föstudagur, 28. september 2007

Póst-sovíetskir tímar

Riga er voða hrein borg og hvergi rusl að sjá á götunum, þetta er ekki vegna þess að fólk sé svo snyrtilegt hérna og hendi aldrei rusli á göturnar. Nei, hér starfa um 10.000 götusóparar sem sjá um að halda borginni hreinni. Nú sjáiði ef til vill fyrir ykkur appelsínugula og hávaðasama vélknúna götusópara en því fer fjarri hér í Póst-sovíet, götusópararnir fá strákúst til verksins. Kústarnir eru eins og þeir sem nornir nota til að fljúga á. Ég veit svo sem ekki alveg hvað þeir eru margir en meðleigjandinn sem er mín helsta upplýsingauppspretta fleygði þessari tölu fram í gær. Flestir þessara starfsmanna eru konur og eru líklega ekki að fá mikið borgað en þær standa sig ofsalega vel sérstaklega ef haft er í huga verkfærið sem þær fá.

Sporvagnarnir hér í borg fara flestir á 5 mínútna fresti og alltaf sömu leið en það eru nokkir sem fara sjaldnar og fara þá einhverja leið sem spannar nokkur hverfi. Til að þessir sporvagnar komist sína leið þarf að breyta sporinu svo þeir geti beygt þar sem annars er ekki beygt. Vagnstjórinn breytir ekki sporinu sjálfur og ekki er það sjálfvirkt. Það eru starfsmenn settir í þetta verkefni eins og önnur, þeir mæta þá nokkrum sinnum á þessa tilteknu staði og toga í stöng til að breyta sporinu. Þetta er þeirra vinna og gætu þeir því kallast sporbreytingastjórar eða eitthvað þvíumlíkt.

Á bókasafninu í skólanum er hægt að prenta og er reyndar allt námsefni skannað inn í tölvur eins og ég hef kannski sagt ykkur áður. En til þess að prenta námsefnið út þarf maður að vera í skólanum það er ekki hægt að komast inn á skólavefinn utan skólans. Þegar maður prentar finnur maður bara skjalið og ýtir á print eins og venjulega en svo fer maður og bíður við prentarann. Hann tekur sér sinn tíma í þetta eins og annað þjónustufólk hér í landi. Þegar prentið er tilbúið fer ég með það til konunnar sem situr við hliðina á prentaranum og hún telur blaðsíðurnar. Ykkur missást ekki hún TELUR blaðsíðurnar, ég hef þurft að bíða á meðan hún taldi 75 blaðsíður og sleikti puttana á milli. Þegar hún er búin að telja skrifar hún upphæð á blað og ég tek blaðið og fer með það til konunnar sem situr í búri frammi á gangi, þar borga ég téða upphæð. Konan í búrinu kvittar á blaðið að ég hafi borgað, síðan fer ég aftur inn á bókasafn og næ í blöðin.

Þetta eru bara örfá dæmi um furðulega skilvirkni hér í Riga, ég gæti setið og talið upp fleiri slík í allan dag. Við sem köllum okkur vesturlandabúa, sem pirrar austantjaldsþjóðir soldið, höfum komist að þeirri niðurstöðu að þetta eins og raðirnar séu leifar af kommúnismanum. Þá þurfti að finna vinnu fyrir alla og ef þær voru ekki til þá varð að finna þær upp. Með því að skipta mannafli ekki út fyrir vélar má halda atvinnuleysi í skefjum. Nú eiga Lettar reyndar ekki í vandræðum með atvinnuleysi því þeir eiga í svipuðum vandræðum og við, þá vantar fólk. En skilvirknin hefur ekki alveg náð fótfestu enn og þarf maður bara að lifa með því.

Hvur veit? kannski læri ég bara þolinmæði á meðan ég er hérna.

5 ummæli:

mamma sagði...

Vertu ekkert að breytast of mikið Þóra mín svo við þekkjum þig þegar þú kemuri tilbaka. Láttu þér bara líða vel

mamma sagði...

Valur er Íslandsmeistari í fótbolta karla. Til hamingju það er verst að vinir þínir í vesturbænum eru ekki nálægt núna

mamma sagði...

Sem ég ligg hér uppí rúmi og les Lesbók mbl verður mér hugsað til þín. Það er grískur blaðamaður að skrifa í grískt blað um reynslu sína af Íslandi.
" Kjáninn ég fór til Íslands í vændum þess að hitta fyrir ómannblendna sveitamenn, hrjúfa fiskimenn, innhverfar, fámálar, broslausar sálir. En ég fann samfélag sem tekur fram öllum evrópskum samfélögum sem ég hef heimsótt. Ég er ekki að ýkja þegar ég segi að Íslendingar sé menntaðasta (og einhver elskulegasta) þjóð á Vesturlöndum sem ég hef haft kynni af hingað til. Bros, rósemi, vinsemd, óaðfinnanleg framkoma, yfirgengileg kurteisi. "
Svo það er ekki von að lettneska afgreiðslufólkið standist ekki þessar kröfur. Það geta ekki allir verið bestir í heimi. Stóðst ekki mátið þetta er frekar fyndið hálf síðu lofgrein um Ísland en fannst samt soldið vænt um hvað fólkið fékk mikið lof.

Andrea sagði...

Mér finnst þetta alveg frábært.
Gaman að lesa að þrátt fyrir hnattvæðingu og kapítalíska innrás í öllum löndum gamla Sovíet, þá er samt eitthvað sem eimir af gamla tímanum.
Sósíalistinn í mér gleðst yfir því :-)

Drekktu tónik (gin bætir víst bragðið af því ;-) við moskítóbitunum. Suður Ameríkanar mæla með því.

Fyndið það sem mamma þín skrifar :-)
Íslendingar eru mér að vitandi bara kurteisir við ferðamenn... við erum ömurleg við nýbúa og fúllynd við hvort annað... Þessi Grikki er góð landkynning samt :-)

Bára sagði...

Ha ha ha.
Það væri nú gaman að vera fluga á vegg og fylgjast með þessum hamförum. Góða skemmtun.