miðvikudagur, 5. desember 2007

Good morning sunshine

hæ,

Ég er að upplifa svo ægilega fínan dag eitthvað og varð að deila því með einhverjum.

Í gær fór ég að sjá Hnotubrjótinn í óperunni og ég verð bara að vera hreinskilin og segja að ballet virðist ekki vera sterkasta hlið letta. Það voru nokkrir færir dansarar inn á milli en þeir voru útlendingar. Það skal tekið fram að ef ég sé að einhver er ekkert spes ballet dansari þá hlýtur hann að vera ansi slakur greyið. Eftir ballettinn fór ég heim en hinir fóru á pöbbinn. Ég þurfti nefnilega að skrifa ritgerð fyrir daginn í dag. Um klukkan 2 í nótt var ég enn að bisa við ritgerð og að spjalla smá á msn þegar meðleigjandinn og vinur okkar hann Róbert frá Svíþjóð birtust ofsa hressir á stofugólfinu hjá mér. Þeir stóðu þarna brosandi út að eyrum og buðu mér bjór sem ég þáði. Þó að þetta hafi orðið til þess að ég skrifaði ekki staf í viðbót og er þess vegna að fara að skila ritgerðinni alltof seint þá gat ég ekki látið þetta fara í taugarnar á mér. Þeir voru bara svo fyndnir og krúttlegir.

Okei og nú koma allir litlu hlutirnir sem eru að gera daginn minn svona fínan. Ég náði að vakna í tíma fyrir tíma! haha! orðadjók! En hann byrjaði klukkan 10.15 og ég mætti bara 10 mínútum of seint þrátt fyrir að hafa vakað til 4 af fyrrgreindum ástæðum. Þá kom í ljós að það var umræðutími og í hann er mætingaskylda. jiiiiii ég var svo fegin að hafa verið hörð við sjálfa mig og dröslast af stað. Hafði ekki hugmynd um að það væri umræðutími í dag, þvílík heppni!

Þegar ég spjallaði svo við samnemendur mína kom í ljós að tíminn sem ég skrópaði í til að fara á Hnotubrjótinn féll niður og ég fæ því ekkert skróp í kladdann. Þvílík heppni!

Ég var rosa svöng eftir tíma þar sem morgunverður fær að víkja fyrir smá snúsi. Ég fór þess vegna í uppáhaldsmatvörubúðina mína, Stockman. Mig grunaði nefnilega að þar væri til alvöru smjör en í hverfisbúllunni minni er bara til margarín. Það er ekki hægt að borða harðfisk án þess að hafa smjör og viti menn ég hafði rétt fyrir mér. Í þessari dýru og fensí búð var til alvöru smjör, þvílík heppni!

Ég lagði mig eftir hádegismatinn minn sem varð mjög fjölbreyttur eftir vel heppnaða ferð í Stockman. Dreymdi alveg ótrúlega vel og vaknaði í enn betra skapi. Núna var ég að enda við að borða ótrúlega vel heppnað hakk og spaghetti á la Rigastelpan. Ætli matur bragðist betur af því maður er kátur þegar maður borðar hann eða af því maður er kátur þegar maður býr hann til?

Það er alveg ótrúlegt hvað það þarf stundum lítið til að gleðja mann :)

1 ummæli:

Nafnlaus sagði...

það var lagið. Þetta er ég búin a vera að æfa mig í að hugsa jákvætt þá verður allt svo skemmtilegt og það koma bara góðir hlutir til manns á færibandi. Og halda svona áfram
kveðja mamma