þriðjudagur, 9. október 2007

Haustið komið í Riga

Hér rignir enn og inn á milli má greina haglél. Mér var svo kalt í morgun að ég setti upp vettlinga sem hafa ekki verið notaðir síðan á Akureyri. En talandi um þann ágæta bæ þá hitti ég nokkra Akureyringa um helgina sem komu í skemmtiferð beint frá Akureyrarflugvelli. Fyndið hvað það er auðvelt að þekkja Íslendinga alltaf, ég var búin að glápa á þau í smá stund fyrir framan lyftuna upp á 26. hæð á fínasta hótelinu hér í bæ þegar ég heyrði að þau voru íslensk. Þau þekktu auðvitað hana Herdísi mína sem við var að búast þar sem hún virðist þekkja alla fyrir norðan.

Helgin var æðisleg þrátt fyrir að plönin hafi farið fyrir lítið. Við fórum ekki til Sigulda á bobsleða, ekki í dýragarðinn og occupational safninu var lokað áður en við náðum að finna bréfið hans Jóns Baldvins. Við náðum ekki einu sinni markaðnum áður en honum var lokað. Þetta var letilíf og líkaði okkur vel. Gesturinn minn kom víst til að hitta mig en ekki Riga sem er náttúrulega mjög skiljanlegt...ekki satt?

Í kvöld var ákveðið að storma á Gus Gus tónleika sem verða haldnir næstu helgi og vona ég bara að þau standi undir nafni. Á spjallvefum hér í borg eru fjöllistahópurinn lofaður í hástert og mætti halda að um konunga elektróniskrar tónlistar væri að ræða. Vinir mínir þekkja bandið ekkert fyrir utan Hauke en eru samt sem áður rosa spennt.

Félagslífið er soldið að trufla námið en ég hef ákveðið að snúa við blaðinu og fara að taka þetta föstum tökum. Kúrsarnir eru ekki alveg það sem ég hefði valið heima en ágætir samt sem áður. Ég er orðin dálítið leið á því að vera alltaf úti að aka og skila lélegum ritgerðum jafnvel degi of seint. Á bara svolítið erfitt með að finna mótívasjón þar sem ég er í frekar fáum og auðveldum kúrsum. Ritgerðirnar eru skrifaðar á handahlaupum en ég er samt að fá fínustu einkunnir fyrir þær. Fólk er að fá 3 og 4 svo það virðist ekkert sjálfgefið að fá góðar einkunnir (ég kíkti á nokkrar þegar ég var að leita að mínum í dag). En það er leiðinlegt að lulla hugsunarlaust í gegnum þetta svo ég ætla núna að verða fyrirmyndarnemandi á ný, mér tókst það fyrir norðan svo ég hlýt að geta það hér líka.

Í dag keypti ég eriku í eldhúsið svo nú er orðið örlítið heimilislegra um að litast. Ég held að ég muni reyna að finna fleiri plöntur og jafnvel plaköt eða myndir á veggina til að gera íbúðina aðeins Þórulegri. Hún er svolítið eins og skandinavískt farfuglaheimili núna. En ég verð að taka myndir af ljósakrónunum bráðum og sýna ykkur því þær eru svo fyndnar, engin eins og hver annarri ljótari.

bless

4 ummæli:

mamma sagði...

Bara svo þér finnist þú ekki ein í heiminum. Kvitta fyrir mig.

mamma sagði...

p.s. bíð spennt eftir nýjum myndum

Nafnlaus sagði...

hæ hæ erum hjá ömmu kollu og afa haffaí pössun í 1. dag og gistum 1. nótt því mamma og pabbi eru í afmælisveislu hjá Palla frænda, en erum reyndar bara að leika okkur núna, Diljá og Erna eru í heimsókn og fara þegar við förum að sofa. Hlökkum til að sjá þig :0)
kv.Kolbrún og Sólveig

xxxx sagði...

hæ sætu stelpur, en gaman að fá að gista hjá ömmu kollu og afa haffa. er amma búin að segja ykkur söguna af búkollu. hún er rosa fyndin þegar hún leikur búkollu. hlakka til að sjá ykkur líka. kveðja, stóra systir