laugardagur, 28. maí 2011

Skemmtilegt andartak























Mér er farið að þykja svo vænt um þessa mynd og þá sérstaklega eftir að ég kom heim. Ég skoða hana oft og þá rifjast upp fyrir mér þetta andartak þegar ég tók myndina. Við vorum búnar að fara á fyrsta flóttamannasvæðið og höfðum ákveðið að fara bara heim aftur en þá gafst okkur tækifæri til að hitta Lækni sem vinnur fyrir Muslim Aid í læknamiðstöð sem er staðsett mjög strategískt við eitt flóttamannasvæðanna. Það var að sjálfsögðu mjög mikilvægt að fara og hitta þennan mann en það þýddi klukkutími í viðbót í bílnum á sveitavegum sem voru hlykkjóttir og alls skonar ökutæki að keyra á öfugum vegarhelmingi á blindhæðum og 90 gráðu beygjum. Við ætluðum alltaf að reyna að ná á þennan lækni í bænum en þarna gafst tækifæri til að sjá læknamiðstöðina og tala við hann í leiðinni, eftir diskúsjón sem ég tapaði ákváðum við að leggja þennan klukkutíma krók á okkur. Ég var ekki kát, bæði vegna þess að ég vissi að ferðafélaginn hafði rétt fyrir sér en líka vegna þess að ég tapa eiginlega öllum diskusjónum við hana. Sem sagt almenn fýla í gangi, en það var reyndar ekkert slæmt því ég var svo reið að ég gleymdi að vera hrædd í bílnum (en við segjum henni ekkert frá því).

Þegar við vorum komin í bæinn þar sem læknamiðstöðin var þurftum við aðeins að bíða eftir lækninum sem síðan lóðsaði okkur að miðstöðinni. Á meðan við biðum, sat ég inni í bíl að reyna að einbeita mér að því að vera í fýlu og ferðafélaginn var úti að tala við börn sem hópuðust að. En þar sem ég sat þarna í fýlukasti sé ég lítinn snáða nálgast bílinn mjög varfærnislega, rúðurnar aftur í voru skyggðar svo hann sá mig ekki utan frá en hann var viss um að það væri eitthvað merkilegt inni í bílnum. Hann læðist að bílnum og þarf að standa á tánum til að sjá inn um gluggann, hann lætur eins og hann sjái ekki bílstjórann sem er nottla bara Bengali og ekkert merkilegur en kemur auga á mig. Í fyrstu er hann grafalvarlegur á svip og gónir á mig, ég reyni að fá viðbrögð frá honum með því að brosa, veifa, geifla mig og ulla á hann en ekkert gengur. Hann bara horfir á mig dolfallinn, við horfumst í augu í dágóða stund og hann virðir mig fyrir sér rétt eins og hann væri í dýragarði að skoða pandabjörn eða eitthvað álíka sjaldgæft dýr.

Eftir smá stund ákveð ég að taka upp myndavélina og taka af honum mynd. Um leið og hann sér myndavélina kemur þetta krúttlega, prakkaralega glott og eru það fyrstu viðbrögðin sem ég fæ frá honum. Ég sýni honum myndina á vélinni og þá fer hann að skellihlægja og hleypur fljótlega eftir það í burtu. Á þessari stundu var mér gjörsamlega fyrirmunað að halda fýlunni áfram en þetta var eitthvað það skemmtilegasta andartak sem ég upplifaði í þessari ferð. Ég veit ekki af hverju mér þykir svona vænt um þessa minningu en mig langaði bara að deila henni með ykkur.

Engin ummæli: