föstudagur, 29. ágúst 2008

Sjálfstæðisbrölt

Við létum loks verða af því að kaupa rúm undir dýnuna sem við erum búin að sofa á síðustu þrjá mánuði. Meistarakokki þótti ekki sómi að því að láta tengdamóður sína sjá að stelpan svæfi á gólfinu. Mömmur okkar beggja verða hér um næstu helgi. Mér fundust þessar áhyggjur fyndnar og krúttlegar en á sama tíma rosa ánægð að við höfðum þetta af loksins.

Herlegheitin voru versluð í Ikea en auk þess að fjárfesta í rúmi voru kommóða, fataprestur og ýmislegt smálegt keypt. Þegar dótið var komið í hús tók við samsetning og þá rann upp fyrir mér helsti munur þess að vera einhleyp og vera farin að búa. Hann setti allt heila klabbið saman á meðan ég sat og rétti honum skrúfur. Hér áður fyrr gerði ég allt svona sjálf eða hringdi í mömmu til að biðja um hjálp. Jiii hvað þetta var skrítið, ég vissi ekkert hvað ég átti af mér að gera á meðan.

Í stað þess að vera létt og guðslifandi fegin að vera laus við þetta puð eins og ég hefði haldið að ég yrði fann ég til vanmáttarkenndar. Mér fannst ég ekki vera að leggja mitt af mörkum til heimilisins og ákvað því að elda (sem gerist mjög sjaldan) til að vera ekki alveg gagnslaus. Þegar meistarakokkurinn hafði lokið við að skrúfa saman rúmið heimtaði ég að setja saman fataprestinn bara til að friða samviskuna mína. Þegar það gekk svo ekki alveg sem skildi reyndi krúttið að hjálpa mér og þá gelti ég á hann og sagðist nú bara alveg geta þetta sko! En klemmdi mig svo og rétti stráksa bara skrúfjárnið gjörsamlega buguð.

Mikið ferlega þótti mér þetta skrítin tilfinning, mér fannst vegið að sjálfstæði mínu. Er þetta tilfinningin sem dr. Phil talar um þegar karlarnir í þættinum hans vilja ekki leyfa konunum sínum að vinna úti? Sjálfstæðið mitt var alla vega það sem mér þótti vænst um þegar ég var súper-einhleypingur. Það hefur samt ekkert horfið sko, ég þarf bara að minna mig á það stundum að ég get alveg sjálf þó að ég fái hjálp núna. Þetta heitir víst samvinna.

Annars flaug þessi tilfinning út um gluggann þegar ég lagðist til hvílu, þvílíkur munur! Eins og ég sagði þá erum við búin að sofa á dýnu síðan við fluttum á Valmúgann en ég var bara sátt. Þegar rúmið er komið uppgötva samt ég hvað dýnan var óþægileg ein og sér, ég svaf til hádegis í fyrsta sinn síðan ég kom hingað.

Til þess að rétta aðeins af jafnréttishallann sem varð hér í gær ákvað ég að eiga bláu inniskóna og gaf meistarakokknum þá bleiku.

3 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Já elskan ég hef kennt þér skrýtna hluti:) Njóta lífsins! Er orðin spennt farin að sjá eftir því strax að stoppa ekki lengur. kv mamma

Nafnlaus sagði...

Awww "setplásturástoltiðogklappaábak" kannast alveg við þetta þegar ég fór að búa aftur hehe ;) en veistu þetta er alveg ágætt þegar maður er komin yfir það versta hahahaha...
knús frá mér
Svilan

solveig sagði...

já hann dr phil veit sko hvað hann syngur