laugardagur, 12. mars 2011

Operation Rohingya

Jæja þá er búið að kaupa miðana til Bangladess og munum við stöllur fara þangað rétt fyrir páska og ætlum að vera þar í mánuð, að undanskildum tveimur dögum sem við verjum í Dúbaí. Það er nú þegar búið að ganga á ýmsu í þessu ferli en við hefum nýverið fengið undanþágu sem gerir okkur kleift að skrifa masters-ritgerðina saman. Stúlkan sem ég skrifa með er ung og dönsk pía og höfum við skrifað verkefni saman áður og þá var fjallað um sama hóp flóttamanna og við ætlum að skrifa um í ritgerðinni. Þá dúndruðum við út fínasta verkefni og ætlum að gera slíkt hið sama í þetta sinn.

Flóttamennirnir sem við ætlum að fjalla um heita Rohingya og eru múslimar sem hafa búið í Arakan héraði í Búrma síðan á 15.öld. Héraðið er frekar einangrað frá Búrma af náttúrulegum orsökum, það er aðskilið Bangladess með ánni Naaf en fjallgarður liggur austan megin við héraðið sem gerði ferðalög inn í Búrma erfið. Það hefur verið bölvað rót á þessum múslimska minnihlutahóp vegna mismunandi einræðisherra, nýlenduherra og herstjórna en núverandi herstjórn gerði þá landlausa með lagasetningu árið 1982. Þessi "nýju" lög leiddu það í för með sér að flestir þeirra Rohingya misstu ríkisborgara rétt sinn og urðu því ólöglegir innflytjendur. seinna breyttist reyndar sú skilgreining vegna þrýstings frá alþjóðasamfélaginu og þá aðallega Bangladess. Fólkið er samt enn án ríkisfangs og flýr í miklum mæli bæði til Bangladess og annarra landa í Asíu.

Í Bangladess eru tæplega 300.000 Rohingya múslima en einungis í kringum 30.000 eru í löglegum flóttamannabúðum sem rekin eru með hjálp UNHCR (Flóttamannaapparatið í sameinuðu þjóðunum). Fyrstu flóttamennirnir komu snemma á 8. áratugnum og margir þeirra eru enn í búðunum og einhverjir hafa verið sendir heim til Búrma og svo flúið aftur yfir. Ríkisstjórn Bangladess hætti að skrá flóttamennina sem slíka og þess vegna er svo mikið af þeim utan flóttamannabúða, sem gerir þá einstaklega varnarlausa því fólkið má ekki sækja sér atvinnu og hefur engin réttindi.

Það sem við viljum athuga er samvinna alþjóðasamfélagsins og ríkis þegar kemur að svona málum. Bangladess vill ekki taka við fólkinu (ekki frekar en nokkurt vesturlanda) og Búrma segir þau vera bengala og vill ekki sjá þau. Fólkið verður fyrir ofsóknum hvort sem þau eru í Bangó eða Búrma og sumir hafa verið sendir heim og flúið til baka mörgum sinnum. Þau geta ekki farið neitt annað en labbandi eða siglandi á bátskriflum sem þau og gera, í Tælandi var þeim bara snúið við á ströndinni og ýtt út á haf aftur.

Við ætlum sem sagt til Bangladess til að tala við starfsmenn UNHCR, vonandi starfsfólk hjálparstofnana, vonandi opinbera starfsmenn og fræðimenn. Það væri frábært að fá leyfi til að skoða flóttamannabúðirnar en það eru víst ekki miklar líkur á því en við vonum að þegar við erum komnar að þá sé erfiðara að segja nei við okkur.

Þetta blogg mun ekki fjalla mikið um verkefnið sjálft heldur meira um það að vera í Bangladess og upplifun af því, svona pínu eins og ég gerði í Lettlandi. Þetta verður einhvers konar dagbók fyrir mig bæði til að leyfa fólki að fylgjast með og fyrir mig til að geta lesið seinna og rifjað upp.

Ég er þegar orðin mega stressuð en hlakka líka mikið til, ég hef verið að lesa allskonar vefsíður um Bangó og þá aðallega Dhaka sem er höfuðborgin en það sem alltaf minnst á er hávaðinn. Það býr svo mikið af fólki í landinu og það er svo þéttbýlt að höfuðborgin er víst sú mest hektíska sem um getur. sjiiiiit ég verð mega pirripú á strikinu á laugardegi! En það búa 150 milljónir manns í landinu sem er á stærð við Danmörku, í Dhaka eru engin umferðarljós og umferðarreglur er víst eitthvað losaralegar. En það sem fólk talar líka mikið um er hversu vingjarnlegir Bangladessar eru, það er svo lítið um ferðamenn svo þeir vekja alltaf mikla athygli. Maður á víst ekki að láta sér bregða ef fólk þyrpist um mann og glápir hvar sem maður kemur, en það er víst ekkert skerí stöff þeir eru bara forvitnir og bándaríin eru bara öðruvísi.

en já ég ætla að skrifa um allt það sem gerist á ferðalaginu en fram að því verður kannski ekkert mikið stuð, nema að mér detti eitthvað rosa skemmtó í hug auðvitað.

þangað til... bæjó

2 ummæli:

Helga Stina sagði...

Svoooo spennó þóra mín...fylgist spennt með ævintýrunum ykkar....með í anda..

solveig sagði...

hlakka til að lesa ævintýra færslur :)