mánudagur, 17. september 2007

Vilnius er fín

Jæja þá er ég komin frá vilnius. Það var voða fínt hjá þeim þarna niðurfrá en þeir virðast leggja meira í að gera upp byggingarnar sínar en þeir gera hér. Borgin er því mjög falleg á að líta og hrein. Hún er líka mjög róleg og friðsæl ólíkt Riga sem er bara doldið eins og stórborg þó að hún sé lítil. Ég er svoddan smábæjarmanneskja og þess vegna líkar mér miklu betur við Vilnius en Riga. Auðvitað á ég eftir að venjast röðunum og hávaðanum hér en mér þótti ofsalega gott að komast út úr borginni. Sveitin er bara býsna falleg hér þó hún sé alveg flöt. Hér eru skógar og sveitahúsin eru voða sæt og fín.

Krakkarnir sem tóku á móti okkur voru mjög dugleg að draga okkur hingað og þangað en við fórum til dæmis hingað í Sjónvarpsturninn sem er rosa hár. Hann er 326 metrar en veitingahúsið þar fólk fær að njóta útsýnisins er í 160 metra hæð. Í frelsisbaráttunni 1991 dóu 14 Litháar og 700 slösuðust þegar þeir voru að mótmæla því að Sovíetríkin hefðu hertekið turninn.

Við fórum líka á KGB safnið sem er staðsett í gömlu herstöðvunum Í Vilnius. Þar var fangelsi í kjallaranum og hefur það fengið að standa í upprunalegu ástandi. Það var mjög óhugnalegt að litast um þar.

Lithaár komust ansi langt í Evrópukeppninni í körfubolta og kvöldið sem við komum komust þeir í undanúrslit sem þeir reyndar töpuðu svo fyrir Rússlandi. En stemmningin var gríðarleg fólk dansaði úti á götu og bílar skreyttir fánum bibuðu og keyrðu í hringi. Þetta var mjög skemmtilegt að sjá en það hefði verið gaman ef þeir hefðu unnið leikinn gegn Rússum líka. En við fréttum svo að Litháen endaði í 3. sæti svo það er fínasti árangur.

myndirnar koma bráðum. var búin að setja inn rosa fína möppu en svo hvarf hún og ég nenni ekki að byrja upp á nýtt alveg strax

Engin ummæli: