Litháenski strákurinn hélt fyrirlestur í kúrsinum saga og stjórnmál Eystrasaltsríkjanna. Þessi fyrirlestur var voða fínn og fjallaði hann um fall Sovíetríkjanna og upprisu Eystrasaltsríkjanna, aðallega Litháens. Þessi þrjú ríki vilja voða lítið með hvort annað hafa og er samvinna þeirra miklu minni en maður hefði haldið. En í baráttunni fyrir sjálfstæði unnu þau saman og börðust friðsamlega, það var kallað the Baltic way eða leið Eystrasaltsríkjanna. Eftir fyrirlesturinn sýndi hann stutt myndband sem var tekið upp þegar íbúar landanna þriggja tóku sig saman og mynduðu röð þvert yfir öll löndin. Fólk hélst hönd í hönd á þjóðveginum frá Vilnius til Tallinn , þetta var einstaklega fallegt og táknrænt. Sérstaklega ef maður hefur í huga að samskipti þessara ríkja hafa verið stirð. Tvær milljónir manna héldust hönd í hönd í 600 kílómetra langri röð 23. ágúst 1989. Þessi dagur markaði 50 afmæli molotov-ribbentrop samningsins milli þjóðverja og rússa sem leiddi til yfirráða Sovétríkjanna í þessum löndum. Þetta gátu Eystrasaltsmenn sameinast um og ég heyrði fljótlega eftir að ég kom hingað að það eina sem þeir eru sammála um í dag er að samkynhneigð er viðbjóður og gyðingar líka. Allt annað rífast þeir um.
Nú sit ég inni á kaffihúsi að stikna úr hita í skammdegissólinni, hún skín eins og lög gera ráð fyrir beint í andlitið á mér og ég sé varla á skjáinn. Þetta er eitthvað sem ég þarf ekki að sakna að heiman, en það er samt alltaf sól þegar ég vakna. En talandi um haustið þá eru bæjarstarfsmenn hér fyrir utan að saga greinarnar af trjánum. Laufin eru að miklu leiti fallin en þessir gaurar eru að bæta um betur og saga bara allt heila klabbið af. Svo eftir verða bara svartir drumbar með greinastubba út í loftið, mjög í anda draugamynda. Skil samt ekkert af hverju þetta er gert.
Í kvöld er mér boðið í hrekkjavökumatarboð þar verður boðið upp á graskerspasta og graskersböku í eftirrétt. Ég hlakka mikið til að smakka herlegheitin en ég hjálpaði aðeins við undirbúninginn í gær og lítur þetta voða vel út. Alltaf þegar kemur að heimilisstörfum hér í Riga man ég að ég er elst í hópnum. Það er eins og stelpurnar hafi aldrei eldað áður á ævi sinni og hringdu þær í mæður sínar milli landa til að spyrja ýmissa spurninga. Ég gat leiðbeint þeim aðeins þó að ég hafi ekki viljað skipta mér of mikið af og þá létu þær eins og ég væri matreiðslusnillingur. Ég ákvað að skera til dæmis graskerið og kartöflurnar smátt svo það yrði fljótlegra að sjóða og það var eins og ég hefði gefið þeim uppskriftina að gulli. Fleiri svona yndisleg atvik áttu sér stað í gær en þrátt fyrir reynsluleysið þá tókst þeim bara ágætlega upp og hlakka ég til að borða í kvöld. Það verður einnig keppni í að skera út í grasker...ég ætla að vinna.
1 ummæli:
Þá fáum við myndir er það ekki af verlauna graskerinu og fleira dóti ef við verðum heppin. En er þetta svona amerikanserað þarna að það er öskudagur uppá amerískan máta.
Skrifa ummæli