laugardagur, 22. nóvember 2008

Úti er alltaf að snjóa...

Það snjóaði í Kaupmannahöfn í gærkveldi, nú eru gangstéttir þaktar snjóföl. Um klukkan hálf ellefu í gær varð ég vör við barnaraddir úti í garði og þótti það doldið seint fyrir börn að leika úti auk þess sem bakgarðurinn er ekki upplýstur. Ég stóð upp og kíkti út um gluggann eins og forvitnum og siðavöndum nágranna sæmir til að skoða hvaða börn það væru nú sem ráfuðu um sjálfala um miðjar nætur. Þá sá ég að þau voru öll í snjógöllum og með snjóþoturnar sínar, þau hafa líklega fengið leyfi til að fara út og njóta snjósins svona þar sem hann hverfur sjálfsagt um helgina og kemur ekki aftur fyrr en á næsta ári. Ég hefði þó viljað sjá snjóþoturnar í notkun þar sem snjófölin er ekki meira en 20 - 30 millimetrar, kannski eru hjól undir þotunum ég veit það ekki. En þar sem ég stóð útí glugga og flissaði varð ég einnig vör við fólk í húsinu á móti. Þar var greinilega smá partý en það stóðu 6 manns útí glugga og sá er aftast stóð hélt á vasaljósi og lýsti út í garðinn, hold da kjæft mand! heyrðist í þeim, það er allt hvítt og svo hlógu þau eins og krakkarnir með snjóþoturnar.

Þetta bjargaði alveg kvöldinu mínu, þegar kokkurinn kom heim sagði hann mér frá manninum sem hann sá dreyfa salti á göturnar fyrr um daginn, ÁÐUR EN ÞAÐ SNJÓAÐI. Þá mundi ég líka eftir einum sem ég sá við ráðhústorgið sem gluðaði einhverju dularfullu hvítu dufti á göturnar. Mér hafði ekki dottið í hug að hann væri að salta. Hvernig er hægt að vera svona skynsamur alltaf, úff þessi þjóð...alltof skynsöm, dreyfir salti ÁÐUR en frostið kemur.

Í morgun sá ég mér til mikillar furðu að snjórinn tolldi þangað til í dag og nú er hitinn við rétt yfir frostmarki. Það er ekki hægt að segja að hér sé snjóþungi á eðlilegum mælikvarða, það er hægt að skrifa nafnið sitt í snjóinn með puttanum en alls ekki hægt að gera engill án þess að skemma snjógallann sinn. Ekki veit ég hvernig veðrið er utan kaupmannahafnar en kokkurinn var að senda mér skilaboð og segja mér að mjólkurbílnum seinki í dag vegna veðurs. Það hlýtur að vera allt á kafi þarna í mjólkurbýlasveitinni...

1 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Öss..ertu að segja að það séu forréttindi að hafa allt á kafi í snjó hér á Fróni?!?! Við hljótum að geta selt það hahahahaha...
Hlakka til að sjá ykkur um jólin víííí...
knúzz Svilan