laugardagur, 30. apríl 2011

maní og pedí !

Þá er liðin vika síðan stelpan mætti til Dhaka og innan við 3 vikur eftir sjííís og við eftir að fara til Cox's Basar og allt. Það er að reynast pínu erfitt að fá viðtöl við NGO-in (hjálparstarfsfélög) í Cox's Basar þar sem þau eru undir mjög miklu eftirliti frá ríkisstjórninni. Ríkisstjórnin vill enga krítík á það hvernig flóttamenn eru meðhöndlaðir og vill helst losna við hjálparstarfsfélögin. Félögin eru því mjög lítið áberandi þarna niðurfrá og starfsmenn virðast hissa á því að við vitum að þau séu starfrækt á svæðinu. Það verður því mjög spennandi að sjá hvort að við fáum einhver viðtöl á svæðinu en næsta vika fer í að reyna að ná í höfustöðvar hina ýmsu félaga hér í Dhaka. En ef við förum suður þá er þetta allt að verða ansi tæpt tímalega séð, tíminn bókstaflega flýgur.

En við erum nú samt búnar að taka okkur frí þessa helgi og reyna að skoða borgina aðeins. Helgin hefst á föstudegi og eru því sunnudagar eiginlega eins og mánudagar,pínu skrítið. Núna er nottla 1. maí á sunnudaginn og hann er opinber frídagur hér í landi, en það kom okkur dáldið á óvart. Í gær gerðum við heiðarlega tilraun til þess að finna indverska hverfið og hinn svo kallaða Nýja markað en það gekk ekkert sérstaklega vel. Við fundum hins vegar Lalbag Kella sem er garður sem er girtur steinveggjum og innan veggjanna eru nokkur grafhýsi sem voru byggð á öldum áður. Það er svo sem ekkert í frásögur færandi annað en þar urðum við allt í einu aðal attraksjónið, útlendingar í Dhaka. Fólk gekk upp að okkur og bað um að taka myndir af okkur og aðrir tóku bara myndir úr fjarlægð en við vöktum mikla athygli. Meira að segja aðrir túristar tóku myndir af okkur. Mjög sérstök upplifun, pínu svona eins og Madonna bara! ha? haldiði að það sé? Það er alls staðar horft á okkur en þetta var aðeins meira en venjulega.

En ferðafélagi minn er orðin lasin og urðum við því frá að hverfa í gær úr rykinu og hávaðanum og fórum við bara snemma að sofa sem var mjög gott. Í dag fórum við aðeins styttra en líka í leit að markaði og fundum hann. En eftir markaðinn, tatatatammm, fór ég í maní og pedí (hand- og fótsnyrtingu). jiii hvað það var skrítið og ekkert sérstaklega þægilegt en ég er voða fín núna og verð sjálfsagt í svona tíu mínútur í viðbót. En fyrir utan að þjala, raspa og skrúbba var öllum skönkum dýft í vax, svona doldið eins og kertavax, brennandi heitt kertavax. Eftir það var þeim pakkað inn í plastfilmu og sat ég þannig í sirka 10 mínútur og það sem mig klæjaði rosalega í nefið, úff.

Á snyrtistofunni hittum við unga stúlku sem var ægilega sæt og skemmtileg og ákváðum við að fara með henni í hádegismat. Hún sagði okkur að hún væri búin með B.A. próf og stefndi á meistaranám en foreldrar hennar væru ekkert sérstaklega hrifin af því vegna þess að hún á að gifta sig. Hún á kærasta sem hún er búin að vera í fjarbúð með í 5 ár en hann býr í öðrum bæ í nokkurra klukkutíma fjarlægð. Í hvert skipti sem hún fer heim suða foreldrar hennar í henni að fara nú að gifta sig en hana langar það ekki svo hún hætti bara að heimsækja þau, helvíti fínt.

Núna erum við bara komnar aftur heim og ferðafélaginn að leggja sig sem mér finnst bara fínt, ég hef ofsalega litla orku í að vera úti í þessum hávaða en það hlýtur nú að fara að venjast, ha? er þaggi? þetta segi ég við mig á hverjum degi, já kannski daginn áður en við förum venst ég þessu.

Engin ummæli: