fimmtudagur, 1. janúar 2009

Gleðilegt nýtt ár

Jæja þá er komið af fréttum af valmúganum. Þetta hefur verið það allra skrítnasta gamlárskvöld sem ég hef nokkurn tíma upplifað. Var að vinna frá klukkan tvö til tíu sem mér fannst ekkert slæmt þar sem meistarakokkurinn er að vinna líka svo við ætluðum bara að fagna nýárinu saman og jafnvel heyra í einhverjum af þeim sem við þekkjum hérna. Ég mæti sprellifín og hress á vaktina klukkan tvö (yfirmaðurinn hrósaði mér meira segja fyrir útganginn á mér, þá hlýt ég nú að hafa verið sæt maður). En ég fann strax að íbúarnir voru ekkert sérstaklega vel stemmdir sem er ekki að furða þar sem þau eru háð reglu og því hefur ekki verið að sælda yfir hátíðarnar. En svo kemur sú sem átti að vinna með mér (eftir að hafa hringt og sagt að sér seinki) og ég sé strax að hún er heldur ekki vel stemmd. Frábært! En stelpan tapar ekki gleðinni...til að byrja með. Það kemur svo í ljós að konan sem ég kýs að kalla jónu (heitir það sko ekkert, hún er dönsk) er með magakveisu.

Það er svo sem ekkert nýtt þar sem hún hefur átt í erfiðleikum lengi. En til að gera langa sögu stutta þá dvaldi hún á klósettinu 75% af vaktinni. Hún hafði ákveðið að við skyldum borða þorsk upp á danskan máta sem ég þekki ekki og var bara ánægð með það. Það kom babb í bátinn þar sem hún komst ekki í að elda hann og ég kann bara ekki að gufusjóða fisk. Ég gerði allt annað tilbúið þar sem hún þráaðist við að hann skildi eldaður á þennan hátt. Það endaði þess vegna með því að við borðuðum smörrebröd eða réttara sagt þau borðuðu en ég át ekki rassgat.

Ég stóð sem sagt ein á vaktinni og mátti punta stofuna, klæða fólkið í sparipússið (sem reyndar ég hefði betur sleppt því þetta var engin veisla) og gefa því að borða. Heimilisfólkið var eins og áður sagði ekki vel stemmt og hvert öðru pirraðra. Ég að tapa mér úr stressi, snappa á greyin og dey svo úr samviskubiti yfir því og helli í þau bjór.

En rúsínan í bölvuðum pulsuendanum var nú samt sú að ég var læst úti og búin að vinna langt á undan meistarakokkinum. Það sem meira var hafði ég líka gleymt helvítis símanum heima. Ókei nú er ég farin að blóta og skammast mín bara ekkert fyrir það. Ég fann nú samt númerið á veitingastaðnum (því mér er nottla fyrirmunað að muna þessu dönsku númer) og hringdi í meistarakokkinn sem var á skítafloti en leyfði mér nú samt að koma og fá lyklana hans, þessi elska. En kjúklingurinn sem ég er þorði ekkert að fara í strætó og labba og taka metró og allt þetta svona með alla stórhættulegu flugeldana fljúgandi rétt yfir höfðinu á mér svo ég hringdi á leigubíl. Sem var snöggur og allt í fínu með það en svo vildi hann ekki bíða eftir mér svo ég þurftu að hlaupa út á kongens nytorv til að komast heim aftur.

Ég gekk þá mjög hröðum skrefum í átt að torginu með hendur fyrir eyrum mér til verndar eftir að hafa fengið lyklana. Haldiði að það hafi ekki verið einhverjir fjárans únglíngar sem stóðu útí glugga á annarri hæð hendu svona hávaða kínverjum út niður á götu. Það sem meira var þá tvíelfdust þessir andskotar þegar þeir sáu fólk ganga fram hjá. Hvað er að fólki??? Þetta var nú aðeins meira en mitt hjarta þoldi og hljóp ég fram og til baka yfir götuna og reyndi að finna út hvort betra væri að vera beint fyrir neðan þá eða á gangstéttinni fjær. Það tók smá tíma og nokkrar atlögur að komast framhjá, fjandinn hafi það. Hér eru miklu færri flugeldar en heima en hér kann fólk ekki að fara með þá, magaveika konan hafði nefnilega sagt mér líka að hún þyldi ekki þegar fólk kastar í hana flugeldum. ER EKKI Í LAGI? Maður getur nú labbað óhultur í Reykjavík klukkan 10 á gamlárskvöld. Nei hér kann fólk bara ekkert að fara með þetta og það er verra en brjálæðið á Íslandi. Og hana nú!

En þetta fór nú batnandi eftir þetta og komst ég heim heil á höldnu. Kokkurinn kom svo hálftíma síðar en þá vorum við bæði svo þreytt eftir daginn að við hreinlega nenntum ekki niðrí bæ til að vera voða hress með öðrum. Við fögnuðum því árinu tvö í valmúganum og var það voða næs. Horfðum á flugeldana út um gluggann í sitt hvoru herberginu, hann í eldhúsinu með sinn galopinn og ég inná klói með minn glugga kyrfilega lokaðan og með hendur á eyrum. Svo spiluðum við tónlist í nýju hljómflutningsgræjunum mínum og dönsuðum í eldhúsinu. karlinn fékk að ráða tónlistinni til að byrja með og hóf hann tónleikana á maístjörnunni sem okkur þótti viðeigandi. en svo komst stelpan í græjurnar eftir íslenska klukkutímann og blastaði dollý og félögum.

það rættist því úr kvöldinu sem betur fer en nú þarf ég að fara að drífa mig í vinnuna aftur og verð þeirri ánægju aðnjótandi að vera að vinna með sömu gellu og í gær. veiiiiiii

2 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Æi það var nú gott samt að þetta endaði allt vel. Nú fæ ég samviskubit yfir að hafa ekki reynt betur að ná í þig í gærkvöldi reyndi en náði ekki sambandi hefði auðvita átt að hlaupa upp á fjall og reyna betur.Gleðilegt nýtt ár og skilaðu kveðju til kokksins líka. Mamma

Nafnlaus sagði...

Æh gleðilegt ár elskurnar..núna skil ég afhverju sífellt fleiri lönd eru að banna fólki að kaupa sér flugelda! Omg..
Gott að allt endaði vel þó, bið að heilsa kokksa..
Knúz..Svilan