Í gær fór ég í rosa fyndið matarboð. Kennarinn minn og kona hans buðu mér í mat ásamt lækni sem þau kynntust nýverið. Markús (kennarinn minn) þurfti nefnilega að fara í botnlangaskurð og þótti læknirinn svo fyndinn týpa að hann ákvað að bjóða honum í mat. Ég man ekkert hvað læknirinn heitir en hann hafði mikinn áhuga á að flytja til Íslands og ætlar Markus að reyna að hjálpa honum. Gaurinn átti rosa fensí Ipod sem var svona snertiIpod og eyddi hann góðum 20 mínútum í að sýna mér allt sem þessi æðislega græja inniheldur. Hann talaði voða mikið um fensí læknatól sem spítalinn hans hefur ekki efni á að kaupa og reyndi að fá okkur öll til að skipta yfir í apple-tölvur. Sem sagt algjör græjukarl og mun hann passa ágætlega inn í íslenskt samfélag hvað það varðar.
Í dag er þjóðhátíðardagur Letta og nú er í gangi skrúðganga sem ég ætti að vera að horfa á en er svo asskoti slöpp eitthvað (nei ég er ekki þunn). Ég heyri í sprengingum og efast ég um að það séu flugeldar þar sem ekki er farið að dimma enn. Skrúðgangan á að vera skipuð hermönnum, mér þykir allt þetta hermanna dót hérna svo spes. En auðvitað ef maður hugsar um sögu þessa lands þá er mikið um baráttu fyrir sjálfstæði og sjálfsmynd þjóðarinnar. Her er alltaf fínt tól til að þjappa saman þjóð, Björn Bjarnason meira að segja veit það. Um daginn var Lacplesis dagur sem er sérstakur dagur til minningar um fallna hermenn og til heiðurs hermanna almennt. Það var mikið húllumhæ í tengslum við þennan dag og áberandi meiri ölvun en aðra sunnudaga. Herinn virðist vera ansi tengdur sjálfsmynd Letta og minnir mig ósjálfrátt á Bandaríkjamenn.
Almenn ölvun er annað sem slær mig soldið hérna. Um helgar, bæði dag og nótt má sjá mikið af dauðadrukknu fólki. Aðallega karlmenn og eru þeir á öllum aldri. Það er ekkert vesen á þeim en bara sjáanlega ölvaðir og það finnst mér bara svo furðulegt. Þetta pirrar mig meira að segja pínu. Ég er að reyna að sjá menningarlega þáttinn í þessu og bera saman við furðulega hegðun annarra þjóða en ég kann samt ekki við þetta. Markús sagði mér að hér sé AA eiginlega óþekkt og hugmyndin um alkahólisma mjög fjarlæg ef ekki óþekkt. Fólk er bara fullt og sumir fullir soldið oft og mikið en alkahólistar eiginlega ekki til hér í landi. Fyrir mér er þetta bara ömurlegt en það gæti verið meðvirknin í mér ;). Við eigum svo mikið af fínum hugtökum til að útskýra allan fjandann kannski er það ekkert betra.
1 ummæli:
Mér finnst að þér megi bara finnast þetta ömurlegt án þess að það heiti eitthvað. Það er satt fólki má ekkert finnast án þess að það sé búið að skíra það og eitthvað sé athugavert við fólkið sálft maður á að umbera allan anskotann í hljóði það getur ekki verið í lagi.
Skrifa ummæli