þriðjudagur, 16. október 2007

leifar af sovíet

Er búin að vera á röltinu í næstum allan dag. Veðrið er svo indælt og fínt að ég bara gat ekki hugsað mér að fara inn. Ég rölti alltaf bara í gamla bænum þar sem fallegu húsin eru, skítt með að hann sé fullur af túristum. Kíki alltaf í búðir og heimsæki flíkurnar sem mig langar svo að kaupa en eru of dýrar. Langar svo í nýja skó en þeir eru strigaskór og kosta 13.000 krónur, já það er alveg hægt að finna dýra og fallega hluti hérna þó að ódýra ljóta dótið sé yfirgnæfandi.

Í gær heimsótti ég bókasafnið hér á horninu í fyrsta sinn. Þetta er aðalbókasafnið og bjóst ég við að geta hangið þar og kíkt í einhverjar skræður. Ég veit ekki hvað það á eftir að taka mig langan tíma að læra að hér er ekkert eins þægilegt og það gæti verið. Þegar ég kom inn á safnið gekk ég í gegnum einskonar skrifstofu og leit til beggja hliða en sá engar bækur svo ég gekk áfram. Eftir nokkrar sekúndur var kominn vörður á eftir mér og spurði hann mig hvað ég væri að gera. Ég sagði eins og var að ég væri komin til að kíkja á nokkrar bækur. Hann benti mér þá á að tala við konu sem sat við skrifborð en hún vildi ekkert við mig tala og benti mér á aðra konu. Sú kona spurði mig hvaða bækur ég vildi skoða. Ég vissi það ekkert því ég ætlaði bara að litast um í sögudeildinni og kannski félagsfræðideildinni. Nei það var ekki svo auðvelt. Ég þurfti að setjast niður við tölvu og leita að bókum þar og ef ég finn einhverja þá verð ég að skrifa titil og höfund niður á þar til gerðan snepil og rétta konunni. Hún myndi þá finna bókina fyrir mig og ég fengi líkast til að setjast einhvers staðar og lesa hana. Það er líka bannað að koma með töskur og yfirhafnir inn á bókasafnið og er kona niðri í bás sem geymir það fyrir mann. Ég á voðalega erfitt með svona kerfi en settist nú samt við tölvuna og reyndi að finna eitthvað en það var bara hægt að leita að titlum en ekki efni. Þessu verð ég að venjast líklega eins og öðru, bara eitt af mörgum póst-sovíetskum einkennum borgarinnar.

Í gær fór ég í bíó og sá Foreldra loksins. Ég fór ein og var það í fyrsta sinn sem ég geri það. Það var ótrúlega fínt og myndin var æðislega fín, ég veit ekki hvort það er vegna þess að ég var að horfa á íslenska mynd eða hvað. En ég skemmti mér mjög vel. Seinna um kvöldið fór ég á aðra mynd en hún var norsk og alls ekkert síðri.

Ég hafði loksins samband við kennara sem kenndi fyrir norðan en er fluttur til Riga og var hann voða ánægður að heyra í mér. Ég var nefnilega að biðja um hjálp við að finna efni fyrir skólann þar sem bókasafnskerfið er ekki alveg að vinna með mér eða öðrum útlendingum. Hann ætlar að bjóða mér í mat karlinn og væntanlega getur hjálpað mér þar sem hann er sagnfræðingur og ætti að vita ýmislegt um sögu eystrasaltsríkjanna. Hann er samt örugglega fyndasti kennari sem ég hef nokkurn tíma hitt, hann er þýskur og talar með rosalega miklum hreim. Ég hef ofsalega gaman að honum og hlakka mikið til að hitta hann og fjölskylduna hans. Hann heldur eins og margir aðrir kennarar á Akureyri að ég sé iðnasti nemandi í heimi svo ég verð aðeins að halda uppi ímyndinni. Það verður lítið mál!

3 ummæli:

Bára sagði...

Já fannst þér ekki gaman að fara ein í bíó? Það er mjög frelsandi :)
Ég er enn að hlæja af þér og þínum hreim, þú passar þig nú nálægt kennaranum. Best væri samt að þú tækir þetta upp og sendir mér. hehhehe.
Bið að heilsa Markusi og fjölskyldu. Góða skemmtun.

Nafnlaus sagði...

skór á 13.000 er pís of keik! þú sérð ekkert eftir því. maður hugsar frekar: oh af hverju var ég að splæsa staupi á alla á barnum í gær með kortinu hennar nönnu...? þannig að, ergó(!): kaupa skó og engin sorg bara gleðin af að horfa niður.
sjáumst sún :D

Nafnlaus sagði...

ónei! nanna er veik og kemst ekki með ... :( öömurlegt