Ég er núna búin að breyta öllum kúrsunum mínum. Ég þarf að taka fleiri einingar en venjulegur nemandi hér því skólinn heima vill ekki meta annirnar jafnt einhverra hluta vegna. En ég er ansi háð námslánum svo ég verð bara að bíta í það súra. En ég er rosa spennt fyrir vettvangsnáminu sem ég er búin að skrá mig í, þá fæ ég að fara á einhvern vinnustað og gera eitthvað stuð. Þetta er innan fjölmiðlafræðinnar hér svo það gæti farið svo að ég skrifi í einhvern ferðamannabækling eða eitthvað annað sem er gefið út á ensku. Þetta þykir mér frábært tækifæri til að kynnast venjulegu lífi hér í borg og get varla beðið. Nú þarf ég bara að sannfæra kennarana mína heima um að þetta sé rosalega nútímafræðilegt allt saman. En ég er í pínu fýlu út í þá núna svo að ég ætla að bíða aðeins með bréfið svo ég segi ekki eitthvað sem ég mun sjá eftir.
Í kvöld fór ég á bar sem heitir Bars I love you! pínu fyndið nafn en stórskemmtilegur og huggulegur staður. Þeir spila voða mikið af skandinavískri tónlist, ekkert Roxette bull þó. Ég heyrði meira að segja ammæli með sykurmolunum um daginn og núna áðan fattaði ég af hverju ég kannaðist svo við myndirnar á veggjunum...þær voru allar af SigurRós! Kannski ekkert skrýtið þó okkur norðurlandabúunum líki vel þarna. Þetta var samt svo óvart, við vorum ekkert að leita að skandinavískum bar þetta gerðist bara. Það eru samt engir íslendingar þarna eða fólk af hinum norðurlöndunum svo þetta sleppur.
Allt í karlkyni í lettnesku endar á -s eins og sést hér að ofan þá er bar ekki bar heldur bars og verslunarmiðstöðvarnar heita centrs. Mér finnst þetta svo fyndið að nú tek ég bara hvaða enska orð sem er og set -s aftan við.
Næstu helgi mun ég að öllum líkindum halda partý hér heima og ég á meira að segja vini sem vilja mæta. Ég er voða hress með þetta en þori ekki alveg að segja meðleigjandanum en hann er bara svo akkúrat eitthvað. Voða fínn en ofsalega akkúrat! Hann fer til noregs um næstu helgi svo að hann þarf ekkert að vita. Ég er meira að segja að spá í að elda fyrir fólkið. Hann Hauke frá Þýskalandi vill endilega að ég steiki lummur handa sér og ég er að spá í að verða bara við því. Ég auglýsi hérmeð eftir Lummu uppskrift, amma Edda gerir bestu lummur í heimi og ég vona að það sé genatískt. Ég varð útundan þegar prjónageninu var úthlutað, hef líklega verið bakvið tré en hlýt að hafa lummugenið. Annað væri bara ósanngjarnt.
Lífið í Riga er að komast í einhverjar skorður og ég er komin í rosa fínan vinahóp sem er alltaf til í að gera eitthvað. Komin með rosaplön fyrir helgina, Tallinn ferð einhvern tíma og jafnvel Sankti Pétursborg. Mér líkar þetta vel.
2 ummæli:
hæ hæ
Ég held þú hafir nú eitthvað af prjónageni þetta er vanmat hjá þér vantar bara æfingu. Ég reyni að pína út úr ömmu þinni uppskrift en held það sé allt slump hjá henni reyni samt hún var einmitt að muna eftir skonsunum um daginn við mikinn fönguð afkomendanna þær höfðu ekki verið bakaðar lengi og hún kann þetta ennþá. Þú meinar skonsurnar er það ekki? Okkur gekk eitthvað illa að ná saman í símann í dag reyni aftur á morgun Bless í bili
p.s afhverju er klukkan í tölvunni alltaf bandvitlaus
Skrifa ummæli