Þegar ég var aðeins yngri en ég er núna eða þegar ég var enn í Kvennó fékk ég vinnu hjá Garðyrkjudeild Reykjavíkurborgar. Amma var að vinna á skrifstofunni og sagði mér frá æðislega kósý vinnu þar. Starfið fól í sér að hjóla um allan bæ og skoða hús og garða í þeim tilgangi að halda borginni fallegri. Við áttum nefnilega að setja miða í lúguna hjá hverjum þeim sem hafði trassað garðinn sinn eða viðhald á húsi. Þetta er pínu spes ég veit, en þetta var á einhvern hátt undir sama apparati borgarinnar sem velur fegurstu götu borgarinnar á ári hverju (Fegrunarnefnd).
Sólveig bættist í lið Fegrunarnefndar eftir að ég hafði verið þar eitt sumar. Við hjóluðum saman um allan bæ með sérhönnuðu Fegrunarnefndarblokkirnar og skrifuðum athugasemdir sem féllu í misgóðan jarðveg húseigenda. Það var svo símatími í hádeginu þar sem fólkið gat hringt inn og kvartað undan þessum miðum eða komið með hvers konar athugasemdir. Fólk hringdi nú ekki mikið en hjartað tók kipp í hvert sinn þar sem við máttum búast við allskyns reiðilestri og lái nú hver sem vill húseiganda sem fær miða þar sem honum er sagt að slá garðinn sinn að hann verði reiður. Einhver talaði um stalinisma en aðrir bentu nú á að nágranninn væri miklu verri.
Þó að símtölin væru óþægileg fannst okkur erfiðari tilhugsun ef við myndum mæta íbúa í þann mund sem við vorum að setja miða inn um lúguna. Við vorum satt best að segja mjög kvíðnar því og hlupum yfirleitt eins hratt og við gátum og fleygðum okkur á hjólin í svona gettavei eins og sjá má í bíómyndunum. Til þess að róa taugarnar örlítið bjuggum við til plan, maður þarf alltaf að hafa plan. Þetta var kannski í meira gríni en alvöru en samt sem áður hjálpaði okkur að vita að við gætum þóst vera að heimsækja einhvern í húsinu ef við yrðum gripnar glóðvolgar. Þá myndum við bara spyrja er blabla heima? þá fengjum við svarið nei hann býr ekki hér og gætum lagt á flótta. Mjög gott plan.
En við sáum samt strax fyrir ákveðið vandamál... hvað ef það býr einhver í húsinu með að nafni blabla ? (ekki í alvöru blabla heldur eitthvað nafn sem við værum búnar að ákveða skiluru) þá fengjum við svarið: já augnablik. Þetta var ekki mjög aðlaðandi tilhugsun og þá værum við lentar í enn meiri bobba en ef við hefðum bara rétt bölvaðan miðann og sagt viðkomandi að reita arfann. Það var ljóst að hér var aðeins eitt í stöðunni...við urðum að finna nógu helvíti (afsakið orðbragðið) óalgengt nafn, bara nafn sem enginn heitir í alvörunni en er samt alveg til. Eftir miklar bollaleggingar komumst við að niðurstöðu með nafn og vorum þá til í slaginn.
Nú rétt í þessu var ég að lesa grein á mbl (sorrý kann ekki að setja svona linka inn) en þar kom fram að hann Friðbert Traustason sem er framkvæmdastjóri samtaka starfsmanna fjármálafyrirtækja er alveg steinhissa á öllum uppsögnunum hjá Glitni. Ég las fyrstu setninguna og hugsaði með mér: sjúkk að ég var ekki á tröppunum heima hjá honum þegar ég fékk tækifæri til þess að framkvæma planið mikla (mætti gamalli konu þegar ég var í þann mund að troða svona snepli í lúguna, hún horfði á mig eins og ég væri þroskaheft þegar ég spurði eftir Friðberti).
1 ummæli:
Þið hefðuð bara horft í augun á Friðberti ef hann hefði komið til dyra og sagt: Takktu til í fokkins garinum þínum mar´
Skrifa ummæli