miðvikudagur, 23. mars 2011

Það vinna plebbar hjá sameinuðu þjóðunum

Jæja þá eru línur aðeins farnar að skýrast. Við erum komnar með herbergi á meðan við verðum í Bangladesh, það var tekið sérstaklega fram við okkur að herberginu fylgdi internet 24 tíma sólarhrings og dadada rennandi vatn! í alla 24 tíma sólarhringsins. Við erum ofsa kátar með þetta þar sem verðið er töluvert undir bödjetti eða um 2000 kr danskar mánuðurinn, fyrir okkur báðar. Við erum líka búnar að hafa samband við hina og þessa aðila sem við viljum endilega tala við þarna niður frá, suma er ferlega erfitt að ná sambandi við en aðrir voða hressir.

Erum nú þegar komnar með einn prófessor, einn gaur hjá rauða krossinum, einn hjá IOM og svo eina konu sem er reyndar í Tælandi landi töfra (eins og hemmi kallaði það hér i denn). Þeir sem hafa verið lítið fyrir að svara tölvupóstum eða í símann eru þeir hjá sameinuðu þjóðunum. En það er pínu fyndið að allir þeir sem hafa nennt að tala við okkur hinga til vilja endilega að við tölum við gaurana hjá SÞ og láta okkur fá endalaust af netföngum og símanúmerum. Við höldum að kannski finnist hjálparstarfsfólki þessir plebbar geta brotið odd af oflæti sínu og talað við litlu stelpurnar um ritgerðina þeirra.

Við höfðum sumsé samband við Bangladesh í dag í gegnum skype og í allra fyrsta símtalinu heyrðm við í símsvara og það tók okkur örfá andartök að átta okkur á að manneskjan var að tala ensku. Þessi hreimur er náttúrulega algjörlega iiiindislegur, allir þeir sem við töluðum við í dag hljómuðu eins og búðareigandinn Apu Nahasapimapetalon í Simpson... í 16. veldi. Hann Jakaria þurfti greyið að endurtaka netfangið sitt svona sirka 3svar og vinur hans sem gaf okkur símanumerið hjá téðum Jakaría þurfti að endurtaka það svona 10 sinnum. Það dugði ekkert að biðja hann um að tala aðeins hægar... hann hækkaði þá bara róminn.

Á morgun sækjum við um vegabréfsáritun en til þess þarf að senda eyðublað, tvær passamyndir og vegabréfið til Svíþjóðar... já vegabréfið í póst! pinu skerí en það vonandi skilar sér. Á morgun förum við líka í sprauturnar: Barnaveiki, taugaveiki, lifrarbólga A og stífkrampa... það er nú ekki svo mikið.

Þetta er allt að verða voða raunverulegt eitthvað, við erum bara að æða í þetta híhí. Ég sá veðurfréttir á Al jazeera í gær og þar sagði að hitinn í Dhaka væri 34 gráður, það á bara eftir að hækka næsta mánuðinn úff púff... var ég búin að segja ykkur að við verðum með loftkælingu 24 tíma á dag, uuu hjúkk! svo er reyndar að sjá hvort loftkælingin verði í formi viftu og rennandi sturtan úr fötu og internetið úr ... nei, dettur ekkert sniðugt í hug.

Annars eru líka tveir styrkir komnir í hús og beðið svara frá einum, tveir af þremur er ekki svo slæmt. Þannig að þetta er allt að smella bara ha! haldið að það sé ?

laugardagur, 12. mars 2011

Operation Rohingya

Jæja þá er búið að kaupa miðana til Bangladess og munum við stöllur fara þangað rétt fyrir páska og ætlum að vera þar í mánuð, að undanskildum tveimur dögum sem við verjum í Dúbaí. Það er nú þegar búið að ganga á ýmsu í þessu ferli en við hefum nýverið fengið undanþágu sem gerir okkur kleift að skrifa masters-ritgerðina saman. Stúlkan sem ég skrifa með er ung og dönsk pía og höfum við skrifað verkefni saman áður og þá var fjallað um sama hóp flóttamanna og við ætlum að skrifa um í ritgerðinni. Þá dúndruðum við út fínasta verkefni og ætlum að gera slíkt hið sama í þetta sinn.

