þriðjudagur, 10. júní 2008

Skatturinn, Skadestuen og Tivolí

Það er loksins farið að kólna! Það rigndi meira að segja smá í morgun. Ég er alls enginn sólardýrkandi, því hef ég svo sannarlega komist að síðustu vikur. Hitinn hefur farið stigvaxandi undanfarna viku og náði hámarki á sunnudaginn, Sjitt hvað það var heitt!! (afsakið orðbragðið). Ég er skaðbrunnin á öxlum og baki, mér tekst þetta alltaf þó ég noti sólarvörn puh!

Ég er búin að fá tvö dönsk símtöl í dag, geri aðrir betur. Hann Rasmus nýji yfirmaðurinn minn hringdi klukkan 9 (danska í morgunsárið svíkur engan) til að segja mér hvenær ég byrja og svona. Hann er greinilega vanur að tala við útlendinga og þau öll sem töluðu við mig í viðtalinu því ég skil allt sem þau segja. Hann Erik hjá skatta-eitthvað hringdi líka og hann skildi ég bara alls ekki! gvuðð hvað þetta var fyndið símtal. Fyrst hélt ég að hann væri að bjóða mér vinnu, svo hélt ég að hann ætlaði að senda mér skattkort en svo komumst við að þeirri niðurstöðu að ég myndi bara hringja þegar ég vissi meira um þessa vinnu sem ég er búin að fá. Hann vildi fá einhverja prósentu og dagsetningu, svona eftir á að hyggja get ég alveg ímyndað mér að hann hafi viljað vita hvenær ég ætlaði að byrja og hversu stórt starfshlutfall mitt yrði en það bara gerðist allt svo hratt. Við vorum bæði farin að flissa í lok símtals.

Helgin var fín, foreldrar kokksins komu með frænkur til að versla og fara í tívolí. Það er ekki hægt að segja annað en að markmiðin hafi verið uppfyllt með sóma. Ég missti af verslunaræðinu sem greip stelpurnar í HM þar sem ég beið á skadestuen eftir að fá pensilín. Náði mér í smá sýkingu í fótinn, panikkaði og hljóp á slysó (ég meina það var komin rauð lína þvert yfir ristina á mér og eins og allir vita er það merki um yfirvofandi dauða). En við hittum þau öll í tívolíinu á laugardaginn og þar voru tækin prófuð hvert á fætur öðru. Stelpan sem þetta ritar lét að sjálfsögðu ekkert stöðva sig í að prófa öll hættulegustu tækin frekar en venjulega (iiiii glætan!).

Djöfull hafa tækin stækkað síðan ég var þarna síðast maður! Ég sá töfrateppið gamla sem amma fór í á meðan ég geymdi veskið hennar hérna í denn. Það leit út eins og smábarna-tæki við hliðina á þessum hrikalega fallturni, rússíbana og himnaskipi (sem eru bara rólur sem hífðar eru upp í hæð sem ekki er ætluð mannfólki og svo danglar fólk þarna í heillangan tíma og snýst í hringi). Síðast þegar ég fór í Tívolí var það með Hafdísi, Stulla og Ömmu Kollu (og einhverjum fleirum ég man ekki hverjum) og ég lýg því ekki Amma fór í fleiri tæki en ég. Þá lét ég klessubílana og parísarhjólið nægja, þá uppgötvaði ég líka lofthræðslu mína svo núna lét ég tækin bara alveg eiga sig. Meistarakokksmóðir fór í litla rússibanann og ráðlagði mér að vera bara ekkert að þessu, ég tók þeim ráðlagningum enda hlýðin stelpa.

2 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Mikið er ég fegin að ég er ekki eina lofthrædda kellingin í familiunni hahahahah...
Miss U
Svilan

Bára sagði...

He he það er greinilega bara ævintýraheimur þarna í DK :o)
Skil þig vel með þessa fóbíu fyrir tækjunum, ég tók þetta allt út þegar ég var yngri. Tek það fram að ég lofaði æðri máttarvöldum að ef ég kæmist lifandi út úr rússíbananum í Tívolíinu þá ætlaði ég aldrei aftur að fara í svona tæki. Hef næstum því alltaf farið eftir því. Litli bróðir minn skipti litum eftir að hafa farið í tækið (man samt ekki hvort það hafi verið þessi sami rússíbani eða ekki).
Magnea fer ein í þessi stóru tæki og finnst það æði. Ekkert mál að fara í eitt stykki fallturn :-S skil þetta ekki.
Hvenær byrjarðu svo að vinna? Vonandi rignir bara sem mest í DK og við fáum smá hita og fínheit.
knús