mánudagur, 23. maí 2011

Flóttamannabúðir
Eftirfarandi pistill er skrifaður daginn sem við fórum í óopinberu flóttamannabúðirnar í Cox’s Bazar. Við fórum í tvær búðir en slepptum nokkrum því þetta var bara of erfitt og ekki alveg hættulaust. En ég þorði ekki að birta þetta fyrr en ég væri komin úr landi, ég veit að það hljómar fáranlega og þetta er sjálfsagt nett paranoja en það verður að hafa það. Við heyrðum svo margar sögur frá fólki sem bað okkur að fara varlega bæði okkar vegna og þeirra vegna. En hér kemur sagan:

11. Maí, 2011

Dagurinn í dag hefur svo sannarlega verið viðburðaríkur á margan hátt. Við höfðum fyrr í vikunni fengið símanúmer hjá manni sem tekur að sér að fara með útlendinga að skoða flóttamannabúðirnar í nágrenninu (pínu spes starf). Við höfðum svo pantað hann í dag og æddum af stað í morgun, fengum leigðan bíl og bílstjóra með. Það tók ekki nema sirka 45 mínútur að komast að fyrstu búðunum. Við höfum ekki fengið formlegt leyfi til að heimsækja formlegu búðirnar sem eru vaktaðar með öryggisvörðum svo við fórum bara á hin svökölluðu makeshift svæði. En í búðunum búa um það bil 25 þúsund manns en á svæðunum sem eru 3 búa sirka bát 200.000 manns. Það var því eiginlega mikilvægara að sjá hvernig meirihluti fólksins býr.

Það er eiginlega ekki hægt að lýsa því hvernig þetta var, húsin eru skrifli úr bambus og plastpokum og eru þau öll í ofan í hverju öðru. Það er einhvers konar skipulag á búðunum en við heimsóttum bara hluta þeirra og hittum við búðastjórann og aðstoðar búðastjórann strax við innganginn. Hvert svæði hefur stjóra og hvert hlutverk hans er veit ég ekki og fréttum við reyndar seinna að þetta stjórakerfi væri gerspillt og meirihluti flóttamannanna undir hæl stjóranna.

Við fengum að sjá "skólastofu" þar sem nokkrir flóttamannanna hafa tekið að sér að kennslu gegn greiðslu. Börnin voru forvitin og alls staðar þar sem við komum kölluðu þau á eftir okkur bæ og thank you sem eru sjálfsagt einu orðin sem þau þekkja á ensku. Þeim þótti ofsalega gaman þegar ég tók af þeim myndir og sýndi þeim á skjánum. Þau voru flest með einkenni vannæringar og einhvern húðsjúkdóm en voru ofsalega brosmild sem var örlítið hjartaskerandi (er það orð?).


Um leið og við komum inn í búðirnar náði strákur sambandi við mig og hann talaði fína ensku. Hann spjallaði heilmikið við mig og bað mig vinsamlegast um að reyna allt sem ég get til að hjálpa. Ef ég gæti bara sagt einhverjum sem getur hjálpað þeim frá ástandinu og hvernig yfirvöld bæði í Búrma og Bangladesh ofsækja þau og þá kannski myndi eitthvað breytast. Þegar þarna var komið við sögu var ég næstum hlaupin skælandi inn í bíl aftur en ég hafði það af að labba lengra og skoða aðstæður sem voru vægast sagt hræðilegar. Vatnið sem þau drekka og nota til eldunnar er úr brunni og er grágrænt á litinn. Það voru dýr á vappi þarna svo eitthvað prótín fá þau en það er ekki mikið. Þetta voru vægast sagt ömurlegar aðstæður og því lengra sem við gengum og því fleira fólk sem við hittum því oftar vorum við beðnar um að gera allt sem við getum til að hjálpa. Ég get eiginlega ekki líst vanmáttartilfinningunni sem greip mig og ég virðist ekki getað losnað við.

Þetta mál er ofsalega viðkvæmt fyrir ríkisstjórnina og megum við ekki vitna í neitt af því fólki sem við töluðum við og gerir það okkur frekar erfitt fyrir en við verðum að virða það. Við gætum skaðað meira en hjálpað ef við förum að básúna út um allt hvað fólk er að segja okkur og gera fyrir flóttamennina. Alþjóðlegu hjálparstarfi er gert mjög erfitt um vik og erfitt fyrir hjálparstarfsfólk að veita óskráðu flóttamönnunum aðstoð. Til þess að fá vinnufrið setja flest samtakanna á svæðinu upp verkefni sem dekkar þá bæði flóttamennina og lókal fólk, ríkisstjórnin og sveitarfélögin sjá sér hag í því að innfæddir fái fría læknisþjónustu og menntun frá alþjóðlegum hjálparstarfsamtökum. Þó að þetta sé gert þá eru margar hindranir og var eitt samtakanna að gefa út þá tilkynningu að þau muni hætta störfum og ekki hefja þau aftur nema þau fái frið til að vinna en hvorki starfsfólk né flóttamenn eru örugg og það er óásættanlegt.

Það er enginn pólítískur vilji til að taka á málum flóttamanna og þegar við spyrjum hvers vegna fáum við þau svör að Bangladesh eigi við fleiri vandamál að stríða og hafi ekki tök á því að taka við flóttamönnum. Það reyndar útskýrir ekki af hverju erlend hjálparsamtök fá ekki leyfi til að vinna á svæðinu því það er ekki á kostnað Bangladesh. Stærstu orsakir þess að flóttamennirnir fá mannréttindum sínum ekki fullnægt er spillingin í landinu, fátækt og ofsalega slæmur infrastrúktúr. Það sorglegasta er að það er engin lausn í sjónmáli.

1 ummæli:

solveig sagði...

Mér finnst þú algjör hetja að hafa komist í gegnum þetta. Hér dást allir mínir nánustu að mér fyrir að hafa getað keyrt ein í bílaleigubíl frá Malaga til Granada á Spáni... þau eru alveg að missa af Stóra samhenginu. úff.. vanmættið er algjört