mánudagur, 2. maí 2011

Leidís först

Við höfum lært örfáa bangladesíska siði síðan við komum, ekki mjög marga bara nokkra. Það fyrsta sem ég rakst á tíðkast reyndar kannski ekki bara hér en það er samþykki nikkið. Það er svona hliðar nikk og þá halla þau höfðinu til beggja hliða til að segja: já einmitt. Ég var pínu lengi að taka við mér en ferðafélaginn minn hefur séð þetta fyrirbæri áður. En ég hélt alltaf áfram að spyrja og fékk, að mér fannst, engin viðbrögð. Ég hreinlega sá ekki þennan fídus með höfuðið. Þetta er mjög krúttlegt og skemmtilegt en við erum báðar farnar að gera þetta bara ósjálfrátt út í loftið á kolvitlausum stöðum.

Annar siður er nokkuð sem við höfum rekist á þegar við förum út að borða en það er til siðs að mata hvort annað, alla vega fyrsta bitann. Við sáum strákana gera þetta við stelpurnar, tóku hrísgrjónahrúgu eða brauð með sósu á og tróðu uppí stelpurnar alveg eins og þeim væri borgað fyrir það. Við hinsvegar lærðum þetta þegar við fórum í hádegismat með stelpunni sem við kynntumst á snyrtistofunni. Hún teygði sig yfir borðið og stakk uppí okkur chapati brauði með kjúllakorma á. Við urðum pínu hvumsa en þar sem við höfðum séð þetta áður urðum við ekkert hræddar eða svoleiðis sko. Stelpan, (sem ég get ekki munað hvað heitir en það er alltílæ því hún man ekkert hvað ég heiti) útskýrði svo fyrir okkur að þetta væri svona aðdáunarmerki eða mér þykir vænt um þig merki. Pínu krúttlegt en aðallega óþægilegt.

En uppáhalds siðurinn er án efa "ladies first" siðurinn. Við fórum á lestarstöðina til að kaupa miða til að komast suðurábóginn og stóðum í first class röðinni (ekkert minna dugir okkur) þegar strákar í næstu röð kölluðu yfir til okkar: LADIES FIRST og bentu í átt að afgreiðslumanninum. Við urðum pínu feimnar og þorðum ekki að hlýða, sérstaklega þegar karlinn fyrir framan okkur skammaði strákana (að því er okkur virtist). En svo eftir fáeinar mínútur kom önnur kona (nóta bene lestarstöðin var full af karlmönnum) og fór bara beinustu leið fram fyrir og keypti sinn miða. Okkur var þá ekki til setunnar boðið og óðum bara beint á eftir henni og krúttkarlinn sem var fremstur brosti til okkar og sagði bara: ladies first. Við brostum á móti hinar kátustu og keyptum first class miðann okkar.

Annað er nú ekki í fréttum góðir hálsar svo ég bara kveð að sinni, bæjó

Engin ummæli: