mánudagur, 3. desember 2007

Ég er svo aldeilis skelfingar óskaplega hissa

Ég veit ekki af hverju þetta er að koma mér á óvart en svona er ég bara bjartsýn eða eitthvað. Mamma sendi mér afmælisgjöf og gerði það sirkabát viku fyrir afmælisdaginn, hún setti hana líka í forgang svona til þess að þetta kæmist örugglega til skila. Fyrir um það bil 5 dögum fékk ég tilkynningu um böggul á pósthúsinu. Ekki í frásögur færandi fyrir utan það hversu seint þessi tilkynning barst, mamma var meira að segja búin að kjafta í mig hvað ég fengi. Ég dembi mér í að sækja gjöfina fínu en pósthúsið mitt segir mér að ég verði að fara á flugvöllinn til að sækja pakkann.

Svolítið langt að fara en Valentina ætlaði að sækja hann fyrir mig þegar hún fór að sækja mömmu sína á flugvöllinn. En þá var pósthúsið lokað svo ég þurfti bara að drífa mig í dag. Mér fannst þetta nú nógu mikið vesen fyrir en óraði ekki fyrir því hversu rosalega mikið vesen þetta yrði. Ég hendist út á völl og var komin á mettíma eða um 30 mínutum en þá kemst ég að því að þetta var vitlaust pósthús. Ekki að örvænta rölti ég af stað á það rétta og tók það 20 mínútur, allt í góðu ennþá. Ég kem inn og sé að það er bara einn í röðinni á undan mér og hrósa happi yfir því. Það tók hálftíma að afgreiða manninn. Hinar konurnar voru voða uppteknar við að lesa blaðið og borða köku. Svo tekur konan við sneplinum mínum og byrjar þá yfirheyrslan: er þetta Pora einkaaðili eða fyrirtæki? Nei Pora er ég. Já já og þetta asdis er manneskja líka? já það er mamma. Augnablik segir hún og ég bíð á meðan hún tekur 3 kúnna fram fyrir mig.

Þegar konan loksins stendur upp til að ná í kassann byrjar önnur yfirheyrsla. Hvað er í pakkanum? og hvað kostaði það? Ég náttúrulega veit það ekkert alveg því þetta er afmælisgjöf, Kommonn!!! En ég held ró minni ótrúlegt en satt. Konan opnar pakkann minn og veit þá á undan mér hvað ég er að fá í afmælisgjöf. Hún útskýrir þá á endanum af hverju þetta er svona mikið maus. Það gleymdist að setja upphæð á pakkann og vegna þess að það má ekki flytja vörur sem kosta meira en 45 evrur frá íslandi til Lettlands. Hún sagði þetta nákvæmlega svona (nema náttúrulega á ensku með rosalega rússneskum hreim)frá Íslandi til lettlands má ekki senda dýrari hluti en 45 evrur án þess að borga toll.

Þegar hér er komið við sögu er konan farin að brosa og leggja sig fram við að vera kurteis sem gerist yfirleitt á endanum þar sem ég er farin að leggja það í vana minn að brosa breitt og vera ofurkurteis. Jæja nú er búið að staðfesta innihald pakkans, þegar hún lyfti upp harðfiskinum innpökkuðum kyrfilega í plastpoka og ég sagði mjög ákveðið: Þetta er pottþétt fiskur hló konan dátt. Við urðum barasta vinkonur held ég.
Ég þurfti næst að fylla út einhvert eyðublað á hinu borðinu hjá konunni sem ekki talaði ensku. Það var pínu erfitt því allt var á lettnesku á þessu eyðublaði en konan var voða næs líka og tók bara stúdentaskirteinið mitt og skrifaði allt fyrir mig. Ég var reyndar búin að standa eins og illa gerður hlutur fyrir framan skrifborðið hennar í dágóða stund þangað til að hún áttaði sig á því að eyðublaðið væri mér gjörsamlega ofviða. Ég verð að viðurkenna að ég var við það að bugast því það litla sem ég skildi var að ég átti að fylla út upplýsingar af vegabréfinu mínu. Ég beið eftir afgreiðslu skíthrædd um að verða skömmuð og send heim eftir réttum skilríkjum en mér til mikillar undrunar og ánægju dugði skólaskírteinið.

Nú er ég komin á netkaffi með pakkann góða að kæfa alla úr fýlu af harðfiskinum, að dást að nýju vettlingunum mínum og kjammsa á íslensku súkkulaði. Veiveivei allt erfiðið borgaði sig svo sannarlega. Takk fyrir mig mamma!

9 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Já sæll..

xxxx sagði...

já sæll, eigum við að ræða þetta eitthvað?

Nafnlaus sagði...

þú þarft greinilega að æfa þig betur í þessum óyrtu skilaboðum og lettneskri líkamstjáningu. það er ekki víst að harðfiskurinn sjarmi þjónustufólkið í hvert sinn

xxxx sagði...

hahaha ég ætla að skjóta á að sólveig hafi skrifað síðustu skilaboð. jújú óyrt skilaboð og líkamstjáning er víst samskiptaleið innfæddra. Ef sólveig byggi í lettlandi héti hún Sólveiga því öll stelpunöfn enda á -a og Kolbrún væri Kolbrúna og svo framvegis.

Nafnlaus sagði...

Jæja það er kannski eins gott að hinn pakkinn komst ekki alla leið þú hefðir verið tekin föst. Hann stoppaði í Köben og sneri við til Íslands. Hafði áhyggjur af bragðinu af súkkulaðinu eftir alla samveruna við fiskinn en það hefur reddast. Held ég reyni ekki að senda fleiri pakka kem sjálf næst. SJáumst kveðja mamma

Unknown sagði...

Va hvad tetta var fullkomin gjof, eg hlakka svo til ad borda hardfisk. Tad er ekki fraedilegur moguleiki ad eg megi borda hardfisk i namunda vid Phil, hann byrjar ad kugast og kugast. Mer finnst svona adeins vidkunnalegra ad borda tegar tad er enginn nalaegt sem kugast.

Ja, vaaa, hvad verdur gaman ad hittast um jolin. Eg er sko ad taka mer rosalegt fri (fra atvinnuleysi i London) verd heima alveg i trjar vikur... Get ekki bedid!

Unknown sagði...

Eg er nu samt komin med vinnu, er bara ekki byrjud...

xxxx sagði...

úhhh til hamingju með nýju vinnuna

Nafnlaus sagði...

jamm ég var með anonims skilaboðin nr.1

Sólveiga