Flóttamennirnir sem við ætlum að fjalla um heita Rohingya og eru múslimar sem hafa búið í Arakan héraði í Búrma síðan á 15.öld. Héraðið er frekar einangrað frá Búrma af náttúrulegum orsökum, það er aðskilið Bangladess með ánni Naaf en fjallgarður liggur austan megin við héraðið sem gerði ferðalög inn í Búrma erfið. Það hefur verið bölvað rót á þessum múslimska minnihlutahóp vegna mismunandi einræðisherra, nýlenduherra og herstjórna en núverandi herstjórn gerði þá landlausa með lagasetningu árið 1982. Þessi "nýju" lög leiddu það í för með sér að flestir þeirra Rohingya misstu ríkisborgara rétt sinn og urðu því ólöglegir innflytjendur. seinna breyttist reyndar sú skilgreining vegna þrýstings frá alþjóðasamfélaginu og þá aðallega Bangladess. Fólkið er samt enn án ríkisfangs og flýr í miklum mæli bæði til Bangladess og annarra landa í Asíu.

Í Bangladess eru tæplega 300.000 Rohingya múslima en einungis í kringum 30.000 eru í löglegum flóttamannabúðum sem rekin eru með hjálp UNHCR (Flóttamannaapparatið í sameinuðu þjóðunum). Fyrstu flóttamennirnir komu snemma á 8. áratugnum og margir þeirra eru enn í búðunum og einhverjir hafa verið sendir heim til Búrma og svo flúið aftur yfir. Ríkisstjórn Bangladess hætti að skrá flóttamennina sem slíka og þess vegna er svo mikið af þeim utan flóttamannabúða, sem gerir þá einstaklega varnarlausa því fólkið má ekki sækja sér atvinnu og hefur engin réttindi.

Það sem við viljum athuga er samvinna alþjóðasamfélagsins og ríkis þegar kemur að svona málum. Bangladess vill ekki taka við fólkinu (ekki frekar en nokkurt vesturlanda) og Búrma segir þau vera bengala og vill ekki sjá þau. Fólkið verður fyrir ofsóknum hvort sem þau eru í Bangó eða Búrma og sumir hafa verið sendir heim og flúið til baka mörgum sinnum. Þau geta ekki farið neitt annað en labbandi eða siglandi á bátskriflum sem þau og gera, í Tælandi var þeim bara snúið við á ströndinni og ýtt út á haf aftur.

Við ætlum sem sagt til Bangladess til að tala við starfsmenn UNHCR, vonandi starfsfólk hjálparstofnana, vonandi opinbera starfsmenn og fræðimenn. Það væri frábært að fá leyfi til að skoða flóttamannabúðirnar en það eru víst ekki miklar líkur á því en við vonum að þegar við erum komnar að þá sé erfiðara að segja nei við okkur.

Þetta blogg mun ekki fjalla mikið um verkefnið sjálft heldur meira um það að vera í Bangladess og upplifun af því, svona pínu eins og ég gerði í Lettlandi. Þetta verður einhvers konar dagbók fyrir mig bæði til að leyfa fólki að fylgjast með og fyrir mig til að geta lesið seinna og rifjað upp.

Ég er þegar orðin mega stressuð en hlakka líka mikið til, ég hef verið að lesa allskonar vefsíður um Bangó og þá aðallega Dhaka sem er höfuðborgin en það sem alltaf minnst á er hávaðinn. Það býr svo mikið af fólki í landinu og það er svo þéttbýlt að höfuðborgin er víst sú mest hektíska sem um getur. sjiiiiit ég verð mega pirripú á strikinu á laugardegi! En það búa 150 milljónir manns í landinu sem er á stærð við Danmörku, í Dhaka eru engin umferðarljós og umferðarreglur er víst eitthvað losaralegar. En það sem fólk talar líka mikið um er hversu vingjarnlegir Bangladessar eru, það er svo lítið um ferðamenn svo þeir vekja alltaf mikla athygli. Maður á víst ekki að láta sér bregða ef fólk þyrpist um mann og glápir hvar sem maður kemur, en það er víst ekkert skerí stöff þeir eru bara forvitnir og bándaríin eru bara öðruvísi.

en já ég ætla að skrifa um allt það sem gerist á ferðalaginu en fram að því verður kannski ekkert mikið stuð, nema að mér detti eitthvað rosa skemmtó í hug auðvitað.

þangað til... bæjó