sunnudagur, 23. september 2007

Helgin er leið

Helgin hefur verið ansi viðburðarík og er ég bara nokkuð ánægð með það. Við fórum nokkrar á ströndina sem staðsett er í Júrmala og er bara ægilega fín. Lestin frá Riga tekur hálftíma þangað svo þetta var pínu ferðalag. Alltaf er ég jafn hissa á því hvað sveitin er fín hérna í kring. En það var fullt af fólki á ströndinni þó að ég og Johanna værum þær einu sem skelltum okkur í sjóinn. Hann var bara 10 gráðu heitur og var sundferðin ansi hressandi. Fólk horfði náttúrulega á okkur eins og við værum fæðingarhálfvitar en við skeyttum því engu. Það var búið að taka niður alla búningsklefana og læsa flestum klósettum, það virðist ekki vera gert ráð fyrir því að fólk sé að baða sig í sjónum á haustin. Skil ekkert í því!

Fólk var á ströndinni í úlpum með húfur þó að það væri 18 stiga hiti, þetta eru voðalegar kuldaskræfur hérna.

Partýið í gær fór einstaklega vel fram og þarf ég alveg að fara að venjast því að vinir mínir hér eru ofsalega settlegir þegar kemur að drykkju. Ég er alltaf svo viss um að þeim leiðist en svo er ekki, þau eru bara svona róleg. Lummurnar slógu í gegn en maturinn sem Dagmar frá hollandi eldaði varð svo rótsterkur að varla var hægt að koma honum niður. Við tvær fórum saman í búðina og tók það 20 mínútur að finna einhverja bolognese sósu sem átti að passa en þetta fór ekki betur en svo að við svitnuðum öll við kvöldverðar borðið. Janis (vatnstankurinn víðfrægi) hafði ekki undan við að svala þorsta gestanna eftir matinn svo við verðum að panta meira vatn á morgun.

Í dag fór ég svo ásamt tveimur öðrum í open air museum sem var bara ofsalega fínt. Veðrið var æðislegt og röltum við innan um æfagömul timburhús í skóginum. Þar var fólk í þjóðbúningum að vinna við hefðbundin sveitastörf frá því í gamla daga. Þetta var ofsalega fínt og tók ég fullt af myndum sem ég mun setja á síðuna von bráðar. Við fengum okkur líka að borða og stóðum í hefðbundinni Lettneskri röð.

Ég veit ekki hvort ég hef sagt ykkur frá því fyrr en hér er öll þjónusta með því allra hægasta sem ég hef nokkurn tíma upplifað. Fólk í afgreiðslustörfum virðist bara með engu móti geta hreyft sig á eðlilegum hraða. Alls staðar sem maður fer lendir maður í röð og hún gengur alltaf ótrúlega hægt. Þetta er eitthvað sem þarf bara að venjast en mikið rosalega getur þetta farið í taugarnar á mér. Innfæddir virðast ekkert pirra sig á því þó að afgreiðslumanneskjan stoppi andartak til að spjalla við vini sem koma í heimsókn. Okkar kenning er sú að þetta sé eitt af póst-sovíetskum einkennum Eystrasaltslandanna, allir séu bara vanir því að þurfa að bíða í klukkutíma röðum eftir brauði.

Bölvaðar moskítóflugurnar hafa látið á sér kræla á ný og vaknaði ég með 11 bit í andlitinu í morgun. Já þið lásuð rétt ELLEFU bit í andlitinu. Ég lít út eins og fílamaðurinn þar sem flest bitanna eru í kringum vinstra augað. ÉG er að verða brjáluð á þessu satt best að segja, fór og keypti meira smyrsl til að bera á þetta þar sem hitt sem ég keypti er búin. Ég reyndi að finna einhverjar fælur en það virðist vera ómögulegt. Ég fann eitthvað dót sem ég er að prófa núna en sýnist á myndunum þetta vera kakkalakka-eitur, sjáum til. Ég á fullt af spreyjum og b-vítamíni en ekkert dugar...aaaaarrrrrrgggh! Bitið á augnlokinu er mest pirrandi!

8 ummæli:

Unknown sagði...

Lestin frá Riga tekur hálftíma þangað svo þetta var pínu ferðalag.

Ég tek strætó í vinnuna daglega. Tekur mig um hálftíma. Finnst það ekkert ferðalag og samt er ég bara að fara að vinna en ekki á fína strönd!

:(

mamma sagði...

Það var ekki laust við amma þín væri svolítið montin að skonsurnar hennar væru komnar á netið. Hún biður að heilsa og afi líka

mamma sagði...

þetta er fríður flokkur fjölþjóðlegur þarna á myndinni með Janis í bakgrunni og fín stofan hjá þér. Ég get kannski fundið fyrir þig einhver náttúrulyf við flugnabitunum hér á Íslandi.

mamma sagði...

Ég fann eitthvað tæki sem drepur flugur sem maður setur í samband við rafmagn hjá PMT en það kostaði 25 þús krónur það er notað hérna í verksmiðjunni hjá okkur. Reyni að finna eitthvað ódýrara og senda þér.

mamma sagði...

Svo er einhver sem notar ofnæmiskrem sem heiti mildison á bitin. Ég vona að þetta fari að lagast hjá þér Þóra mín af öllu þurftir þú að erfa þetta frá mér. Er á fullu að reyna að finna eitthvað sem virkar kannski er hægt að taka inn ofnæmispillur sem eru við allskonar ofnæmi ég fékk einhverjar pillur á Spáni einu sinni eftir stór orrustu flugna á mig. Sendi þér einhverja lausn á morgun og nota svo hugar orkuna á meðan til að lina kláðann.

xxxx sagði...

finnst svona eins og þetta sé ekki alveg það eina sem ég erfði. gæti verið að rugla samt.

mamma sagði...

jú ég held það sé nú lítið annað sem betur fer fyrir þig

mamma sagði...

p.s. einu sinni enn Var verið að segja mér frá flugnafælu á 1000 kall í rúmfatalagernum ef það er ekki til þá í byko eða husasm svo þetta er til í svoleiðis búðum. Redda þessu á morgun. Sendi þér góða strauma svo mannstu tæknina mína. Kveðja mamma