Jæja elskurnar mínar það held ég að sé kominn tími á blogg. Í fréttum er það helst að ég er komin suður til Cox's Bazar en það er vinsælasti ferðamannastaður þeirra Bengala. Við komumst þar við illan leik á aðfaranótt laugardags, en það sem átti að vera vera 10 tíma ferðalag endaði í svona sirka 18 tímum. Þess skal getið að við vorum að ferðast svona 250 kílómetra. Þetta var ekki stuð og þess vegna ætla ég ekki að eyða fleiri orðum í þessa rútuferð dauðans.
Við mættum í bæinn um miðja nótt og hentumst þess vegna inn á fyrsta hótelið sem við sáum og höfðum við rútustarfsmanninn með í för. Hann var svo elskulegur að taka okkur upp á sína arma þegar honum var tjáð að við værum ekki með pantað neins staðar og sá okkur rýna í Lonely Planet bókina okkar. Fyrsta hótelið var sko ekki kræsilegt en á meðan við biðum eftir því að stórskrítni consíersinn athugaði með herbergi tölti rotta yfir gólfið. Þið sem ekki þekkið hinar ýmsu núrósur og fóbíur stelpunnar megið vita það að henni var ekki skemmt. En sökum þreytu orkaði ég ekki annað en að setja fæturnar upp á borð og grípa um eyrun, þetta þótti rútustarfsmanninum frekar fyndið. Þetta var nottla bara rotta, hvaða væll er þetta. Það versta er að þetta er ekki einu sinni eina rottan sem ég hef rekist á hér í bæ. Það var önnur á ressanum sem við borðuðum á fyrsta kvöldið en þá var ég úthvíld og gat sko demonstrerað alvöru viðbrögð. Ferðafélaginn minn sem hefur nú kynnst því af alvöru hversu taugaveikluð týpa ég er fékk þarna fyrst að kynnast því hvers ég er megnug í þeim málum. En ég borðaði nú samt.
En síðan þá hef ég ekki séð rottu en hins vegar farið frá einu hóteli til annars og loksins núna erum við á rosalega fínu hóteli með öllu tilheyrandi. Við erum líka búnar að fá fleiri viðtöl og allt að gerast, ég verð víst að éta það ofan í mig með gaura sem vinna hjá Sameinuðu Þjóðunum því sá sem við hittum hér er algjör elska. Hann ætlar líka að bjóða okkur út að borða annað kvöld, ligga ligga lái.
Hér í borg eru allir álíka hressir og í Dhaka en virðast margir hverjir enn spenntari fyrir útlendingum. Það er erfitt að komast á milli staða þar sem við völdum umferðarteppum alls staðar og í dag tókst ferðafélaganum að valda fyrsta árekstrinum. En það hafði legið í loftinu lengi. Þetta var ekkert stór árekstur bara svona þríhjólataxi sem nuddaðist uppí reiðhjól með kassa í eftirdragi. En fólk stoppar bara og gónir og hirðir ekkert um hver eða hvað er fyrir aftan.
Flestir góna bara en svo eru sumir sem heilsa: Good afternoon mam, how are you? ég: fine thanks how are you? good mam thank you, what country? Iceland, aah thank you mam og svo ganga sína leið. Þetta samtal hef ég átt svona þrjúhundruð þúsund sinnum síðan ég kom til Bangladesh og svona tvöhundruð og fimmtíu þúsund sinnum hér í Cox's. Það er alveg huggulegt og allt það en þegar það er orðið erfitt að fara yfir götu því það eru fimm gaurar, tveir rikshaw og einn þríhjólabíll að reyna að ná athygli minni þá verð ég pínu pirruð. En það er um að gera að tapa ekki gleðinni og brosa, þá verða allir glaðir og brosa á móti.
Annars gengur allt voða vel bara, áttum alveg rosalega fínt viðtal í dag og ætlum að reyna flóttamannabúðirnar á morgun. Stuð Stuð Stuð.
bæjó
1 ummæli:
Vá hvað þetta er spennandi hjá ykkur. En ég vona að þú eigir ekki eftir að hitta margar rottur í viðbót. Hlakka til að lesa meira og sjá fleiri myndir úr ferðinni.
Gangi ykkur vel
kv. Lósý
Skrifa ummæli