flugvellinum voru skrifstofur þar sem hægt var að panta leigubíl sem reyndist svo hreint ekki vera leigubíll en voða fyndinn bangladessi sem keyrði mjög gamlan og skítugan bíl. hann keyrði svo með okkur á milli hótela þar sem við fengum ýmist ógeðsherbergi eða hreinlega: nei því miður við megum ekki taka við gestum inn af götunni. Við enduðum svo á hótel Washington sem var frekar lélegt og frekar dýrt en stelpan var orðin þreytt og neitaði að fara lengra.

Í dag erum við svo búnar að eyða deginum í það að labba um "fína" hverfið og leita að hótelum þar sem við getum hugsað okkur að dveljast næstu fjórar vikurnar. Það gekk ágætlega og fengum við að sjá fullt af herbergjum og öll á: "very special price for you, because you my friend" verðinu. En við erum nú loksins komnar á lítið krúttlegt gistiheimili, mjög spes fyrir útlendinga. En það er nálægt öllum diplóplebbunum sem við ætlum að taka viðtal við og svo náttúrulega nordic club-inum þar sem tennisvöllurinn og sundlaugin er, afar mikilvægt!

Þetta hefur verið svona só far só gúdd, ég var ekki par hrifin og alls ekki í rónni þegar ég lenti hérna í gær en það hefur lagast í dag. Það er alveg hægt að rölta um í þessari geðveikistraffík en hávaðinn er svakalegur. Hér eru allir alltaf að flauta, allir sem keyra bíl flauta fyrir horn, flauta til að troðast og flauta þegar þeir sjá útlendinga. Semsagt mega mikið flaut út um allt og varla hægt að sofa fyrir þessu.

Það besta við herbergið er að hér er loftkæling og internet, við ættum því að geta unnið hérna eitthvað. Það eru líka svalir, lítið eldhús og setustofa, ægilega kósí allt saman.

við erum báðar frekar mikið þreyttar eftir erfiða tvo daga svo það verða vonandi bara rólegheit í kvöld og svo beint í fyrsta viðtalið á morgun. shjííí, vona að við finnum það.

ég mun svo væntanlega pósta myndum þegar ég er ekki svona þreytt.

fimmtudagur, 14. apríl 2011

Surf's up !

Jæja þá er nú aldeilis farið að líða að þessu, við leggjum af stað á þriðjudaginn. Þá munum við fara til Dubai og verðum á hóteli með sundlaug á þakinu, mjög mikilvægt atriði. Við höfum heyrt af eyðimerkur-surfi sem okkur langar að prófa. Þá rennir maður sér á brimbretti á sandöldum, ef það er ekki bara fullkomið tækifæri fyrir mig að prófa brimbretti þá er slíkt tækifæri ekki til. Við ætlum líka að fá okkur arabískan brönsj sem ég hlakka líka voða mikið til að smakka. Tilgangur Dubai stoppsins er doldið að leyfa sér lúksus áður en þróunarlands-ævintýrið tekur við, já og rétta af þotuþreytuna.

Ég er næstum búin að gera allt sem þarf að gera en það er eitt bólusetningarstopp eftir og þá verð ég varin fyrir lifrarbólgu A og B næstu 25 árin. Ég er búin að kaupa mjólkurgerlatöflurnar og imódíum, sólarvörn og stráhatt svo ég er nokkuð vel sett. Sólgleraugun ætla ég að kaupa í Dubai.

Það sem hefur breyst síðan síðast er að plebbarnir hjá Sameinuðu Þjóðunum eru búnir að svara og við komnar með einn fund með þeim, það gerðist bara í dag. Almennt er fólk voða varkárt gagnvart því að lofa okkur fundum og viðtölum vegna þess að viðfangsefnið okkar er víst viðkvæmt og Bangladessar almennt ekki hrifnir af því að það sé rætt. Það gerir okkur örlítið stressaðar og gerir okkur erfitt fyrir þar sem við erum að sækja um styrki líka. Við þurfum nefnilega að fá staðfestingu frá að minnsta kosti einum viðtalanda um að við séum að fara gera rannsókn og taka viðtöl, hingað til hafa þeir sem við höfum spurt neitað okkur um það. En það fer nú bara eins og það fer, maður er svo vel haldinn á námslánum að ég set þetta bara á kortið.

Ég veit að ég lofaði hérna að ég myndi ekki skrifa mikið um verkefnið sjálft en er löngu búin að svíkja það en þetta er það sem er að gerast núna. Eftir nokkra daga get ég skrifað tískublogg um vegfarendur í dubæsku verslunarmiðstöðinni og það nýjasta í sandbrimbrettasportinu.

En það allra nýjasta er að ég er komin með nýjan síma og ef ég sendi ykkur ekki nýtt númer í vikunni þá er ég að gleyma ykkur, sorrí. Þeir sem vilja geta látið mig vita og ég sendi skeyti. Ég ætlaði nefnilega að skipta úr talfrelsi yfir í áskrift en ekki fór betur en svo að ég gekk út með nýjan bleikan smartphone og nýtt símanúmer, þetta var víst það ódýrasta í stöðunni... það á svo eftir að koma í ljós hversu hræbillegt þetta verður.

ég á sjálfsagt ekki eftir að skrifa meira fyrr en ég er lögð af stað svo þangað til...

bestu kveðjur