mánudagur, 23. febrúar 2009

konudagur, prjónaskapur og sumarfrí


þetta eru blómin sem meistarakokkurinn gaf mér í tilefni konudagsins og nú heldur hann að hann komist upp með allt. Þegar brúnin þyngist á stelpunni þá minnir hann á blómvöndinn og hver hafi keypt þau, ,,heyrðu komum inn í stofu að horfa á blómin" sagði hann þegar ég var farin að tuða aðeins of mikið að hans mati.

Hér er voða lítið að gerast eins og venjulega, bara vinna, borða, sofa og svo aftur frá byrjun. Það hefur reyndað snjóað ansi mikið síðustu dag og það var bara allt á kafi svei mér þá. Það var hundslappadrífa allan daginn dag eftir dag en svo kom rigning og þá fór snjórinn.

jeminn hvað ég er skemmtileg, tala bara um veðrið eins og það sé æsispennandi glæpasaga eftir hann arnald indriða. Það sem er meira í fréttum er að ég lagðist í prjónaverkefni og ætla mér að prjóna risastórt sjal og gengur það svona upp og ofan. ég byrjaði á því að prjóna heila dokku bandvitlaust og þurfti að byrja upp á nýtt. en nú hef ég komist svona ágætlega inn í þetta og að verða búin með tvær dokkur en það eiga að vera 4 eða 5 man það ekki. ég prjóna bara þangað til að ég enda með 6 lykkjur og hætti þá. Maður byrjar með 420 lykkjur og ég þurfti að telja svo oft og byrja upp á nýtt að fitja að það hvarflaði að mér að ég væri pínu þroskaheft. Ég fékk svo þann grun staðfestan þegar ég uppgötvaði að ég hefði prjónað hliðarnar saman og farin að prjóna í hring og ómeðvitað byrjuð á peysu. ég er að vona að hrakförum mínum sé lokið og að ég geti klárað sjalið einhvern tíma fyrir vorið (ekki það að ég þurfi ullarsjal fyrir sumarið sko!).

Nú er ég lögst í veikindi, með hálsbólgu og skrítna bletti á maganum (þeir fóru reyndar en ég varð skíthrædd og hélt að sjálfsögðu að dauðinn væri handan við hornið). Ég fékk að vita að þetta gæti verið skarlatsótt en þetta er allt mjög óljóst og ég nenni ekki til læknis þar sem ég er svo mikið hörkutól. Kokkurinn trúir mér ekki og heldur að ég sé ekkert veik en það er nú bara af því ég væli ekki allan daginn eins og sumir sem ég þekki.

Annars er farið að birta á morgnana og ég farin að hlakka til vorsins. ég á að fara að ákveða sumarfríið mitt núna og er ég að spá í að taka júlí. En ef einhver ætlar að koma í heimsókn af því ég er svo skemmtileg þá eru allir velkomnir. Við getum jafnvel boðið gistingu (einn sófi og tvær dýnur) en þá verða allir gestirnir að sofa í sama herbergi. En alla vega, ef einhver vill koma á öðrum tíma en júlí þá má sá hinn sami/sú hin sama (tíhí) láta mig vita og ég bið um frí. kadlinn fer líklegast ekki í frí svo ég er til í að eyða fríinu mínu í að fá fólk í heimsókn. KOMASO!